Helgi Frímann Magnússon efnaverkfræðingur, Krummahólum 6, fæddist á Þórshöfn á Langanesi 14. mars 1939. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. desember sl.

Foreldrar hans voru Magnús Jónsson, útvegsbóndi á Þórshöfn f. 23. des. 1894, d. 1. nóv. 1989 og Signý Guðbjörnsdóttir f. 20. okt. 1917, d. 21. jan. 1997. Helgi ólst upp hjá móðurforeldrum sínum að Syðra-Álandi í Þistilfirði, Guðbirni Grímssyni f. 28. mars 1879, d. 26. maí 1943 og Ólöfu Vigfúsdóttur f. 5. apríl 1891, d. 20. apríl 1962.

Systkini: Haraldur f. 14. mars 1939, d. 23. jan. 2005; Ólöf f. 15. jan. 1942; Guðbjörn f. 13. feb. 1946; Birgir f. 25. feb 1949, d. 14. des. 1966; Jón f. 20. jan. 1952; Magnús Sigurnýjas f. 26. maí 1956; Matthías f. 11. nóv. 1957. Helgi stundaði nám að Laugum í Reykjadal. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1962. Þaðan fór hann til Þrándheims þar sem hann lauk námi í efnaverkfræði frá Norges Tekniske Högskole 1970.

Starfsferill: Sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun iðnaðarins, nú Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 1970. Stundakennari í verklegri efnafræði við Háskóla Íslands í mörg ár.

Helgi reisti sér sumarbústað í Skorradal og undi þar hag sínum vel.

Helgi Frímann verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 20. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku Helgi.

Jólin verða frekar tómleg án þín. Við vissum alltaf að við þyrftum að flýta okkur að pakka inn síðustu gjöfunum og gera okkur til þegar þú komst á aðfangadag, með sparibrosið og bauðst gleðileg jól. Framandi jólakonfekt, ullarsokkar og í seinni tíð íslenskar bókmenntir leyndust yfirleitt í jólapökkunum frá þér. Það verður skrýtið að hafa ekki nóg að lesa þessi jólin. Jólin og áramótin verða örugglega sá tími sem maður á eftir að sakna þín hvað mest.

Við munum hvað okkur fannst íbúðin þín stórkostleg þegar við vorum yngri. Bækur meðfram öllum veggjum í öllum herbergjum. Á boðstólum var oftast ótrúlega þykk súpa, kjöt með kartöflum og súkkulaðiís á eftir. Þú varst mikill áhugamaður um kartöflurækt. Fyrsta minning okkar strákanna um þig er í kartöflugörðunum sem þú og foreldrar okkar ræktuðuð hlið við hlið á Korpúlfsstöðum. Við notuðum einhvers konar prik við að búa til holur en þú nánast hljópst í gegnum garðinn og notaðir hælinn á skónum þínum til að gera litlar dældir og hentir spírunum í jafnóðum. Þín aðferð var margfalt hraðvirkari. Ljósmyndun var líka mikið áhugamál. Alls konar ljós og græjur sem við höfðum aldrei séð áður skilaði mynd á jólakortin okkar í fjölda ára.

Þú varst í einskonar afahlutverki í okkar fjölskyldu, alltaf tilbúinn að hughreysta mann ef eitthvað bjátaði á. Kenndir okkur strákunum bindishnút og áttir alltaf þinn stað í stofusófanum.

Á ættarmótinu um árið var vísað á gamla tjaldið þitt og þú bauðst upp á drykki. Karlarnir fengu koníak, en konurnar svokallaða dömudropa. Á síðustu árum átti sumarbústaðurinn í Skorradalnum hug þinn allan. Það leyndi sér ekki stoltið þegar þú talaðir um bústaðinn. Það var augljóst að þú naust þín þarna uppfrá og þú varst alltaf tilbúinn að spjalla um hin ýmsu praktísku atriði tengd bústaðnum.

Takk fyrir allar minningarnar. Við gleymum þér aldrei.

