Rússneski myndlistarmaðurinn Kazimir Malevich (1879-1935) var einn af frumkvöðlum módernismans í myndlist tuttugustu aldar; upphafsmaður liststefnunnar súprematisma og hafði talsverð áhrif á fyrstu áratugum liðinnar aldar.

Rússneski myndlistarmaðurinn Kazimir Malevich (1879-1935) var einn af frumkvöðlum módernismans í myndlist tuttugustu aldar; upphafsmaður liststefnunnar súprematisma og hafði talsverð áhrif á fyrstu áratugum liðinnar aldar. Þegar Malevich lést árið 1935 var hann grafinn undir tré á engi við bæinn Nemchinovka nærri Mosku. Á legsteininum var svartur ferhyrningur á hvítum fleti, tilvísun í frægasta málverk hans.

Samkvæmt frétt í The Art Newspaper hafa áhugamaður um rússneska framúrstefnu og þýskur fjárfestir nú tekið höndum saman um að safna fé til að kaupa landareignina þar sem gröfin er og reisa þar safn um Malevich.Vilja þeir koma í veg fyrir að íbúðabyggð verði reist á staðnum, eins og til stendur, og kvarta þeir undan því að söguleg vitund samtímamanna sé veik. Almenningur þekki ekki til mikilvægis listar Malevich sem sé engu að síður meðal helstu andlegu jöfra Rússa á síðustu öld.