Ólafía Guðmundsdóttir fæddist á Ketilvöllum í Laugardal 29. ágúst 1921. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 11. desember 2011.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Ingimar Njálsson bóndi á Ketilvöllum og Böðmóðsstöðum, f. 10. júlí 1894, d. 18. nóv. 1971 og Karólína Árnadóttir, f. 20. nóv. 1897, d. 25. mars 1981. Systkini Ólafíu eru Guðbrandur, látinn, Guðbjörn, látinn, Aðalheiður, Kristrún, látin, Sigríður, Valgerður, Fjóla, látin, Lilja, Njáll, látinn, Ragnheiður, Árni, Guðrún, látin, Herdís, og Hörður. Ólafía kvæntist 4. okt. 1941 Guðmundi Skarphéðni Kristjánssyni, f. 26. júlí 1914, d. 30. júlí 1983. Foreldrar hans voru Kristján Hannesson bóndi í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd, f. 10. júlí 1882, d. 10. nóv. 1961 og Þórdís Símonardóttir, f. 23. sept. 1894, d. 23. mars 1991. Börn Ólafíu og Guðmundar eru: 1) Inga Karólína Guðmundsdóttir, f. 17. ágúst 1943, maki Bjarni Guðmundsson, f. 15. maí 1942. Börn þeirra eru: a) Heimir, f. 7. júní 1960, maki Ingibjörg Halla Hjartardóttir, dætur þeirra eru Hildur og Halla. b) Dagný, f. 27. mars 1965, dóttir hennar er Dagrún Aðalsteinsdóttir. c) Hafdís, f. 17. ágúst 1977, maki (óg.) Páll Hermannsson, sonur þeirra er Bjarni og sonur Páls úr fyrri sambúð er Guðni Kolbeinn. 2) Þórdís Kristín, f. 13. febrúar 1945. 3) Pálmar, f. 10. ágúst 1946, maki Erla Rannveig Gunnlaugsdóttir, f. 9. ágúst 1949. Börn þeirra eru: a) Ólafía, f. 27. ágúst 1966, maki Stamatis Fousekis, dætur þeirra eru María Rannveig og Anna. b) Anna Dagrún, f. 13. des. 1968, maki Jónas Þór Þorvaldsson, börn þeirra eru Þór Jarl, Ægir Jarl og Saga Rún. c) Guðmundur, f. 21. jan. 1976, maki Talia Jane Freeman, dætur þeirra eru Ólafía Crace og Evie Rós. Vinur Ólafíu til margra ára var Grímur Stefán Bachmann, f. 1. des. 1921, d. 22. október 2002 dóttir hans er Anna Þórdís, maki Sveinn Ingi Lýðsson, þau eiga fjögur börn. Ólafía ólst upp á Böðmóðsstöðum í Laugardal í stórum systkinahópi og stundaði hefðbundna skólagöngu og fór síðan í Húsmæðraskólann á Staðarfelli. Ólafía og Guðmundur byrjuðu sinn búskap í Hafnarfirði en fluttu síðan í Voga á Vatnleysuströnd. Árið 1958 fluttu þau til Reykjavíkur og bjuggu lengst af í Stóragerði 12 og þar bjó Ólafía til ársins 2004 að hún flutti í Hvassaleiti 58.
Útför Ólafíu fer fram frá Grensáskirkju í dag, þriðjudaginn 20. des. 2011, og hefst kl. 15.
Ólafía, Lóa, tengdamóðir mín er látin níræð að aldri, eftir mjög stutta sjúkralegu. Til þess var tekið hversu hraust hún var bæði andlega og líkamlega en kallið kom skyndilega. Þegar við Inga elsta barn Lóu og Guðmundar stofnuðum fjölskyldu ung að árum tóku þau mér af elsku og ástúð og bjuggum við hjá þeim með nýfæddan son okkar í tæp tvö ár. Síðan eru liðin nærri fimmtíu og tvö ár og skemmst frá því að segja að aldrei hefur borið skugga á okkar samskipti. Guðmundur lést 1983.
