Þakklæti „Fólk faðmar mig fyrir þessa bók hérna heima í sveitinni minni og ég held að það sé ekki hægt að hugsa sér betri viðtökur,“ segir Sigríður Jónsdóttir um bók sína Kanil.
Þakklæti „Fólk faðmar mig fyrir þessa bók hérna heima í sveitinni minni og ég held að það sé ekki hægt að hugsa sér betri viðtökur,“ segir Sigríður Jónsdóttir um bók sína Kanil.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ástin og kynlíf hafa verið hugðarefni mín allt mitt líf. Það var komið að því að ég varð að skrifa um þetta.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ástin og kynlíf hafa verið hugðarefni mín allt mitt líf. Það var komið að því að ég varð að skrifa um þetta. Ég lagðist því út í laut með roða í kinnum og skrifaði um kynlíf,“ segir Sigríður Jónsdóttir, sem nýverið sendi frá sér bók er nefnist Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf . Spurð hvort hún gefi bókina út með roða í kinnum svarar Sigríður játandi. „Ekki þannig að skilja að ég skammist mín fyrir þetta, því fyrst ég hafði svona mikla þörf fyrir að skrifa þetta þá eru einhverjir sem hafa þörf fyrir að lesa þetta,“ segir Sigríður og bendir á að kynlífskaflarnir séu yfirleitt uppáhaldsbókarkaflar allra í skáldsögum.

„Ég hitti einmitt bókasafnsfræðing um daginn sem sagði að það væri enginn vandi að finna þessa kafla í bókasafnsbókunum því þær opnast þar sjálfkrafa,“ segir Sigríður og tekur fram að vel skrifaðir kynlífskaflar séu ótrúlega skemmtilegir aflestrar og því liggi beint við að lesa þá oftar en aðra kafla. „Þegar kom að útgáfunni þá vildi ég ekki smygla þessu efni inn í ljóðabók almenns efnis, því ég vildi að fólk gæti gengið beint að því að þetta fjallaði um kynlíf. Þeir sem kærðu sig ekki um að lesa um kynlíf gætu þá bara lesið einhverjar aðrar bækur,“ segir Sigríður og tekur fram að hún neiti að lesa upp úr nýju bókinni.

„Ég les ekki upp úr bókinni minni af siðferðisástæðum þótt venjan sé sú að höfundar lesi upp úr nýútkomnum bókum sínum,“ segir Sigríður og bætir við: „Þetta er eins og með kynlíf yfirleitt. Fólk grunar að ég stundi kynlíf, enda hef ég verið gift í tuttugu ár og á þrjú börn, en það kemur ekki til greina að ég geri það á almannafæri.“

Nauðsynlegt mótvægi við klámvæðinguna

Sigríður er sauðfjárbóndi í Arnarholti í Biskupstungum auk þess sem hún kennir náttúrufræði, eðlisfræði og efnafræði í grunnskóla Bláskógabyggðar. Sem náttúrufræðikennari ber hún einnig ábyrgð á kynfræðslunni í 9. bekk. „Ég lít á bókina mína sem nauðsynlegt mótvægi við klámvæðinguna. Því hvar á unga fólkið að fá leiðarsteina fyrir sín viðmið um hvað sé eðlilegt? Ef það fær engar fyrirmyndir nema glanstímarit og klám þá er kannski erfitt að ætlast til þess að siðferðislínan hnikist ekki til og út fyrir þau mörk sem við teljum æskileg,“ segir Sigríður.

„Sú veröld sem birtist okkur í glanstímaritum er fáránleg og ekki til neins nema að rífa niður sjálfsmynd kvenna og hafa af þeim peninga. Vikuritin fjalla nánast bara um förðun og kynlíf. Mér finnst gaman að vera sæt og líta vel út og fá athygli, en ég held að maður þurfi ekki að gera það með einhverju sem maður kaupir sér,“ segir Sigríður og tekur fram að sjálf máli hún sig aldrei, hafi aldrei litað á sér hárið, eigi fjórtán lopapeysur og mun færri skópör.

Kanill er önnur ljóðabók Sigríðar, en fyrir sex árum sendi hún frá sér Einnar báru vatn . Nýverið var Kanill tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, í flokki fagurbókmennta. „Ég er í skýjunum yfir þessari tilnefningu, sem kom mér algjörlega í opna skjöldu enda lít ég ekki á mig sem rithöfund,“ segir Sigríður og tekur fram að sér þyki afar vænt um hversu vel bók hennar hafi verið tekið, jafnt meðal bókmenntafræðinga og samsveitunga hennar. „Menn eru svolítið héralegir út af þessu þangað til þeir eru búnir að lesa bókina. Fólk faðmar mig fyrir þessa bók hérna heima í sveitinni minni og ég held að það sé ekki hægt að hugsa sér betri viðtökur,“ segir Sigríður að lokum.

UPPHAFSLJÓÐIÐ SLÆR TÓNINN

Innihald

Kanillinn er kynlíf

sykurinn er ástin

grauturinn og mjólkin eru lífið

bæði þykkt og þunnt.

Við höfum ekkert að gera við kanil eintóman

en hin efnin geta öll nýst án hans.

Þó eigum við kanil einan á bauk

að grípa til bragðbætis.

Þessi kanill verður blandaður sykri.

Þannig er hann bestur.