P atrekur Jóhannesson stýrir landsliði Austurríkis í handknattleik karla í fyrsta skipti á heimavelli í kvöld. Austurríkismenn taka þá á móti Alsír í fyrri vináttuleik þjóðanna af tveimur og fer hann fram í Krems. Sá seinni fer fram í Horn annað kvöld. Patrekur stjórnaði austurríska liðinu fyrst á alþjóðlegu móti í Póllandi þar sem það vann Hvíta-Rússland en tapaði fyrir Póllandi og Rússlandi. Liðið býr sig undir undankeppni HM í janúar þar sem það er í riðli með Bretlandi og Ísrael.
Skíðasamband Íslands hefur valið Björgvin Björgvinsson skíðamann ársins og Írisi Guðmundsdóttur skíðakonu ársins 2011. Björgvin varð fjórfaldur Íslandsmeistari á árinu og komst hæst í 51. sæti á heimslistanum í svigi. Íris varð þrefaldur Íslandsmeistari og hennar besti árangur var annað sæti á alþjóðlegu svigmóti í Noregi. Björgvin og Íris hættu bæði keppni í sumar. Mikill kostnaður við að vera í fremstu röð vó þyngst hjá þeim báðum en Íris hefur auk þess glímt við endurtekin meiðsli.
Körfuknattleikssamband Íslands hefur valið Jakob Örn Sigurðarson og Helenu Sverrisdóttur körfuknattleiksfólk ársins 2011. Jakob átti stóran þátt í sigri Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni síðasta vor, tryggði liðinu m.a. oddaleik með ævintýralegri körfu og skoraði síðan 31 stig í síðasta úrslitaleiknum. Helena lék sitt síðasta tímabil í bandaríska háskólakörfuboltanum og varð síðan fyrsta íslenska konan til að spila í Meistaradeild Evrópu eftir að hún gekk til liðs við Good Angels Kosice frá Slóvakíu.
Aðalheiður Rósa Harðardóttir frá Akranesi og Kristján Helgi Carrasco úr Víkingi í Reykjavík eru karatefólk ársins 2011 hjá Karatesambandi Íslands. Aðalheiður er Íslands- og bikarmeistari í kata og Kristján er Íslands- og bikarmeistari í kumite. Bæði unnu þau til verðlauna á alþjóðlegum mótum á árinu.
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir var útnefnd íþróttamaður Ármanns fyrir árið 2011. Ásdís kastaði 59,15 metra á HM í Suður-Kóreu og hefur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum 2012. Ásdís er fremsti spjótkastari kvenna á Norðurlöndum, er í 41. sæti yfir besta árangur í heiminum á þessu ári og í 26. sæti yfir þær bestu í Evrópu.
Metáhorf var hjá norsku sjónvarpsstöðinni TV2 í fyrrakvöld þegar Norðmenn og Frakkar léku til úrslita á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Brasilíu. Meðaláhorf á leikinn var 1,6 milljónir en þegar mest var fylgdust nærri 2 milljónir manna með leiknum í sjónvarpinu. Gamla metið var 1,475 milljónir en svo margir horfðu á norska Idolið. Norðmenn fögnuðu sigri á Brasilíumönnum, 32:24, í úrslitaleiknum og eru nú heims- ólympíu og Evrópumeistarar en þjálfari liðsins er Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson .