Fjármálaráðherra er ekki lengur mjög trúverðugur eftir að vera í þrígang búinn að reyna að þvinga Icesave upp á þjóðina með alls konar bolabrögðum. Hann virðist hafa afneitað öllu sem VG standa fyrir eftir að hafa setið áhrifalaus og hundleiður í stjórnarandstöðu í 18 ár. Hans eina hugsjón virðist vera að bíða eftir að laumufarþeginn fari frá borði til að komast í stólinn hennar.
Þrem árum eftir Geirshrun er jafnauðvelt að stofna fyrirtæki með tilheyrandi kennitöluflakki. Það hefði ekki verið óeðlilegt að breyta verklagsreglum og hækkunum um allt að 1.000% til að fá nýja kennitölu. Einu lausnirnar sem ríkisstjórnin hefur eru að hækka skatta, sem er hægt að skilja að hluta til, en það verður að teljast með ólíkindum að það skuli ekki reynt að draga saman í utanríkismálum, með lokunum á sendiráðum og ferðakostnaði ráðuneyta erlendis, þar sem ferðakostnaður ásamt dagpeningum er orðinn 1,2 milljarðar á fyrstu 9 mánuðum þessa árs.
Aðhald og niðurskurður beinast mest að velferðar- og heilbrigðiskerfi, svo sem með lokunum á líknardeildum og hjúkrunarrýmum, á sama tíma er verið að endurnýja bíla fyrir ráðuneytin ásamt því að moka peningum í gæluverkefni með tilheyrandi skuldasöfnun. Hagvöxtur og efnahagsbati er ranglega mældur þar sem fólk er farið að eyða séreignarlífeyrissparnaði sínum og öðrum sparnaði. Fólk treystir ekki efnahagstjórninni lengur og margir eru hættir að borga skuldir sínar, þar af leiðandi hefur fólk meira á milli handanna. Fólk treystir ekki efnahagstjórninni lengur.
Almenningur ætti að hætta að láta blekkjast þegar fjármálaráðherra talar um að hagvöxtur sé að aukast, og landið farið að rísa og að allt gangi svo vel að allir eigi að vera vinir, að minnsta kosti var ekki mikill vináttubragur hjá Steingrími þegar hann var í stjórnarandstöðu steytandi hnefana í allt og alla öllum stundum.
Það má teljast gott ef Landeyjahöfn getur verið nothæf sem sumarhöfn þar sem það gengur ekki að eyða fleiri hundruð milljónum á ári í uppdælingu úr höfninni. Tónlistarhúsið Harpan á eftir að ylja þjóðinni um ókomin ár við að fjármagna og reka hana, svo má líka dást að fína varðskipinu stífbónuðu út um gluggana á Hörpunni þar sem það liggur við bryggjuna í allri sinni dýrð þar sem við eigum ekki fyrir olíu til að reka það nema kannski á sjómannadaginn.
Óráðsían er algjör hvert sem litið er, kaup á nýjum Herjólfi verða að bíða þar sem það eru ekki til peningar hvort sem Árni Johnsen og Elliði Vignisson bæjarstjóri skilja það eða ekki. Það þarf reyndar frekar að draga úr siglingum frá Vestmannaeyjum til að minnka fiskútflutning í flug á óunnum fiski. Ekki má undir neinum kringumstæðum bregðast fiskvinnslufólki í landi og tilheyrandi þjónustugreinum. Vinnslustöðin getur fjármagnað sinn útflutning á óunnum fiski sjálf.
Þetta á líka við um Síldarvinnsluna í Neskaupstað og fleiri handhafa sameignar þjóðarinnar á fiskistofnunum við Ísland. Það þarf ekki að réttlæta göng í gegnum Oddskarð í nafni fjórðungssjúkrahúss og Verkmenntaskóla Austurlands til að auka fiskútflutning um Mjóeyrarhöfn. Þar til viðbótar höfum við ekki efni á jarðgangagerð og enn síður með afleggjurum í allar áttir, þó að það hefði komið sér vel. Það vilja allir jarðgöng, hvar sem er, jafnt fyrir vestan norðan og austan þar sem það á að spara alls staðar annars staðar en hjá þeim sjálfum.
Þetta á líka við nýbyggingu á háskólasjúkrahúsi þar sem ekki eru til peningar þar heldur. Okkur vantar ekki fleiri óábyrgar kostnaðaráætlanir sem eru 100 til 200% of lágar þegar framkvæmdum eru lokið. Það væri líka í góðu lagi að borgin færi að sýna meiri ábyrgð, t.d. með flugvöllinn. Ætli það færi ekki um borgastjórnina ef hún hætti að fá þær tekjur sem hafa komið af flugvellinum, það er kominn tími til að ráðamenn þjóðarinnar fari að axla ábyrgð á gjörðum sínum og sýna einnig samfélagslega ábyrgð þar sem Háskólasjúkrahúsið er líka fyrir landsbyggðina. Það er nóg komið af sandkassaleik ráðherra sem hefur sýnt sig ágætlega í drullupollinum á Landeyjasandi.
Höfundur er fjárfestir og fyrrv. atvinnurekandi.