Karl Jensen Sigurðsson fæddist í Djúpuvík á Ströndum 31. júlí 1948. Hann lést á Landspítalanum 9. desember 2011.

Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Pétursson útgerðarmaður, f. 6. mars 1912, d. 8. júní 1972, og Ína Jensen, f. 2. okt. 1911, d. 17. feb. 1997. Systkini hans eru Erla (samfeðra) f. 29. des. 1929, d. 21. jan. 1995, Sigríður, f. 17. júlí 1932, d. 5. maí 1990, Friðrikka, f. 17. júlí 1934, Rut, f. 18. ágúst 1936, Pétur, f. 29. júlí 1942, Kristjana, f. 24. okt. 1943, Hjördís, f. 26. júní 1946, Matthildur, f. 23. jan. 1951, og Guðbjörg, f. 15. okt. 1953.

Karl kvæntist 1. des. 1977 Nönnu Hansdóttur frá Reykjum í Mjóafirði, f. 19. mars 1945. Foreldrar hennar voru hjónin Hans Guðmundsson Wíum og Anna Ingigerður Jónsdóttir. Börn Karls og Nönnu eru Þórunn Anna, f. 12. maí 1979, og Friðrik Jensen, f. 24. sept. 1980, sambýliskona hans er Maddie Saxena, f. 19. feb. 1981. Sonur Karls frá því áður er Annþór Kristján, f. 1. feb. 1976, unnusta hans er Sandra Björk Guðmundsdóttir, f. 18. júlí 1978. Fyrir á Annþór Söru Lind, f. 28. okt. 1994, með Þóru Guðrúnu Friðriksdóttur, og Bjarndísi Sól, f. 25. júní 2000, með Helenu Bjarndísi Bjarnadóttur. Bjarndís á hálfbróður, Hjört Mána Skúlason, sem var Karli kær sem hans eigið barnabarn. Dóttir Nönnu frá því áður og stjúpdóttir Karls er Arnfríður Wíum Sigurðardóttir, f. 22. maí 1972, sambýlismaður hennar er Björgvin Björgvinsson, f. 2. des. 1968.

Karl stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavik, lærði húsasmíði, lauk sveinsprófi 1969 og öðlaðist síðar meistararéttindi í þeirri grein. Karl var í sveit í Árneshreppi í átta sumur, fór þrettán ára til sjós og ellefu ára í fiskvinnslu hjá Ísbirninum. Hann stundaði síðan sjómennsku og verkamannavinnu með námi og var oft til sjós eftir það í skamman tíma í einu. Karl stundaði húsasmíðar í Reykjavík til 1970, vann við bryggjusmíðar hjá Vita- og hafnarmálastofnun 1970-76, flutti þá austur á Neskaupstað og starfaði þar hjá Dráttarbraut Neskaupstaðar til 1982, flutti þá til Egilsstaða þar sem hann sá um byggingarmót fyrir Ræktunarsamband Austurlands. Hann starfaði við öryggisgæslu hjá Flugmálastjórn á Egilsstöðum 1984-96 er hann flutti aftur til Reykjavíkur. Þar hóf hann þá störf hjá Raunvísindastofnun HÍ og starfaði þar til dánardags. Karl starfaði í Alþýðuflokknum frá unga aldri, var formaður FUJ í Reykjavík, sat í miðstjórn og flokksstjórn Alþýðuflokksins um árabil en sagði sig úr flokknum 1994 og gekk til liðs við Þjóðvaka. Hann var kosningastjóri Þjóðvaka í Austurlandskjördæmi í kosningunum 1995. Hann varð síðar virkur meðlimur í Samfylkingunni.

Útför Karls fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 20. desember 2011, og hefst athöfnin klukkan 11.

Margs er að minnast þegar við kveðjum Kalla bróður, hann var kallaður Kalli af fjölskyldu og vinum.

Hann lést eftir stutta en snarpa sjúkdómslegu en hélt fullri reisn til síðustu stundar og ber að þakka það, þannig hefði hann sjálfur viljað hafa það, að vera ekki öðrum byrði.

Kalli bróðir ólst upp í stórum systkinahópi, átta systrum en hann var yngri af tveim bræðrum okkar. Hann grínaðist oft með að hann hefði búið við ofríki okkar systra og lítt komist að með sín mál og er það örugglega satt og rétt. Ekki var hann að erfa það við okkur, var tryggur og góður bróðir.

