Ólöf P. Hraunfjörð bókavörður, Lækjasmára 4, 201 Kópavogi, fæddist 10. júlí 1932 í Selbúðum í Reykjavík. Hún andaðist á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 6. desember 2011.

Foreldrar: Kristjánsína Sigurást Kristjánsdóttir (Ásta) fiskverkakona, f. 6. júní 1891 að Stekkjartröð í Eyrarsveit, d. 27. júlí 1980 í Reykjavík, og Jóhann Pétur Jónsson Hraunfjörð, skipstjóri og verkamaður, f. 14. maí 1885 í Helgafellssveit, d. 5. mars 1957. Pétur var sonur Jóns Jóhannessonar, bónda á Berserkjaeyri í Eyrarsveit, og Guðlaugar Bjarnadóttur frá Hraunholtum í Kolbeinsstaðahreppi, systur Vigdísar, móður Sveins Bjarnasonar (Edgar Holger Cahill) listfræðings í Bandaríkjunum. Bróðir Bjarna í Hraunholtum var Vísinda-Kobbi, langafi Guðbergs Bergssonar rithöfundar. Systkini Ólafar: Yngvi, f. 29.10. 1914, d. 8.10. 1955, Pétur Kristinn, f. 1.12. 1916, d. 29.7. 1917, Hugi, f. 17.7. 1918, d. 23.2. 1989, Hulda, f. 24. apríl 1921, d. 14.11 1995, Pétur, f. 4.9. 1922, d. 3.10 1999, Unnur, f. 26.2. 1927, Ásta María, f. 30.6. 1928, d. 27.12. 1929, Guðlaug, f. 20.4. 1930.

Ólöf giftist 14. maí 1955 Karli Árnasyni, f. 2.5. 1932, forstjóra Strætisvagna Kópavogs. Karl er sonur Árna Jóhannessonar bifvélavirkjameistara og Ásdísar Kristinsdóttur verkakonu af Bólu-Hjálmarsætt. Börn Ólafar og Karls: 1) Petrína Rós, f. 9.11. 1955, frönskukennari og þýðandi, börn hennar: Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, gift Arnari Eggerti Thoroddsen og eiga þau 2 dætur. Júlían Jóhann Karl Jóhannsson. 2) Jóhannes, f. 25.11. 1959 hagsögufræðingur, giftur Ólöfu Pétursdóttur keltneskufræðingi. Börn þeirra eru Baldur, maki Ásdís María Elfarsdóttir, Stella Soffía gift Kristjáni R. Kristánssyni og eiga þau 2 dætur. 3) Pétur, f. 14.4. 1962, bifvélavirkjameistari og fv. bóndi, giftur Valeryju framkvæmdastjóra, börn hans eru: Elía, Karl Ólafur og Pétur Smári. Pétur missti tvö ung börn: Karl (1985) og Kristínu Jónu (1990).

Ólöf ólst upp í Sogamýrinni og stundaði nám í Laugarnesskólanum. Hún varð gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Hveragerðis 1948 og var í Húsmæðraskólanum á Löngumýri 1949-1950. Hún stundaði nám við Menntaskólann við Hamrahlíð 1986-1990 þar sem hún lauk stúdentsprófi í íslensku, dönsku, frönsku og þýsku. Ólöf lauk prófi sem bókavörður 1995. Hún fékkst við margvísleg störf, vann m.a. í bókabúð KRON, RARIK, hjá Strætisvögnum Kópavogs og var sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands sem bókavörður. Hún var virk í félagsmálum, lét sig jafnréttismál varða, sat í stjórn MFÍK 1973-76 og var um tíma varabæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Kópavogi þar sem hún bjó frá árinu 1955. Hún var í stjórn Vináttufélags Íslands og Rúmeníu. Ólöf gaf út á eigin kostnað dagbækur föður síns, Spánarferð, verk systur sinnar, Huldu, og bróður síns Péturs, æviminningar tengdaföður síns, auk ljóðabóka eftir Aðalheiði Kristinsdóttur. Ólöf hlaut Þýskalandsferð í verðlaun fyrir sölu Landnemans árið 1952 þar sem hún aðstoðaði við uppbyggingu í Berlín og Dresden eftir stríð. Einnig hlaut hún Búkarestferð í verðlaun fyrir áskriftasöfnun að Þjóðviljanum árið 1953. Þá hlaut hún verðlaun í hugmyndasamkeppni Kópavogsbæjar fyrir nafnið „Hamraborg“ á samnefndu hverfi í Kópavogi. Ólöf reisti nöfnu sinni Ólöfu frá Hlöðum bautastein í Hólavallakirkjugarði 6. ágúst 2002. Útför Ólafar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 20. desember 2011, og hefst athöfnin klukkan 13.