Lóa ólst upp á Böðmóðsstöðum í Laugardal í Árnessýslu. Foreldrar hennar voru sæmdarhjón sem eignuðust fimmtán börn. Fyrsta barn þeirra dó tveggja mánaða gamalt en hin fjórtán komust öll upp og var Lóa næstelst af þeim. Á æskuheimili Lóu bjó einnig föðuramma hennar og nafna og var því hópurinn stór sem þurfti að fæða og klæða. Hún varð snemma hægri hönd móður sinnar í því að annast yngri börnin. Lóa var búin ágætum námshæfileikum sem sést vel á því að árið sem hún lauk fullnaðarprófi í Farskólanum í Laugardal 1934 hlaut hún í aðaleinkunn 9,56 og var hæst nemendanna það vorið. Að þessu komst ég fyrir tilviljun, henni fannst það vera grobb eða sjálfhælni að halda þessu á lofti enda átti hún ekki slíkt til.
Fyrir ungar stúlkur sem komu frá alþýðuheimilum á Íslandi í þá daga var oft vænlegt að komast að sem heimilisaðstoð hjá einhverjum sem gæti leiðbeint líka. Lóa komst á slíkt heimili hjá Viktoríu skólastjóra á Vatnsleysuströnd. Viktoría reyndist henni vel og kenndi henni m.a. dönsku og íslensku. Þar leyndist líka mannsefnið hennar. Síðan fór hún á Húsmæðraskólann á Staðarfelli að tilstuðlan Viktoríu. Eftir því var tekið hversu ástríkt hjónaband Lóu og Guðmundar var. En líf hennar var ekki bara tóm gleði það var sárt að missa Guðmund en hann lést sextíu og níu ára gamall.
En ljós er líka í myrkrinu, góð börn og barnabörn og seinna kom Grímur inn í líf hennar sem kær vinur til margra ára. Þau nutu lífsins saman og ferðuðust til margra landa. Sá góði drengur lést 2002 en dóttir hans og tengdasonur héldu tryggð við hana. Lóa hafði góða nærveru. Hún var að eðlisfari jákvæð, geðgóð og góð heim að sækja. Hún var hreinlynd og sanngjörn við börnin sín og barnabörn og gætti þess að mismuna engum. Hún sparaði stóryrðin eða réttara sagt notaði þau ekki en samt vissi maður fljótt hvað henni fannst og hver hugur hennar var um hvaðeina sem bar á góma. Hún fékk því áorkað sem hún vildi með hægð og enginn teymdi hana neitt ef hún vildi það ekki sjálf. Hún bar virðingu fyrir sjálfri sér, var ávallt snyrtileg og vildi hafa hreint í kringum sig. Hún hugsaði vel um hollustuna og líkamlegt útlit sitt, unni fögrum skartgripum en var laus við bruðl og óhóf. Eftir að Lóa fluttist í Hvassaleiti áttatíu og þriggja ára gömul bjó hún ein í íbúð sinni. Í þessu húsi er félagsþjónusta frá Reykjavíkurborg og Lóa kunni vel að meta það.
Hennar er sárt saknað en minningin um hana lifir meðal okkar.
Bjarni Guðmundsson.
Þær eru sérstaklega dýrmætar minningarnar sem við eigum frá Guðrúnarstöðum í Laugardalnum, en þar byggðu foreldrar okkar, frænka og afi og amma sér sumarbústað. Í þeim sælureit fengum við að njóta samvista við ömmu og afa. Afi var í útiverkunum en amma kaus fremur að sinna inniverkunum. Saman fylgdust þau svo með því hvernig sumarbústaðurinn reis og trén uxu og döfnuðu.
Gott er á stöðum Guðrúnar,
gleðin hefur völdin.
Kyrrð og sæla unaðar,
einkum þá á kvöldin.
Þessa vísu samdi Símon bróðir hans afa en hún lýsir því vel hve oft var kátt á hjalla á Guðrúnarstöðum, enda fjölskyldu ömmu stór, glaðvær og söngfólk mikið.