Magnús Jónsson,

Gísli Þór Jónsson,

Sigrún Erla Jónsdóttir.

Elsku Helgi frændi, rosalega getur lífið breyst hratt. Þú kenndir mér að maður á aldrei að fresta einhverju þangað til seinna sem maður getur gert í dag. Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér hjá okkur, mikið held ég að fjölskylduboðin eiga eftir að vera tómleg.

Þegar ég settist niður og fór að hugsa um þig sá ég strax að allar minningarnar sem ég á um þig munu fara langt með að fylla þetta tómarúm. Þegar ég var yngri þá beið maður alltaf spenntur yfir því að fá jólapakka frá Helga frænda, stundum fékk maður nefnilega heilan konfektkassa, það þótti mér ekki leiðinlegt. Hann hafði alltaf fyrir því að senda okkur öllum systkinabörnunum jólapakka og síðar börnunum okkar, ég dáðist alltaf að því hversu vel hann náði að fylgjast með því þegar fjölskyldan stækkaði.

Fjölskyldan var honum mikilvæg og hann var duglegur að rækta hana. Það var alveg sama hverju var verið að fagna eða hvaða hittingur var, alltaf var Helgi sá sem fyrstur var mættur á staðinn, með sitt spekingslega glott og tilbúinn að ræða málin. Hann lét ekkert stoppa sig, ég gleymi því aldrei hvað ég dáðist að honum sumarið 2009 þegar stórfjölskyldan var með útilegu. Auðvitað mætti hann með tjaldið sitt og skellti því upp, bauð síðan mönnunum upp á snafs og var með Baileys fyrir konurnar, já hann Helgi kunni þetta. Síðustu tvö ár vorum við svo heppinn að hann kom til okkar á aðfangadag í jólagrautinn í hádeginu, það var virkilega notalegt að fá hann heim. Helga fylgdi einhver góður andi, einhver ró sem smitaði auðveldlega frá sér. Hann var rólegaheitamaður sem naut lífsins og gerði það vel.

Sumarbústaðurinn sem hann hafði byggt upp var honum mikilvægur og það var virkilega gaman að fá að skoða með honum myndir af honum og fá að heyra sögurnar af veislunum sem hann hélt þar á sumrin fyrir vinnufélaga og vini. Minningin um góðan mann mun ávallt lifa í hjörtum okkar og minningarnar um hann munu ylja okkur. Ég kveð þig nú Helgi minn með söknuði en ég veit að nú ertu kominn á góðan stað þar sem stjanað verður við þig.

Brostinn er strengur og harpan þín hljóð

svo hljómarnir vaka ei lengur,

en minningin geymist og safnast í sjóð,

er syrgjendum dýrmætur fengur.

(Trausti Reykdal.)

Þín frænka,

Signý.

Helgi var það sem mestu skiptir hjá öllum og á öllum tímum, það er góð manneskja. Það skynjaði maður fljótt í návist hans. Fyrir vikið þótti mér vænt um Helga og bar virðingu fyrir honum. Það væri óskandi að allt fólk væri af sömu gæðum hið innra og Helgi.

Í mörg ár kom Helgi til mín á hverjum vinnudegi og nokkrum sinnum yfir hvern dag til að spjalla. Í hvert einasta skipti var það sönn ánægja. Alltaf var Helgi jafn ljúfur. Ég sakna þessa spjalls við Helga. Helgi hafði mikið verksvit. Það sást á verklagi hans á rannsóknastofunni og á niðurstöðum hans.

Tiltölulega nýlegt dæmi þar sem reyndi á færni Helga voru kolefnismælingar í stáli úr tónlistarhúsinu Hörpu.

Mælingar Helga sýndu að kolefnið í stálinu var of hátt og því ónothæft í tónlistarhúsið. Það ásamt öðrum mælingum gerði það að verkumað rífa varð niður hluta af stálinu með tilheyrandi kostnaði og töfum á verkinu.