Amma mín. Óeigingjörn, vinnusöm, ættrækin og hjálpsöm eru allt lýsingarorð sem eiga vel við ömmu mína. Allt frá því sem ég fyrst man eftir, hefur amma mín hjálpað öllum þeim sem hjálp þurfa og aldrei beðið um neitt í staðinn, hvorki hrós né þakkir. Ég veit enga manneskju jafn sterka og ömmu, sem þrátt fyrir veikindi, hjartakvilla og margt annað, gafst aldrei upp og þó þreytt væri sást það aldrei á henni. Amma mín var holdgervingur þess sem aldrei gafst upp á neinum og lagði allt á sig fyrir eitthvað sem margir munu aldrei skilja.

Ég veit ekki hvaðan allur þessi drifkraftur hennar kom, því oft var eins og bæði væri sólarhringurinn hennar lengri en annarra og hún kraftmeiri þó komin væri á áttræðisaldur. Sama hvaðan allur þessi kraftur kom, þetta úthald og þessi óþreytandi vilji, þá mun hún um alla tíð veita þeim innblástur sem hana þekktu. Ég sem íþróttamaður, sem barnabarn og sem manneskja lít upp til ömmu minnar, sem er og var mér mikil fyrirmynd og hetja.

Júlían Jóhann Karl

Jóhannsson.

„Elsku hjartans Ólöf mín er það hart að líða kvað pabbi við elsku stúlkuna sína.“

Ólöf var yngst systkina, hæglát og ljúf, bar alltaf sáttaorð milli fólks. Fæddist á Landspítalanum. Móðirin hafði staðið í stórþvotti deginum áður, fæðingin var erfið. Móðir okkar þurfti að þvo í eldhúsinu, sjóða vatnið á lítilli eldavél, nudda tauið á bretti og skola í kari úti. Vinda þvottinn upp úr ísköldu vatni, ganga drjúgan spöl og hengja á snúrur.

Þau bjuggu í Selbúðum 6 v/Vesturgötu, húsnæðið var reist fyrir verkafólk, á þriðja tug síðustu aldar. Húsið var úr steini þiljað með timbri, pappi og strigi í lofti. Þrjú herbergi, eldhús og útikamar. Rafmagn, vatn og frárennsli var í húsinu. Skásta íbúð sem þau höfðu búið í frá því flutt var til Reykjavíkur, 1924.

Ólöf var alltaf stolt af nafninu sínu. Faðir hennar hafði kynnst Ólöfu Sigurðardóttur, skáldkonu frá Hlöðum, í Guðspekifélaginu. Skáldkonan hafði mikinn áhuga fyrir barninu, enda ljósmóðir. Hún bað um að fá að ráða nafninu, það var auðsótt. Ólöf litla fékk ýmsar góðar gjafir frá nöfnu sinni. Þegar hún var tveggja ára festu foreldrarnir kaup á húsi í Sogamýri, þar ólst hún upp við ástríki foreldra og frjálsa náttúru. Hún varð fljótt vinnusöm, gætti barna bæði systkina sinna og annarra.

Laugarnesskóli var hverfisskóli barna í Sogamýrinni. Þar fengu örvhent börn ekki að skrifa með vinstri hendi. Ólöf lék nú á kennarann í handavinnu, saumaði með hendur undir borði. Ólöf fór í gagnfræðaskóla í Hveragerði og eignaðist vinkonur til lífstíðar. Haustið 1949 fórum við systur í Húsmæðraskólann að Löngumýri í Skagafirði. Þar bundust mörg vináttubönd.