Oft sofnuðum við systkinin út frá fallegum söng á kvöldin, og bar þá hæst lagið Fram í heiðanna ró.
Amma var alla tíð dama fram í fingurgóma, það skipti ekki máli hvort við vorum í Stóragerði, útilegum eða á Guðrúnarstöðum hún var alltaf svo fín og falleg. Heimili hennar bar af hvað varðaði snyrtimennsku, allir hlutir á sínum stað og geymslan hjá henni líktist ekki geymslu heldur stássstofu.
Hún hafði einstaklega góða lund og mikið jafnaðargeð. Skapgerð hennar kom vel í ljós í veikindum hennar sem voru ansi brött og komu flatt upp á okkur fjölskylduna því hún hafði alla tíð verið einstaklega heilsuhraust. Í veikindum sínum kvartaði hún aldrei og þegar hjúkrunarfólkið spurði hvernig henni liði þá svaraði hún alltaf. Mér líður bara vel.
Við erum einstaklega lánsöm að hafa fengið að njóta svo lengi samvista við ömmu og erum þakklát fyrir hvað henni auðnaðist góð heilsa og langir lífdagar. Við kveðjum ömmu Lóu með söknuði og yljum okkur við góðar minningar.
Ólafía, Anna Dagrún
og Guðmundur.
Amma okkar var snyrtileg og flott í einu og öllu. Í fataskápnum hennar leyndust gjarnan dýrindis gersemar sem við systur og frænkur allar nutum góðs af þegar amma endurnýjaði fataúrvalið hjá sér. Íbúðin hennar bar vott um vandvirkni og natni, allt hreint og fínt og prýtt óvenjuvönduðum útsaumi, enda var amma afburðanámsmaður bæði á bækur og handverk þótt hún hafi ekki verið langskólagengin á nútímamælikvarða. Raunar má segja að hún hafi verið lengra komin í skóla lífsins en flestir að því leyti hvernig hún lifði lífinu í sátt við allt og alla. Upp á síðkastið höfum við systur mikið rætt um hugtakið „mindfulness“, sem mætti ef til vill útskýra sem þá hugmynd að lifa í núinu og njóta hverrar stundar, taka lífinu eins og það er hverju sinni. Við systur erum sannfærðar um að amma hafi verið meistari í „mindfulness“, jafnvel þótt hún hafi sennilega aldrei heyrt það orð. Hún kunni líka þá list að hlakka til og njóta lífsins eins og ung stúlka, sem birtist okkur síðast þegar hún var að búa sig undir síðustu skemmtunina.
Að lokum er vel við hæfi að rifja upp jólaboðin góðu hjá ömmu. Við getum ímyndað okkur að við séum stödd í einu boðanna fyrir nokkrum áratugum. Bullsveitt börn af hamagangi og fjöri en líka vegna mikils baðstofuhita. Gott að skreppa út á svalir til að kæla sig og sækja jólaöl í stórum dunk. Frænkurnar semja lag og flytja fyrir fjölskylduna: „Amma Londonlamb á borðið ber, afi tekur litmyndir – óje!“ Jólin verða ekki söm án ömmu okkar nú í ár, en það er gott að eiga þessar góðu minningar og fleiri að ylja sér við. Með söknuði kveðjum við ömmu okkar.
Dagný og Hafdís
Bjarnadætur.
Nú þegar hún Lóa amma mín hefur kvatt okkur í hinsta sinn leitar hugurinn til baka. Margar af mínum ljúfustu bernskuminningum eru tengdar samvistum við ömmu og afa í Stóragerði eins og við systkinin vorum vön að kalla þau Lóu og Guðmund. Hjá þeim var afskaplega gott að dvelja og sóttist ég mjög eftir að fá að vera samvistum við þau.
Foreldrar mínir voru mjög ung þegar ég fæddist og eðlilega þurftu þau að vinna hörðum höndum fyrir því að koma sér upp þaki yfir höfuðið og byggja upp framtíð fyrir sig og sína. Fyrir ungan dreng var ómetanlegt að eiga sér afdrep og skjól hjá ömmu og afa. Eins og allir vita sem þeim kynntust voru þau bæði afskaplega gefandi og hlýjar manneskjur, samrýmd hjón, jákvæð, og ávallt geislandi af hamingju og ást. Á heimili þeirra ríkti notalegur og rólegur andi sem mér sem ungum dreng fannst eftirsóknarvert að fá að njóta.