Hann var einstaklega ættrækinn og tryggur vinum sínum og voru þau Nanna dugleg að heimsækja vini og vandamenn hvar sem þeir bjuggu.

Kalli var jafnaðarmaður af lífi og sál og voru því þjóðmál oft í umræðunni þar sem hann bar að garði. Hann þoldi vel öðrum að hafa aðra skoðun en hann, en hann hvikaði aldrei frá sannfæringu sinni.

Stóra gæfa Kalla var að kynnast Nönnu, einstakri konu sem stóð með honum gegn um lífið, og voru þau samhent í að njóta vina og vandamanna og voru einstaklega góð heim að sækja.

Þau ferðuðust mikið um landið sitt og minnist ég góðra stunda með þeim í Borgarfirði þegar þau komu við á leið sinni áfram ýmist norður eða suður, þau voru góðir gestir og velkomnir.

Þau ferðuðust líka á seinni árum utan, heimsóttu börn sín sem voru í námi erlendis og gáfu þau ferðalög þeim mikið, þau fróðleiksfús og Nanna dugleg að taka myndir og miðla fréttum úr ferðunum. Síðasta ferðin þeirra í sumar var til Bandaríkjanna til að vera viðstödd útskrift sonar síns og þrátt fyrir veikindi Kalla nutu þau ferðarinnar og á fjölskyldan ógleymanlegar minningar frá þessum tíma.

Kalli fæddist á Ströndum og hélt hann tryggð við það svæði og komst þangað í sumar rétt áður en hann greindist með sjúkdóminn sem hann lést af. Þessi ferð var honum mjög mikilvæg þó svo að þarna væri hann orðinn ansi lasinn, en Kalli bróðir komst oft ansi langt á viljanum og með hjálp dóttur sinnar og Nönnu gekk þetta upp.

Það væri hægt að rifja upp margt fleira en eftir situr söknuður og eftirsjá eftir góðum bróður sem við hefðum viljað hafa lengur, en enginn ræður sínum næturstað.

Hugur minn og fjölskyldu minnar er hjá Nönnu og börnum þeirra Kalla. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan guð að styrkja þau á þessum tímamótum en þau eiga minningar um góðan eiginmann og föður, sú minning mun lifa. Ég þakka fyrir árin sem við áttum með Kalla bróður.

Kristjana Sigurðardóttir (Sjana).

Nú hefur þú, elsku bróðir, kvatt þennan heim allt of fljótt. Það er margs að minnast í gegnum öll árin sem við áttum saman. Ég var 2 ára þegar Kalli fæddist þannig að við áttum mikla samleið í uppvextinum, gengum í sömu skólana og höfðum sömu verkefnin við að hjálpa til heima t.d. vaska upp, skúra og fl. og fannst Kalla stundum að við stelpurnar gætum bara gert þetta en hann komst samt ekki upp með það þótt hann reyndi stundum að dobla mig til að gera þetta fyrir sig.

Kalli var nú oft ansi stríðinn og uppátækjasamur sem krakki og fannst t.d. mjög gaman að fela sig þegar við systurnar áttum að passa hann svo hann færi sér ekki að voða niðri á bryggju en þar vildi Kalli helst vera. Og skemmti hann sér vel við að fylgjast með okkur þegar við hlupum um allt og kölluðum á hann og ekki var hann að flýta sér að svara fyrr en við vorum orðnar dauðhræddar og jafnvel farnar að gráta.

En stríðnin og glettnin fylgdu honum alla tíð og var hann alltaf fljótur að sjá spaugilegu hliðina á lífinu og tilverunni.

Hann var mjög frændrækin og voru þau Nanna sérlega dugleg að heimsækja og rækta fjölskyldu og vini. Kalla var mjög annt um systkinabörnin sín og þeirra börn og hafði gaman af að glettast við þau. Það hefði ekki mörgum dottið í hug að kaupa boxhanska í Rússlandi eins og Kalli gerði og gefa Didda okkar þegar hann var 4 ára og svaka hávaðasaman riffil þegar hann var 5 ára, enda var Kalli flottasti og besti frændinn í öllum heiminum að hans mati.

Það var alltaf gott að heimsækja ykkur Nönnu og gaman að fá ykkur í heimsókn og spjalla yfir kaffibolla og ekki þótti Kalla verra ef til var kaka en hann var mikill kökukarl og sælkeri. Vil Sjana sögðum stundum við Kalla að hann fyndi kökuilminn niður á Laugaveg ef við höfðum verið að baka.