Friður var uppáhaldsorðið hennar Ólafar, hún gekk í MFÍK og starfaði þar af krafti. Allt hernaðarbrölt var eitur í hennar beinum. Breytingar voru í miklu uppáhaldi hjá henni, ekki bara að færa húsgögn heldur stundum flutti hún veggi. Eitt sinn fórum við í tjaldútileigu austur í Þjórsársand. Við fengum sex börn lánuð frá ættingjum ásamt okkar eigin. Þetta var algjör ævintýraferð. Ólöf hafði mjög gaman af útivist.

Ólöf hafði mikinn áhuga fyrir réttindum kvenna og hélt erindi á ráðstefnu í Rostock um þátttöku kvenna í landbúnaði. Hún skrifaði sjálf grein í Þjóðviljann 1972 um matreiðslukennslu í skólum og hvernig þetta fag var sett út í horn og gert lítið úr því, þessi grein vakti mikið umtal. Við fórum saman í nokkrar utanlandsferðir og höfðum gaman af að vera bara tvær.

Móðir okkar bjó hjá þeim hjónum Karli og Ólöfu í 19 ár. Hún var þeim stoð á meðan Ólöf var útivinnandi. Síðustu 2-3 árin var móðir okkar mikill sjúklingur, það þurfti að snúa henni á tveggja tíma fresti allan sólarhringinn. Þetta gerði hún Ólöf og kvartaði aldrei. Karl var tengdamóður sinni hlýr og góður. Hjónaband þeirra Ólafar og Karls var ástríkt og þau sýndu hvort öðru alltaf virðingu og tillitssemi. Barnabarn þeirra, Pétur Smári, átti alltaf sérstakan sess í hjarta hennar.

Ég og fjölskyldan mín vottum Karli og börnum samúð okkar.

Elskuleg systir, þakka þér allt.

Guðlaug Hraunfjörð.

mbl.is/minningar

Nú er hún nafna mín farin í siglinguna hinstu og lengstu, heim til æskulandsins handan við sól og mána.

Ég sé hana ljóslifandi fyrir mér í minningunni: hún er íbyggin á svip, brosir hæversklega út í annað, og veit ég að hún er ófyrirsjáanleg til orðs og æðis eins og náttúruöflin. Henni fylgir notaleg hlýja, ilmur af jólaköku og kleinum, og líka angan af nýslegnu grasi. Andblær vorsins.

Ólöf var mikil persóna, andstæðir eiginleikar bjuggu innra með henni í sátt og samlyndi. Hjá henni fór til dæmis saman afburðasnyrtimennska og taumlaus litadýrð. Hið óvænta einkenndi viðhorf hennar og háttalag. Mikið var gaman að heyra hvernig hún gat stundum flissað eins og krakki, hlegið hátt og innilega. Þó var hún stundum þung á brún og ströng á svip. Ekki skorti hana stórhug, framkvæmdagleði og frumkvæði. Oftar en ekki var hún að fást við eitthvert þrekvirkið, en ævinlega af hógværð og hlédrægni. Þá var Ólöf sannur höfðingi í lund þrátt fyrir lítillætið, og alltaf var hún með hug og hjarta við grasrótina og lítilmagnann. Hún var hamhleypa til verka ef taka þurfti til hendi, og alla tíð var hún sönn baráttukona, sem varðveitti barnið innra með sér, einlægni þess og traust.

Ólöf hafði mikið dálæti á bókum og lagði rækt við arfleifð liðinna tíma, ekki síst minningu nöfnu sinnar, skáldkonunnar frá Hlöðum. Hún kunni líka vel að meta meitlaðar spakmælavísur og lék sér að því að skrifa þær upp og koma þeim áleiðis til annarra. Þeim var þá laumað í póstinn, í bók eða á kort.

