* Ólöf Arnalds heldur vetrarsólstöðutónleika á Café Flóru í Grasagarðinum í Laugardal annað kvöld kl. 21, ásamt Skúla Sverrissyni bassaleikara. Á tónleikunum mun hún flytja lög af nýrri smáskífu sinni, Ólöf Sings, og einnig af væntanlegri breiðskífu. Ólöf hélt á árinu sumarsólstöðutónleika á sama stað, þ.e. Café Flóru í Grasagarðinum.
Ólöf hefur hin seinustu misseri verið iðin við tónleikahald víða um lönd og hlotið prýðilega gagnrýni fyrir hjá virtum tónlistartímaritum. Ólöf Sings hefur fengið jákvæðar viðtökur gagnrýnenda, m.a. hjá Morgunblaðinu, en á plötunni flytur Ólöf ábreiður. Skúli Sverrisson er einn af fremstu tónlistarmönnum Íslands en hann starfar að mestu í Bandaríkjunum. Ólöf og Skúli léku síðast saman hér á landi á opnunartónleikum Listahátíðar í Reykjavík, fyrr á þessu ári.