Efnilegur Tandri Konráðsson stefnir á að ná langt í handboltanum.
Efnilegur Tandri Konráðsson stefnir á að ná langt í handboltanum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Tandri Már Konráðsson, unga skyttan í liði HK úr Kópavogi, er leikmaður 12.

Handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Tandri Már Konráðsson, unga skyttan í liði HK úr Kópavogi, er leikmaður 12. umferðar í N1-deildinni í handknattleik, að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins en hann átti flottan leik í sigri HK-inga gegn Frömurum í síðustu viku.

Í umsögn Morgunblaðsins um leikinn sagði meðal annars: „Tandri Már Konráðsson lét verulega að sér kveða og forvitnilegt verður að fylgjast með honum eftir áramót. Tandri byrjaði á bekknum en skilaði sex mörkum eftir að hann kom inn á og skoraði nokkur mikilvæg þegar Fram var með leikmenn í kælingu.“

„Ég er virkilega ánægður að hljóta þessa viðurkenningu,“ sagði Tandri Már þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.

Sé ekki eftir því að hafa farið til HK

Tandri er 21 árs gamall og gekk til liðs við HK frá Stjörnunni í sumar en hvað varð til þess að hann ákvað að yfirgefa Stjörnuna, félagið sem hann hefur leikið með frá unga aldri?

„Mér fannst ég þurfa að breyta til, fá nýja áskorun og spila í efstu deild. Ég kannaðist við nokkra stráka úr HK-liðinu og ég vissi að það vantaði skyttu í liðið og ég sé ekki eftir að hafa valið að fara til HK. Ég er mjög ánægður,“ sagði Tandri við Morgunblaðið.

HK er í þriðja sæti N1-deildarinnar, liðið er komið í undanúrslit bikarkeppninnar og leikur í deildabikarnum milli jóla og nýárs en þar keppa fjögur efstu liðin í deildinni um bikarinn.

Eigum töluvert inni

„Við erum bara ágætlega sáttir við stöðu okkar en mér finnst samt að við eigum töluvert inni. Hópurinn er enn að slípast saman og ég tel að við verðum bara sterkari þegar á veturinn líður. Við gerum okkur vel grein fyrir því að baráttan um að komast í úrslitakeppnina verður mjög hörð. Akureyringarnir eru að sækja í sig veðrið og hver leikur eftir áramótin verður mjög mikilvægur. Við ætlum okkur að komast í úrslitakeppnina. Ég tel að við séum með lið til að berjast um titla í vetur. Við gefum bestu liðunum ekkert eftir en við megum ekkert slaka á. Ég hef fulla trú á að árið 2012 verði gott fyrir HK.“

Léttreyktur matur um jólin

Tandri Már og samherjar hans verða að fara sér hægt í jólaátinu en á milli jóla og nýárs taka fjögur efstu liðin þátt í deildabikarnum.

„Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem HK kemst í þessa keppni. Það er fínt að halda mönnum á tánum og Erlingur þjálfari sagði við okkur að nú yrðum við að fá okkur léttreyktan mat um jólin. Við tökum þessa keppni mjög alvarlega og stefnum á að vinna hana,“ sagði Tandri en HK mætir Íslandsmeisturum FH í undanúrslitum.

Tandri Már starfar í Landsbankanum en eftir áramótin tekur skólinn við en hann mun þá leggja stund á viðskiptafræði. Hann segist hafa mikinn metnað fyrir handboltanum.

„Atvinnumennska í útlöndum freistar mín og stefnan er að það verði einhvern tíma að veruleika. Ég er ekki í þessu sporti til að eignast vini heldur ná árangri,“ segir Tandri og hló við.

Spurður hvort hann eigi sé fyrirmynd í handboltanum sagði Tandri Már: „Ég horfi klárlega til Nikola Karabatic í þeim efnum. Hann er stórkostlegur handboltamaður. Hann er alhliða leikmaður, er gríðarlega sterkur líkamlega og mikill liðsmaður. Ég lít mikið upp til hans.“