Afi í Stóragerði lést langt um aldur fram eftir erfið veikindi en hún amma mín var lánsöm að fá að vera við góða heilsu þangað til rétt í blálokin. Það er með þakklæti í hjarta sem ég kveð hana ömmu mína og minnist þeirra beggja.
Heimir Bjarnason.
Lóa var ekkert venjuleg kona. Hún var alltaf svo jákvæð, reglusöm með bláu fallegu augun sín og mikil fjölskyldumanneskja. Á ættarmótum, jólaböllunum, öllum mannamótum var hún hrókur alls fagnaðar og fagnaði ættmennum sínum alltaf jafn vel. Nei,Villi Kalli, er þetta þú, mikið lítur þú vel út.
Lóa frænka var elst Böðmóðsstaðasystra og hélt hópnum svo vel saman, Það er svo sérstakt að hugsa til þess, elsku Lóa mín, að hitta þig ekki oftar hér á jörðu. Ég sá þig síðast í afmælinu hans afa í vor. Þú varst eins og smástelpa, alltaf svo ungleg. Það á við að þú treystir þér að fara með okkur unga fólkinu niður í bæ að dansa. Ekkert varir að eílífu. Nú hefur þú kvatt þennan heim, elsku frænka mín. Ég mun aldrei gleyma hvað þú hefur reynst mér vel alla tíð. Nú bættist við einn fallegur engill hinum megin. Ég kveð þig með miklum söknuði, elsku Lóa mín.
Jesús segir: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi“. (Jóhannesarguðspjall 11.25).
Minning þín mun alltaf lifa hjá okkur sem og Böðmóðsstaðaættinni.
Elsku Inga, Pálmar, Dídi, Böðmóðsstaðasystkini og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill. Megi algóður guð styrkja ykkur. Hinsta kveðja.
Þinn frændi,
Vilhjálmur Karl.
Lóa var afar hlý og umhyggjusöm og mikil barnagæla. Hún passaði okkur systkinin þegar við vorum lítil. Þannig nutum við þess að fá að kynnast Lóu vel. Bella naut þess einnig að búa í sama húsi og hún, því að þær systur Lóa, mamma og fjölskyldur þeirra bjuggu í sama húsi um árabil. Þær systur byggðu sér einnig sumarbústaði hlið við hlið á æskuslóðum sínum í landi Böðmóðsstaða og þar hafa fjölskyldurnar átt góðar stundir.
Lóa var gæfusöm í lífi sínu, eignaðist góða og samhenta fjölskyldu. Hún lifði hófsömu og reglusömu lífi, var nægjusöm og skynsöm, kát og létt í lund. Hún var afar snyrtileg og hélt heimili sínu óaðfinnanlegu. Hún barmaði sér aldrei og var alltaf glöð í sinni. Það var eins hún hefði náð að fanga íslenska vorblæinn í dalnum sínum kæra og hann hefði orðið hlutur af hennar persónu og útgeislun. Þess nutum við öll í ríkum mæli.
Hún var orðin 90 ára þegar hún lést, en bar aldurinn svo sannarlega vel, svo fínleg og falleg. Líklega hefur enginn verið viðbúinn því að hún væri á förum því að hún hafði verið svo hress, farið í sína leikfimi og tekið þátt í öllu.
Við kveðjum Lóu með ljóði sem amma Karólína orti til hennar þegar hún flutti að heiman.
Nú kveð ég þig, litla kæra vina,
Kristur Jesú blessi þig,
og yfir þér vaki alla tíma,
englar Drottins leiði þig.
Með þakklæti fyrir allt minnumst við Lóu frænku. Við sendum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Ólafíu Guðmundsdóttur.
Bella, Vilhjálmur,
Ingunn Björk og fjölskyldur.