Óttast var í gær að 53 manns hefðu farist þegar olíuborpallur sökk í grennd við eyjuna Sakhalín í Austur-Rússlandi í fyrradag. Fjórtán lík höfðu fundist í gær og 39 manna til viðbótar var enn saknað. 67 manns voru á olíuborpallinum og fjórtán þeirra var bjargað í fyrradag.
Verið var að toga olíuborpallinn frá Kamtsjatka-skaga í áttina að Sakhalín-eyju þegar honum hvolfdi. Borpallurinn sökk síðan á tuttugu mínútum. Mjög hvasst var í veðri og öldurnar um fimm metra háar.
„Þetta var eins og í kvikmynd, honum hvolfdi og allir klifruðu upp á skutinn,“ hefur fréttaveitan AFP eftir einum mannanna sem björguðust.
Rússneskir embættismenn sögðu að fjórir björgunarbátar hefðu fundist en þeir reyndust vera mannlausir.