Einu sinni var aðeins ein sjónvarpsstöð, sem sendi út 3-4 klukkustundir sex daga vikunnar, 11 mánuði ársins. Fólk getur endalaust kvartað yfir því hvað sjónvarið var grútleiðinlegt í gamla daga og að eina barnaefnið hafi verið hin dýrmætu þrjú korter af Stundinni okkar í hverri viku. Kannski var það eina góða við þessa fábreytni að allir horfðu á sömu þættina, sömu myndirnar og sömu fréttirnar. Þannig var ávallt á vísan að róa með umræðuefni þar sem fólk kom saman. Þegar búið var að ræða fram og til baka um veðrið og stjórnmálaástandið, þá var alltaf hægt að rökræða sjónvarpsdagskrána. Til dæmis var ekki óalgengt á þessum árum að heilu fermingarveislurnar býsnuðust yfir fólskubrögðum JR, hins fláráða olíubaróns úr Dallas. Stundum var líka rætt um góðmennin í þáttunum Húsið á sléttunni. Þannig mátti til dæmis heyra aldraða frú dæsa stundarhátt á mannamóti: „Hann er svo vænn maður, hann Ingjaldur.“ Auðvitað vissu allir viðstaddir við hvern var átt; engan annan en hinn ráðvanda fjölskylduföður Charles Ingalls. Þetta myndi tæpast gerast í dag, þar sem engir tveir horfa á það sama. Kannski var ekki svo galið að hafa eina sjónvarpsstöð.
Anna Lilja Þórisdóttir