Fréttaskýring
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Óvissan er mikil um hvort kjarasamningar halda gildi sínu við endurskoðun á forsendum þeirra eftir áramótin. Þrátt fyrir að samkomulag hafi náðst milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði um átak fyrir langtímaatvinnulausa, fallið var frá þriggja mánaða biðtíma án atvinnuleysisbóta, og hætt var við að leggja fjársýsluskatt á lífeyrissjóðina, er mikill ágreiningur um fjölmörg önnur stór mál, sem getur orðið til þess að samningarnir verði ekki framlengdir.
Ákvörðun eftir einn mánuð
Aðeins fjórar vikur eru til stefnu því ákvörðun um hvort samningarnir falla eða halda gildi sínu á að liggja fyrir 20. janúar, kl. 16.Forystumenn launþegasamtaka og samtaka atvinnurekenda eru á einu máli um að forsenda samninganna um aukinn kaupmátt haldi. Meiri efasemdir eru um þá forsendu, sem samningarnir hvíla á að gengi krónunnar hafi styrkst marktækt frá gildistöku þeirra. Ósennilegt er þó að ákvörðun um gildi samninganna verði látin ráðast af þessu. „Ef slitið verður, þá verður það ekki vegna mála sem snúa að atvinnurekendum heldur því sem lýtur að stjórnvöldum,“ segir viðmælandi innan ASÍ.
Það eru ýmis fyrirheit ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum við gerð samninganna í vor sem útaf standa og allt veltur á. Formannafundur hefur verið boðaður í ASÍ strax eftir áramót til að fara yfir stöðuna. Eitt af heitustu deilumálunum sem geta skipt sköpum um framhaldslíf samninganna, er ákvörðun stjórnvalda að hækka bætur almannatrygginga og til atvinnulausra eingöngu um 3,5%. Þetta segir ASÍ vera skýrt brot á fyrirheitum sem gefin voru við gerð samninganna.
Í fréttatilkynningu frá ASÍ í gær segir að komið hafi fram vilji velferðarráðherra til þess að leysa þessa deilu í tengslum við endurskoðun almannatryggingakerfisins, m.a. með því að skoða leiðir til þess að það sem á vanti í hækkun bóta komi fram sem hækkun á frítekjumarki vegna greiðslu úr lífeyrissjóðum, sem nú er 10 þús. kr. Þetta sé í samræmi við stefnu ASÍ um að frítekjumarkið þyrfti að vera um 70 þús. kr. á mánuði. Náist samkomulag um þetta mun það kosta það ríkissjóð háar fjárhæðir. Ljóst er að leysa þarf þetta mál fyrir 20. janúar ef ekki eiga að koma brestir í forsendur kjarasamninga.
Samþykkt Alþingis að leggja eignarskatt á almennu lífeyrissjóðina hefur valdið uppnámi í samskiptum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, enda að óbreyttu ljóst að sjóðirnir geta eingöngu gripið til þess ráðs að skerða lífeyrisréttindi til að mæta þessum álögum.
Í bréfi sem oddvitar ríkisstjórnarinnar skrifuðu ASÍ og SA fyrir helgi er því lofað að sjóðirnir fái þetta endurgreitt síðar og eigi ekki að þurfa að grípa til réttindaskerðingar. Þetta verði viðbót við þau framlög sem samið var um að kæmu til jöfnunar áunninna lífeyrisréttinda og að frumvarp verði lagt fram þegar á nýju ári, skv. upplýsingum ASÍ.
Rammaáætlun föst í ríkisstjórn
Viðmælendur innan verkalýðshreyfingarinnar eru þó afar tortryggnir á loforð stjórnvalda um þetta í ljósi reynslunnar og segja ekki skýrt hvernig túlka á bréfið. Þetta verði klárlega að afgreiða með löggjöf fyrir 20. janúar og hver sem niðurstaðan verði, sé líklegt að einhverjir muni láta reyna á skattlagninguna fyrir dómi.Fjölmörg fleiri mál eru óleyst og valda óvissu um áframhaldandi gildi samninganna, að mati viðmælenda í verkalýðshreyfingunni. Atvinnumálin ber þar hæst frá sjónarhóli bæði ASÍ og SA, sem vilja koma fjárfestingum í gang.
Innan ASÍ er að koma upp mikil ókyrrð og áhyggjur af því að þingsályktunartillaga um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða og orkuauðlindir er föst í ríkisstjórninni vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna. „Það vísar ekki á gott, því menn höfðu gert sér vonir um að með samþykkt þingsályktunarinnar væri gefið undir fótinn með orkuframkvæmdir og tengdar framkvæmdir til næstu tíu ára,“ segir viðmælandi.
AUKIN SKATTABYRÐI OG FJÁRFESTINGAR Í FROSTI
Samningum ekki sagt upp
„Það er verið að leggja byrðar áfram á atvinnulífið á sama tíma og það situr á hakanum að koma fjárfestingum af stað,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og vísar til skattahækkana á atvinnulífið, sem samþykktar voru á Alþingi.„Það er ótrúlegt að upplifa það að ríkisstjórnin skuli vera að vinna gegn lykilatvinnugreinum í landinu með þeim hætti sem hún gerir,“ segir hann og bendir m.a. á kolefnisgjaldið sem flugfélög þurfa að bera, bankaskattana og gjaldtöku í sjávarútveginum.
„Ríkisstjórnin virðist vera í hugmyndafræðilegri baráttu við burðargreinar atvinnulífsins.“
Um endurskoðun samninganna segir hann að þau atriði sem varða samskiptin við verkalýðshreyfinguna gefi ekki tilefni til þess að kjarasamningum verði sagt upp. Óvissan sé um þátt stjórnvalda, „en við erum í þeirri stöðu að ég reikna ekki með að við fengjum betri útkomu í samningum við verkalýðsfélögin, þótt við segðum upp samningum. Svo höfum við svo oft samið við ríkisstjórnina um mál, sem hafa ekki gengið eftir, að ég sé ekki að það hafi mikið upp á sig að vera að fá einhver ný loforð.“ Vilhjálmur telur yfirgnæfandi líkur á að kjarasamningunum verði ekki sagt upp.