Verksvit Helga sást ekki hvað síst þegar hann kom fyrir bústað sínum í deiglendi í Skorradal með hjálp góðra manna. Það var algjör snilld. Þar var ekki hægt að koma við stórvirkum tækjum, því þau hefðu sokkið ofan í deiglendið. Helgi notaði því nútímaútgáfu af gömlu vinnulagi frá tímum hesta og sleða til að koma bústað sínum fyrir.

Helgi var ekki fyrir sjálfshól. En hann hafði gaman af að sýna ljósmyndir af uppsetningu og smíði palls í kringum bústaðinn. Enda hafði hann ástæðu til að vera rogginn með það. Það verður að passa upp á ljósmyndirnar sem voru teknar á meðan bústaðnum var komið fyrir. Helgi var líka glöggur. Löngu fyrir hrun sagði Helgi okkur vinnufélögunum að efnahagslíf okkar væri orðið loftbóla sem myndi springa þegar gengisvísitalan næði ákveðnu gildi samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands. Það stóðst. Í október 2008 stóð þessi vísitala nokkurn veginn í því gildi sem Helgi hafði spáð fyrir um. Ef einhver annar en Helgi hefði sagt þetta fyrir hrun hefði maður ekki lagt við hlustir. En af því að það var Helgi sem sagði þetta lögðum við vinnufélagarnir við hlustir.

Það var greinilegt að æskufélagarnir af næsta sveitabæ, bræðurnir Hrólfur og Marinó, stóðu Helga nálægt. Helgi var alltaf glaður í bragði eftir að hafa heyrt í Marinó að norðan eða eftir að hafa hitt hann. Þegar Helgi talaði um Hrólf sagði hann oft „fermingarbróðir minn“ í stað nafns Hrólfs. Hrólfur reyndist Helga vel og í raun eins og bróðir. Hrólfur hafði alltaf samband og aðstoðaði Helga við ýmislegt undir það síðasta. Það skipti Helga greinilega máli þegar Hrólfur keyrði hann upp í bústað í síðasta sinn eftir að Helgi treysti sér ekki til að keyra langan veg.

Það er falleg tilhugsun að norður í landi fyrir um 60 árum fermdust tveir ungir drengir sem ætíð héldu vináttu. Uns yfir lauk hjá Helga. Það var því viðeigandi að Hrólfur var sennilega síðasta manneskjan sem Helgi sá og talaði við.

Minning Helga er falleg.

Hreinn.

