Söluaukning á jólabjór nemur um 48% frá síðasta ári. Um helgina var búið að selja 462,5 þúsund lítra af jólabjórnum, en á sama tíma í fyrra höfðu selst 312,7 þúsund lítrar. Miðað við að lítri af jólabjór kosti að meðaltali 920 krónur með vsk. er búið að selja þennan eftirsótta mjöð fyrir um 426 milljónir króna á rúmum mánuði.
Um 26% af verði bjórsins eru innkaupsverð ÁTVR frá birgjum, um 62% af verðinu fara í skatta, þ.e. áfengisgjöld og virðisaukaskatt, og álagning ÁTVR er um 12%. Samkvæmt þessum tölum hefur jólabjórinn skilað hinu opinbera 264 milljónum króna. Sölutímabilið er frá 15. nóvember og því lýkur á þrettándanum.
Sumar tegundir eru uppseldar í einstökum Vínbúðum en í flestum þeirra eru einhverjar tegundir til, samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR. Margar tegundir eru hins vegar uppseldar hjá framleiðendum og innflytjendum og því ekki von á meira magni af þeim.
Söluhæstur er Tuborg-jólabjór með 144,8 þúsund lítra, þar á eftir kemur Víking-jólabjór með 128 þúsund lítra og í þriðja sæti er Kaldi jólabjór með 54 þúsund lítra. Kaldinn er eingöngu framleiddur í 330 ml flöskum, en hinar tegundirnar koma í tveimur stærðum af dósum; 330 ml og 500 ml auk 330 ml flösku.
aij@mbl.is