Jónas Kristjánsson „Þetta er mjög gagnleg bók fyrir áhugafólk um Ísland, hvort sem það ferðast á hestbaki, fótgangandi eða í huganum.“
Jónas Kristjánsson „Þetta er mjög gagnleg bók fyrir áhugafólk um Ísland, hvort sem það ferðast á hestbaki, fótgangandi eða í huganum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jónas Kristjánsson. Sögur útgáfa 2011. 400 bls.

Í þessari bók lýsir Jónas Kristjánsson tæplega eitt þúsund og eitt hundrað þjóðleiðum í máli og myndum og sýnir þær á stórum kortum. Á bókarkápu segir að þjóðleið kallist sú leið sem venja hefur skapast um að fólk og fararskjótar fylgi milli tveggja staða. Fornar þjóðleiðir á Íslandi eru jafnan göngu- og reiðleiðir sem á skilgreindu tímabili hafa gegnt hlutverki alfaraleiðar. Jónas hefur áratugum saman safnað og skrásett þjóðleiðirnar í bókinni. Hann byggir á eigin reynslu af staðháttum og styðst við leiðarlýsingarnar sem má rekja til Sturlungu, dönsku herforingjaráðskortanna, munnlegra heimilda og Árbóka Ferðafélags Íslands. Bókinni fylgir starfrænn diskur sem gerir kleift að hlaða leiðunum inn í gps-tæki.

Að loknum formála og inngangi kemur kafli Páls Ásgeirs Ásgeirssonar um gönguferðir. Þar má lesa mjög ýtarlegar, góðar og gagnlegar upplýsingar um gönguferðir. Vönu göngufólki gæti fundist þarna tittlingaskítur á ferð en fyrir hina er þetta frábær kafli. Þarna er nánast allt sem þarf að hafa í huga þegar lagt er af stað í gönguferð; hvernig á að umgangast náttúruna, lesa kort, rata, klæða sig og hvað er best að borða auk margs fleira. Þetta er kafli sem allir þeir sem ætla sér að ferðast eitthvað ættu að lesa. Sömu sögu er að segja um sambærilegan kafla Jónasar um hestaferðir. Þar ritar maður með mikla reynslu sem hefur komist í kynni við margvíslegt fólk og hesta. Jónas fer yfir allt sem þarf að hafa í huga þegar farið er í hestaferð; undirbúning, fararstjórn, trúss, forreið og eftirreið, hestaskipti, vöð og margt fleira. Þetta eru frábærar leiðbeiningar sem ættu að vera skyldulesning fyrir alla sem leggja í hestaferð, þá ætti allt að ganga vel fyrir sig. Jónas skrifar líka kafla um gps-staðsetningartæki sem er einnig mjög vel gerður og gagnlegur.

Þá koma kortin. Byrjað er á Suðurlandi, þá kemur Vesturland, Vestfirðir, Norðurland og endað á Austurlandi. Á hverri opnu er stórt kort með leiðunum vel merktum. Lýsingar eru með hverri leið þar sem merkt er lengd og gerð. Íslandskort sýnir hvar á landinu leiðin er og ljósmyndir skreyta svo síðurnar.

Texti Jónasar við hverja leið inniheldur oft meira en bara leiðarlýsingu. Hann bætir inn ýmiskonar fróðleik, t.d. um hesta, sögu leiðarinnar og eigin upplifun. Þetta geta verið skemmtilegar viðbætur. Leiðinlegt er þegar Jónas fer út í tuð, samanber tuð út í torfæruhjólamenn í lýsingu á Vígdísarvöllum. Sú leið hefur verið skemmd af torfæruhjólum og skiljanlegt að Jónasi gremjist það. Í textanum vitnar hann beint í færslu torfæruhjólamanna á netinu þar sem þeir tala um þessa leið. Þetta setur umfjöllunina á lágt tuð-plan og gerir ekkert fyrir bókina nema láta hana eldast illa.

Í sambandi við umbrotið finnst mér vera of mikið loft á sumum opnum, svo maður fer að velta fyrir sér hvort umbrot bókarinnar sé of stórt. Þá finnst mér ekki fallegt að láta ljósmyndir og kort blæða út af síðunum. Einnig hefðu leiðbeiningar um hvað merkingar á kortunum þýða mátt vera á sömu blaðsíðu. Fyrst kemur rammi með leiðbeiningum á eftir innganginum og svo aftur mörgum síðum síðar koma skýringar á kortum. Hefði ég viljað sjá þetta á sömu opnu, það hefði verið miklu skilvirkara og gert notkun einfaldari. Annars er bókin skýrt sett upp og auðveld í notkun. Hún er falleg í útliti og á eftir að sóma sér vel sem gagnlegt stofustáss.

Það ætti ekki að dyljast neinum að hér er gríðarlega mikið verk á ferð sem Jónas hefur lagt ómælda vinnu í. Þúsund og ein þjóðleið á eftir að gagnast ferðaglöðum Íslendingum í gegnum ár og aldir því ég efa að slíkt þrekvirki verði unnið aftur. Þetta er mjög gagnleg bók fyrir áhugafólk um Ísland, hvort sem það ferðast á hestbaki, fótgangandi eða í huganum.

Ingveldur Geirsdóttir

Höf.: Ingveldur Geirsdóttir