Dóra Tómasdóttir, f. Dora Green, fæddist í Walkden, Greater Manchester, 28. maí 1928. Hún lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 3. desember 2011.

Útför Dóru fór fram frá Neskirkju 13. desember 2011.

Okkur langaði að senda þakkarkveðju til yndislegrar frænku. Dóra var stór hluti af æskuminningum okkar, og langt fram á fullorðinsár. Hún var gift föðurbróður okkar, Sölva, og þar sem það var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna eru ofarlega í huga minningar um margar samverustundir sem Dóra átti stóran hlut í.

Sunnudagsheimsóknir á heimili þeirra Sölva voru alltaf tilhlökkunarefni og heimsóknir þeirra til okkar á aðfangadag mörkuðu byrjun jólanna fyrir okkur alla æsku okkar. Glaðlyndi hennar og ógleymanlegur hlátur, gestrisni og gæska, hún var alltaf glöð og sýndi okkur áhuga. Sem börnum fannst okkur mikið til koma að eiga þessa ensku frænku sem var svo allt öðruvísi en aðrir ættingjar og þegar við báðar giftumst enskumælandi mönnum eignuðust þeir sérstakan málsvara og stuðningsmann í henni og þótti báðum mjög vænt um hana. Hún hefur þannig sett stórt spor í líf okkar beggja, sem við þökkum henni fyrir af alhug og sendum innilegar samúðarkveðjur til elsku Sölva, til Davíðs og Tómasar og fjölskyldunnar allrar.

Erla Björk og Sigrún Huld Jónasdætur.