Leiðir okkar Helga lágu fyrst saman í fjórða bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Hann hafði tekið landspróf á Laugum vorið 1959 og síðan haustpróf í námsefni þriðja bekkjar upp í fjórða bekk strax haustið eftir. Þetta var ekki hefðbundin leið. Hjá Helga gekk þetta vel enda ágætur námsmaður. Síðan æxlaðist það svo að við urðum herbergisfélagar í sjötta bekk. Við deildum saman herbergi uppi í risi á norðurvistum í gamla skólahúsinu með útsýni yfir Pollinn og Vaðlaheiði. Ekki var hægt að hugsa sér ljúfari og þægilegri herbergisfélaga. Hann kom austan frá Þórshöfn þar sem sjósókn var lifibrauðið. Sumarið milli fimmta og sjötta bekkjar gerði hann út trillu á Þórshöfn. Trilluna hafði hann látið smíða á Akureyri veturinn áður. Hún var skírð Fáfnir og mun séra Halldór Gunnarsson hafa átt þar hlut að máli. Ekki er annað vitað en það hafi verið ein fyrsta skírnarathöfn klerksins. Háseti hjá Helga var annar bekkjarbróðir, Loftur Ólafsson, síðar tannlæknir. Ekki fór miklum sögum af ábata þessarar útgerðar. Á síldarárunum eftir stúdentspróf lá leið okkar saman í síldarverksmiðjum á Siglufirði, Raufarhöfn og Seyðisfirði þar sem við sáum um efnarannsóknir. Helgi hafði farið til Þrándheims í efnafræðinám. Ég fór hins vegar í byggingarverkfræði í HÍ, en á þeim árum þurfti að ljúka því námi annaðhvort í Kaupmannahöfn eða Þrándheimi. Leið okkar lá því aftur saman þegar ég kom til Þrándheims. Helgi var einstaklega ljúfur, barngóður og hvers manns hugljúfi. Þegar ég fór með syni mína í heimsókn til hans var skákborðið gjarnan tekið fram. Hann var ágætur bridgespilari og átti marga góða félaga á þeim vettvangi. Eitt aðaláhugamál hans var þó ljósmyndun, sem að hluta til var tengt vinnunni. Hann var oft fenginn til að taka myndir af ýmsu sem var til rannsóknar, svo sem tæringu í málmum og ýmsu fleiru tengdu starfinu á Keldnaholti. Í því skyni kom hann sér upp vinnuaðstöðu í geymsluherbergi á gangi við íbúðina í Krummahólum. Hann hafði sérlega ánægju af öllu bjástrinu við sumarbústaðinn í Skorradal. Bústaðinn hafði hann keypt frá Súðavík. Sjálfur sá hann um stauraundirstöðuna, standsetningu bústaðarins og gerð verandar. Þótt langt væri á milli okkar rofnaði sambandið aldrei. Einhvern tímann gistum við Olla hjá honum í nokkra daga og ég heimsótti hann gjarnan á Keldnaholtið ef færi gafst. Sumarið 2009 kom bekkurinn í heimsókn á vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar, þar sem ég var við störf. Mér er sérstaklega minnisstæður göngutúr niður að Hafrahvammagljúfri í sól og 20 stiga hita. Helgi var hjálpsamur við þá sem erfitt áttu um gang þótt hann væri sjálfur sárþjáður af sjúkdómi sínum.

Helgi var mér nánastur og kærastur af bekkjarbræðrunum úr MA. Hann vann sín störf af alúð og samviskusemi, krafðist aldrei neins af öðrum en var alltaf reiðubúinn til hjálpar þar sem hann gat liðsinnt. Far þú vel kæri vinur. Við Olla þökkum samverustundirnar, sem þó hefðu mátt vera miklu fleiri.

Sveinn

Þórarinsson.

Ég hitti Helga fyrst haustið 1959 þegar við þrír, Helgi, Egill Egilsson og ég mættum í haustpróf þriðjabekkjar í Menntaskólanum á Akureyri. Enginn okkar hafði setið í þriðja bekk. Þeir komu beint úr landsprófi í Laugum sama vor, en ég kom austan af landi. Allir stóðumst við prófið og settumst saman í fjórða bekk. Skólameistari skipaði svo fyrir að við Egill skyldum verða herbergisfélagar þennan vetur. Ég hafði hins vegar meiri augastað á Helga eftir viðkynninguna í prófunum. Okkur Agli samdi ágætlega og auk þess kom Helgi oft á dag í heimsókn fyrst í stað til þess að hitta sinn gamla félaga frá Laugum. Það var stutt að fara því við bjuggum allir á sama gangi.

Næsta vetur bjuggum við svo allir þrír í lítilli kennaraíbúð sem var laus. Þannig urðu vináttuböndin sterk og röknuðu ekki meðan allir lifðu. Eftir stúdentspróf skildi leiðir. Helgi fór til Þrándheims og lagði stund á efnaverkfræði. Að námi loknu kom hann heim og réðst til Rannsóknarstofnunar iðnaðarins, síðar Iðntæknistofnunar Íslands. Þar starfaði hann nánast til æviloka. Það eru aðeins fáar vikur síðan hann var þar síðast í vinnu. Þar voru verkefnin fjölbreytt, allt frá því að mæla virk efni í lyfjum til þess að mæla flúormengun frá álverum.

Með þessum orðum kveð ég kæran vin og félaga í rösklega hálfa öld.

Einar

Kristinsson.