Við áttum yndislega helgi saman í september síðastliðnum er þið Nanna komuð í heimsókn austur í sumarbústaðinn til okkar Sigga og nutuð þið þess að geta verið úti í náttúrunni, farið í heita pottinn og fylgst með kartöfluuppskerunni hjá okkur og fá nokkrar kartöflur með heim í poka. Og eigum við góðar minningar frá þeirri helgi. Síðustu vikurnar voru Kalla erfiðar en hann var alltaf jákvæður og hress og gátum við rætt um alla heima og geima og er gott að eiga þá minningu fyrir krakkana, Nönnu og okkur hin.

Elsku Kalli, þín verður sárt saknað af okkur öllum. Að lokum þökkum við Siggi og börnin okkar fyrir samfylgdina í gegn um árin og biðjum guð að blessa þig.

Elsku Nanna, Tóta, Friðrik, Adda og Annþór, þið hafið misst mikið og biðjum við góðan guð um að styrkja ykkur í sorginni.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Kveðja,

Hjördís, Sigurbjörn

og fjölskylda.

Nú er Kalli frændi farinn. Það er nærri því ómögulegt að sætta sig við þá staðreynd þar sem að hann hefur alltaf verið til staðar, alveg frá því að ég man eftir mér. Mjög snemma fékk Kalli heiðursnafnbót hjá okkur systkinunum, Kalli „uppáhalds frændi“ en hann stóð sko heldur betur undir þeirri nafnbót alla tíð. Þegar að við vorum börn var hann mjög duglegur við að kenna okkur „góða“ siði eins og honum einum var lagið og aldrei var grínið langt undan. En grínið og gamansemin var einmitt það sem ávallt einkenndi hann Kalla frænda helst.

Ég á ófáar minningar um hann Kalla sem rifjast upp reglulega og fá mig til að veltast um af hlátri, hann var alltaf til í smá hrekki og glens sem var eflaust stór hluti af því hvað hann náði vel til okkar krakkanna. En börn drógust hreinlega að honum. En þrátt fyrir glensið og grínið átti Kalli sér alvarlegri hliðar og var ávallt tilbúinn að rétta öllum hjálparhönd sem á þurftu að halda. Aðeins örfáum vikum áður en sjúkdómur hans greindist stóð hann í heljarinnar flutningum með mér og minni fjölskyldu, þrátt fyrir að vera hálf slappur, en hann lét það sko ekki stoppa sig í að hjálpa þeim sem stóðu honum næst.

Eitt það erfiðasta við það að Kalli sé farinn er sú tilhugsun að dóttir mín mun aldrei kynnast „uppáhalds frændanum“, hún mun aldrei fá að finna hversu yndislegur maður hann var. Fyrir aðeins örfáum vikum á afmæli dóttur minnar gaf hann henni bangsa sem að hans ósk átti að heita Kalli frændi. Kannski hann hafi gert sér grein fyrir því að hann yrði ekki með okkur mikið lengur en í það minnsta er þetta það síðasta sem dóttir mín fékk frá honum og að vissu leyti vil ég ímynda mér að hún hafi fengið smá hluta af frænda sínum með bangsanum sem hún getur átt um ókomin ár.

Nú eru jólin að ganga í garð en það er ekki auðveldur tími þegar svona missir skellur á. Hjá okkur var orðin föst hefð að vera saman á jóladag. Það verður því mjög stórt skarð í þessum degi í ár eins og svo mörgum öðrum stundum. En lífið heldur áfram og það eina sem ég get hugsað um til að létta sorgina er það að núna mun litli strákurinn minn, sem ég þurfti að kveðja fyrir fjórum árum, hafa „uppáhalds frænda“ til að passa sig þar til að minn tími kemur til að fara til þeirra. Þangað til verðum við hér sem eftir stöndum að halda áfram og muna allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Elsku Nanna, Tóta, Frikki, Anni og Adda, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jónína Eyvindsdóttir

og fjölskylda.

Bræðraböndin eru sterk og höfum við alist upp við sögur af litla bróður pabba þar sem þeir bræður töldu sig hafa þurft að leggja hart af sér til að standa saman í hópi átta systra. Amma var líka dugleg að segja okkur sögur af þeim bræðrum en við lærðum síðar, frá systrunum, að þar var valið úr og fleiri bættust í safnið sem gáfu okkur aðra hlið en ekki síður skemmtilega.

