Hilmar Ögmundsson
Hilmar Ögmundsson
„Barnabætur voru hækkaðar 1. janúar 2009, um sem sagt þrettán þúsund krónur fyrir einstæð foreldri og um átta þúsund krónur fyrir hjón.

„Barnabætur voru hækkaðar 1. janúar 2009, um sem sagt þrettán þúsund krónur fyrir einstæð foreldri og um átta þúsund krónur fyrir hjón. Krónutalan hefur ekki hækkað síðan,“ segir Hilmar Ögmundsson, hagfræðingur BSRB, sem bætir við að hann sé búinn að fá það staðfest frá fjármálaráðuneytinu að þar á bæ ætli menn ekki að breyta þessu.

Frítekjumarkið er líka frosið

„Hinn vinkillinn er svokallað frítekjumark, þ.e. hvað þú mátt hafa mikið í laun áður en bæturnar skerðast, en það hefur heldur ekki breyst frá 1. janúar 2009. Það stendur í 1,8 milljónum fyrir einstæð foreldri og síðan tvisvar sinnum sú upphæð fyrir hjón,“ segir Hilmar en að hans sögn hefði frítekjumarkið átt að fylgja launavísutölunni líkt og tekjumörkin fyrir skattþrepin gera. Hilmari þykir mjög undarlegt að verið sé að frysta bæði frítekjumarkið og krónutöluna á sama tíma. Hilmar bendir einnig á að á þessu ári hafi verið gerðar breytingar á barnabótakerfinu sem feli í sér skerðingu á viðbótarbarnabótum umfram frítekjumarkið, en slíkar bætur höfðu áður ekki verið tekjutengdar. „Það er byrjað að skerða viðbótarbarnabæturnar um 3% af hverri krónu umfram frítekjumarkið og skerðingarhlutfallið á fyrsta barni umfram frítekjumark var hækkað um 1%, þ.e. úr 2% og yfir 3%,“ segir Hilmar.

Spara rúmlega milljarð

Samkvæmt fjárlögum fyrir 2011 áttu 9,2 milljarðar að fara í barnabætur en að sögn Hilmars hefur ríkið aðeins greitt um 8 milljarða í barnabætur á árinu, eða rúmum 1 milljarði minna en gert var ráð fyrir. Hilmar telur að þetta megi rekja til kjarasamninganna sem undirritaðir voru í sumar, þ.e. að óbreytt frítekjumark og hærri laun hafi leitt til aukinnar skerðingar. „Ef þeir ætla að halda þessu áfram verður ekkert barnabótakerfi hérna til, þá koma þessar upphæðir ekki til með að skipta neinu máli, ekki fyrir einn eða neinn,“ segir Hilmar.

skulih@mbl.is