„Það á að vera liðin tíð að stjórnmálamenn lofi upp í ermina á sér,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vegna ummæla Kristjáns Möller, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi samgönguráðherra, um samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar en Kristján segist ekki geta stutt áætlunina m.a. vegna frestunar Norðfjarðaganga og áætlunar ríkisstjórnarinnar til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Ögmundar væri óskandi að fjárhagur ríkissjóðs væri betri og hægt væri að fara í öll þau brýnu samgönguverkefni sem liggja fyrir. „Krafan á hinu nýja Íslandi, sem stundum er kallað svo, er að menn sýni í senn fyrirhyggju og raunsæi hvað varðar allar framkvæmdir,“ segir Ögmundur. Þá telur Ögmundur að Kristján fari ekki rétt með um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. „Mér sýnist hann vera að rugla saman áformum sem voru uppi á sínum tíma til að fjármagna stórframkvæmdir á Suðurlandi, Vesturlandi og Reykjanesi með gjaldtöku, t.d. vegatollum, í samvinnu við lífeyrissjóðina eða aðra. Kristján Möller hafði það verkefni um skeið að koma þessu á en það tókst ekki. Nú heyrist mér á máli Kristjáns að þetta sé orðið að framkvæmdum sem ríkissjóður ætlar að framkvæma með hjálp lífeyrissjóðanna og þetta er hreinn hugarburður. Ég vona að umræðan um samgönguáætlun verði á málefnalegri og faglegri nótum en mér sýnist Kristján Möller vera að sýna í sínum málflutningi.“
Samgönguáætlun verður lög fyrir á vorþingi ásamt skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar.
vilhjalmur@mbl.is