Við minnumst Kalla frænda sem lífsglaðs manns. Þegar við vorum litlir voru ýmsar spennandi keppnir í gangi, aflraunir, kappát og síðar kappræður í pólitík við jafnaðarmanninn stöðuga. Kalli var einstaklega bóngóður og alltaf boðinn og búinn að hjálpa þessum þremur frændum sínum, sem erft hafa takmarkaða verkhæfni í smíðum, við að standsetja íbúðir þegar við vorum að byrja okkar búskap. Þegar börnin okkar fæddust sýndu Kalli og Nanna þeim einstaka athygli og alúð.

Hin síðari ár lágu leiðir okkar líka saman í kristilegu starfi tengdu KFUM og K, og var sérstaklega gaman að fá frænda inn í þann félagsskap, þar sem hann naut sín vel.

Sárt er að missa frænda okkar og vin svona snemma og verður hans sárt saknað. Kalli frændi átti lifandi trú á frelsara okkar Jesú Krist og fullvissa þess að hann hvíli nú í faðmi hans dregur úr sársaukanum að missa hann allt of fljótt.

Sigurður, Gunnar Þór og Hannes Péturssynir og fjölskyldur.

Traustur og góður félagi um nær tveggja áratuga skeið, Karl Jensen Sigurðsson, er látinn. Það er sannarlega skarð fyrir skildi hjá okkur jafnaðarmönnum, ekki síst í Þjóðvakahópnum þar sem Kalli tók virkan þátt.

Kalli var eldheitur hugsjónamaður, jafnaðarmaður af lífi og sál, og í erli og amstri stjórnmálanna síðastliðna áratugi var gott að eiga hann að. Hann var einn af mínum dyggustu stuðningsmönnum, á hverju sem gekk, en hikaði ekki við að gagnrýna ef svo bar undir. Það var ávallt gagnlegt að hlusta á sjónarmið hans í smáu jafnt sem stóru.

Hann var mikill félagsmálamaður og naut sín meðal fólks – hlýr, glaðvær og bjó yfir óbilandi bjartsýni. Og þegar á brattann var að sækja og mest reið á að láta bölmóð ekki ná yfirhöndinni var Kalli duglegur að stappa stálinu í fólk.

Kalli var ávallt reiðubúinn þegar blásið var til prófkjörs eða kosninga og þeir voru ófáir kílómetrarnir sem hann keyrði prófkjörsrútuna. Hann hikaði jafnvel ekki við að nota dýrmæta sumarleyfisdaga sína í flokksstarfið, ef því var að skipta. Og í svokölluðum rósagöngum heim til kjósenda var hann einnig fremstur í flokki, annaðhvort í gönguhópnum eða við stýrið á rútunni góðu.

Ég hitti Kalla í sumar þegar hann hafði nýverið greinst með það mein sem dró hann til dauða. Þá sat minn maður í sólinni, með Nönnu konu sinni og Þórunni dóttur þeirra, á samkomu fyrir utan Iðnó sem haldin var til að sýna vinaþjóð okkar í Noregi samstöðu og samúð vegna hörmungaratburðanna í Útey og Osló.

Ég mun aldrei gleyma því augnabliki þegar Kalli sagði mér tíðindin af veikindum sínum. Hann klökknaði augnablik – en aðeins augnablik – þegar hann tjáði mér hversu alvarleg staðan væri. Enn sem fyrr var skammt í bjarta brosið og hlýja augnaráðið sem ég geymi í hjarta mínu sem órjúfanlegan hluta minningarinnar um þennan góða vin og félaga sem hafði svo mikið að gefa.

Við Kalli hittumst síðast á Landsfundi Samfylkingarinnar í lok október. Þá var hann augljóslega orðinn mjög veikur. Þó dró hann hvergi af sér heldur sat tveggja daga landsfund frá morgni til kvölds og mætti glaður í bragði á fagnað á föstudagskvöldinu ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Útgeislun hans þetta kvöld minnti mig á þá tíð þegar ég naut gestrisni á heimili þeirra hjóna á Egilsstöðum 1994, á ferð minni um landið í pólitískum erindagjörðum. Þrátt fyrir þverrandi þrek var Kalli, vinur minn, ennþá jafneinlægur og óbilandi í trúnni á jafnaðarstefnuna sem hann barðist svo dyggilega fyrir alla tíð.

