Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Kveikjan að bókunum er sú að ég ólst sjálf upp á Þjóðminjasafninu, en í þá daga var Listasafn Íslands í sama húsinu og náttúrugripasafn í geymslum í kjallaranum. Þetta þýðir samt ekki að ég hafi sjálf lent í jafnæsilegum ævintýrum og krakkarnir í bókunum,“ segir Sigrún Eldjárn sem sent hefur frá sér bókina Náttúrugripasafnið sem er sjálfstætt framhald af Forngripasafninu sem út kom í fyrra, en á næsta ári er von á síðustu bókinni í þríleiknum sem nefnist Listasafnið .
„Allar fjalla bækurnar um Rúnar sem flytur með pabba sínum út á land þar sem hann fær vinnu sem safnstjóri á safni þar sem ægir saman forngripum, listaverkum og náttúrugripum. Hann þarf því að byrja á því að flokka hlutina til að gera safnið aðgengilegt. Vinir Rúnars, systkinin Margrét og Nikulás, eru í forgrunni í nýju bókinni, en þau eru ættleidd frá Indlandi og fá þaðan spennandi sendingu,“ segir Sigrún.
Skoðar hvað nýjar teiknaðar persónur hennar vilja gera
Líkt og fyrri bækur Sigrúnar er Náttúrugripasafnið ríkulega myndskreytt. Aðspurð segist Sigrún yfirleitt vinna texta og myndir samhliða. „Stundum byrja ég á því að teikna upp nýjar persónur og horfi rannsóknaraugum á þær til að sjá hvað þær vilja gera. Myndirnar verða til í höfðinu á mér um leið og ég skrifa textann.“Persónugalleríið í Náttúrugripasafninu er fjölbreytt og spannar allt frá venjulegum krökkum til íslenskra dverga og framliðinna. „Yfirleitt eru aðalsögupersónur mínar ósköp venjulegir krakkar sem lenda í furðulegum aðstæðum þar sem þau hitta stundum fyrir skringilegar verur,“ segir Sigrún. Aðspurð segist hún ekki beinlínis vera að skrifa fyrir neinn ákveðinn aldurshóp, þótt tiltekið sé á kápu bókarinnar að hún smellpassi fyrir lesendur á aldrinum 8-12 ára. „Bókmenntir sem ætlaðar eru fyrir börn geta verið fyrir alla aldurshópa, enda höfum við öll verið börn og vonandi tekst sem flestum að varðveita barnið í sér.“