Irene Florence Gook lést í gærmorgun á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, 102 ára. Foreldrar hennar voru Arthur Charles Gook og Florence Ethel Palmer frá London, kristniboðar hér á landi. Irene fæddist í London 11.

Irene Florence Gook lést í gærmorgun á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, 102 ára.

Foreldrar hennar voru Arthur Charles Gook og Florence Ethel Palmer frá London, kristniboðar hér á landi. Irene fæddist í London 11. ágúst 1909 og bjó ytra þar til veturinn 1948-49. Hún kenndi í mörg ár við námsflokka Akureyrar og starfaði líka sem ljósmóðir og hjúkrunarkona. Árið 1961 giftist hún Guðvin Gunnlaugssyni kennara, sem þá var ekkjumaður, og eignaðist þá þrjú stjúpbörn, Auði, Baldur og Sæmund. Guðvin lést 2001. Árið 1976 var Irene sæmd MBE-orðu frá Bretadrottningu, er feðginin höfðu verið breskir vararæðismenn í 50 ár samtals.

Irene hafði búið á Hlíð í meira en áratug, lengst af við mjög góða heilsu. Hún las, skrifaði, spilaði á píanó, tók ljósmyndir, sinnti trúmálum, málaði, fylgdist mjög vel með þjóðmálum og stórfjölskyldunni. Oft las hún eða spilaði fyrir aðra vistmenn enda var andlegur þróttur hennar með ólíkindum allt fram í andlátið og sjón og heyrn í bærilegu lagi. Irene ók bíl fram á miðjan tíræðisaldur og gekk keik allt fram á þetta ár þegar hún missti mátt niður í fæturna og varð að fara í hjólastól.