Kennileiti Perlan í kvöldsólinni.
Kennileiti Perlan í kvöldsólinni. — Morgunblaðið/Ómar
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu við hæstbjóðendur í útboði vegna sölu Perlunnar. Ekki er upplýst hverjir standa að baki tilboðinu en fjárfestarnir hafi frest til 31.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu við hæstbjóðendur í útboði vegna sölu Perlunnar. Ekki er upplýst hverjir standa að baki tilboðinu en fjárfestarnir hafi frest til 31. mars næstkomandi til að aflétta fyrirvörum í tilboði sínu sem hljóðar upp á tæplega 1.700 milljónir króna.

Eftir að fjölmiðlar greindu frá þessum áfanga í söluferlinu gagnrýndi Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að stjórn OR skyldi ekki hafa verið upplýst um yfirlýsinguna.

„Bagalegt“ samskiptaleysi

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, brást við þeirri gagnrýni í samtali við mbl.is í gærkvöldi með því að segja „vissulega bagalegt“ að stjórninni hefði ekki verið tilkynnt um áfangann áður en hann spurðist út til fjölmiðla.

Vildi Haraldur Flosi ítreka að ekki væri um að ræða endanlega sölu heldur snerist yfirlýsingin fyrst og fremst um að veita hæstbjóðendum svigrúm til að kanna arðsemi fjárfestingarinnar. Fram kom í fjölmiðlum að fjárfestarnir horfi m.a. til þess að reisa hótel við Perluna.

Aðspurð um slíkar hugmyndir segir Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri Reykjavíkur, að óheimilt sé að byggja á Perlureitnum að óbreyttu.

„Öskjuhlíð er mikilvægt útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga og höfuðborgarsvæðið. Því þyrfti að breyta aðalskipulagi og deiluskipulagi til að heimila þar slíkar framkvæmdir. Framundan væri langur ákvörðunarferill. Málið er hvorki komið til umræðu hjá skipulagssviði né skipulagsráði Reykjavíkur.

Ég tel afar hæpið að teknar yrðu skipulagslegar ákvarðanir um Öskjuhlíðina eingöngu á grundvelli sölu Perlunnar,“ segir Ólöf.

Kallaði á nýtt útboð

Að mati Kjartans Magnússonar þarf líka að skoða lagahliðina betur.

„Líklegt er að ef einn aðili fær að reisa hótel á svæðinu á grundvelli núverandi sölulýsingar muni aðrir kvarta og benda á að leyfið sé ekki hluti af útboðinu á Perlunni. Mér finnst líklegt að lögfræðingar kæmust að þeirri niðurstöðu að þá þyrfti að fara í annað útboð,“ segir hann.