Ólöf hefur kennt mér margt og reynst mér og mínum óbrigðul hjálparhella. Henni á ég óendanlega margt að gjalda. Hennar er sárt saknað. Ég votta Karli og öðrum aðstandendum samúð mína.

Ólöf.

Þegar ég hugsa um ömmu sé ég hana fyrir mér í Sogamýrinni, litla með ljósa hárið sitt, lágværa rödd og dillandi hláturinn. Yngsta systirin sem hún sagði mér svo margar sögur um. Ég sé hana í Holtagerðinu í garðinum í vinnufötunum. Amma mín var einstök kona. Það fór kannski ekki mikið fyrir henni við fyrstu sýn. Hún var smágerð með hógværa rödd. Flestir þeir sem komust í kynni við ömmu mína fóru ekki varhluta af hjartagæsku hennar. Einhvern veginn virtust þarfir annarra alltaf verða ofan á. En hún amma mín var svo margt fyrir mér. Hún var kvenréttindakona og fræðikona, kynnti mig fyrir konum eins Germaine Greer, Selmu Lagerlöf og sagði mér sögur af kvennafrídeginum. Hún var mjög eljusöm, hvort sem það var í garðinum, í skrifum eða þegar hún tók að sér að kenna mér hitt og þetta.

Margar af mínum yndislegustu minningum um ömmu eru þegar ég var veik. Amma, nostraði þá við mig og vissi einhvern veginn alltaf best. Sjálfa langaði mig að geta hjúkrað eins og amma, stundum þegar hún fékk mígreni fékk ég að færa henni kaldan þvottapoka. Það er grátlegt til þess að hugsa að þetta voru einu skiptin sem ég fékk að gera eitthvað fyrir hana.

Allt frá því ég fæddist hafa amma og afi verið óaðskiljanlegur hluti af lífi mínu. Þegar þurfti að flytja rúm, gera við dúkku dóttur minnar, flytja milli landa eða landshluta þá voru þau alltaf þar til að hjálpa. Síðasta árið sem pabbi minn lifði, þá langt leiddur af krabbameini, hýstu þau hann heima hjá sér. Pabbi var í húsnæðisvandræðum og of veikur til að standa í slíku. Ég fæ þeim það víst seint fullþakkað. Hún hafði alltaf nægan tíma fyrir okkur öll. Þegar hún fór með mig í sund og við söfnuðum rúsínuputtum klukkustundum saman. Stundum voru Pétur bró eða Hugi í eldhúsinu, því amma var alltaf að hugsa um einhvern. Stundum sneri ég upp á mig, en hún sagði elskan mín með dúnmjúku röddinni sinni og erfði sjálf aldrei við mann fýluköstin eða unglingaveikina. En amma var í mínum huga líka mikil ævintýraamma, það eru ófá ferðalögin sem ég fékk að fljóta með í. Ferðalögin voru mislöng hvort sem þau voru í Landmannalaugar eða út í garð.

Eitt sinn vorum við afi með ömmu í Selmu Lagerlöf pílagrímsför í hlýjum kofa við sænskt tjaldstæði. Úti var slagviðri og stór hópur var að reyna tjalda og gekk illa, amma tók sig til og smurði samlokur fyrir þá og sendi mig út til að gefa blautum ferðamönnunum.

En það voru ekki ferðalögin ein sem voru ævintýr, það var allt skemmtilega ævintýralegt í kringum ömmu, hvernig hún umturnaði húsinu einn daginn. Hún var aldrei föst í hefðum, stundum gaf hún manni jólagjöf í september og sló upp veislu án nokkurs tilefnis. Það var amma sem kynnti mig fyrir söngkonunni Björk og fleiri listamönnum. Hún var alltaf á undan sinni samtíð. Það skemmtilegasta sem ég veit um ömmu mína er hlátur hennar, svo innilegur og fallegur. Það var ekkert venjulegt við ömmu því amma var sérstök á allan hátt. Ég er rík að eiga Ólöfu að ömmu og það fá engin orð því lýst hve ég sakna ömmu mikið.

Móheiður Hlíf.