Ég sendi eiginkonu Kalla og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur á erfiðum tímum og bið Guð að gefa þeim styrk í sorginni.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Látinn er kær vinur eftir erfið veikindi og harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Kynni okkar við Kalla, Nönnu og börnin þeirra hófst þegar þau fluttu frá Norðfirði til Egilsstaða árið 1982. Leiðir okkar Kalla lágu saman í gegnum Kiwanisklúbbinn Snæfell á Fljótsdalshéraði, en þar störfuðum við báðir að mannúðar- og líknarmálum, þar var Kalli örugglega á réttum stað. Alltaf var hann fyrstur manna til að bjóða fram krafta sína hvort sem var í fjáröflunarverkefni eða til annarra góðra verka að öllum öðrum ólöstuðum. Kalli vann í mörg ár hjá Flugmálastjórn í slökkviliðinu á Egilsstaðaflugvelli, einnig vann hann við smíðar með því starfi, enda var hann lærður húsasmiður og hafði meistararéttindi í því fagi. Hann byggði sér og fjölskyldu sinni mjög vandað og gott hús á Ranavaði 6 á Egilsstöðum.Við vinir hans hjálpuðum honum við að byggja húsið eins og við gátum og ekki stóð á Kalla að endurgjalda þann greiða.

Á svipuðum tíma var von á stækkun í minni fjölskyldu og annaðhvort var það að flytja í stærra húsnæði eða að byggja við húsið. Kalli ráðlagði okkur að byggja við húsið okkar.

„Þú teiknar og ég verð meistarinn, þetta verður ekkert mál.“ Svona var Kalli, sannur vinur, alltaf reiðubúinn að rétta fram hjálparhönd.

Sterk vináttubönd hafa tengt okkur saman í gegnum árin, og þau hafa ekki rofnað þó að Kalli og fjölskylda flyttu suður til Reykjavíkur. Þau hafa bara styrkst og margar og ómetanlegar eru þær gleðistundirnar sem við höfum átt með þér og fjölskyldu þinni.

Ferðalögin bæði hér heima og erlendis. Stórkostleg var t.d. ferðin okkar hjóna ásamt Kalla og Nönnu að heimsækja Tótu dóttur þeirra þegar hún var við nám í læknisfræði í Debrecen í Ungverjalandi. Ævintýralegar voru ferðirnar að Reykjum í Mjóafirði og yndislegt var að koma til ykkar í hús Jóhannesar úr Kötlum í Hveragerði. Notalegt var að þiggja kaffisopa hjá ykkur í húsbílnum ykkar og alltaf var gott að koma á heimilið. Okkur var alltaf tekið sem höfðingjum, hvort sem við vorum bara að koma við eða vorum í gistingu. Sérstaklega minnist ég þess tíma með hlýju til Kalla og fjölskyldu þegar ég veiktist alvarlega fyrir nokkrum árum og lá á Landspítalanum, hvað þið voruð dugleg að heimsækja mig, taka mig með ykkur í bíltúra, heim til ykkar í mat og kaffi og telja í mig kraft og kjark á erfiðum tímum.

Elsku Kalli, við biðjum Guð að blessa minningu þína, þín verður sárt saknað um ókomna tíð, stórt skarð er rofið í vinahópinn með fráfalli þínu, við munum aldrei gleyma þér og munum ávallt láta minningu þína lifa.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Elsku Nanna, Tóta, Friðrik, Adda og Annþór og aðrir ástvinir, megi Guð styrkja ykkur í sorginni, við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Guð verndi ykkur og blessi.

Magnús Óskar Gunnarsson,

Svanfríður Kristjánsdóttir,

Sandra Ósk Magnúsdóttir,

Gunnar Sigurður Magnússon.

Fljótlega eftir að Strandamaðurinn og húsasmiðurinn Karl Jensen Sigurðsson var ráðinn umsjónarmaður fasteigna Raunvísindastofnunar Háskólans í ágúst 1996 varð öllum ljóst að þar hafði réttur maður ráðist á réttan stað. Með góðum skipulagshæfileikum og útsjónarsemi sá Karl alfarið um rekstur hússins á Dunhaga 3, en þar vinna að jafnaði um 60 manns við vísinda- og skrifstofustörf. Karl sinnti húsinu af þeirri kostgæfni sem væri það hans eigið, hugsaði um þarfir þeirra sem þar unnu og hafði ráð undir rifi hverju þegar kom að því að endurskipuleggja tilrauna- og skrifstofuaðstöðu innan veggja hússins. Starfið var ábyrgðarmikið og bindandi þar sem kvöld- og helgareftirlit er með frágangi tilraunastofa sem hýsa m.a. verðmæt tæki til vísindarannsókna.

Við framkvæmdir og endurnýjum á tilraunastofum komu meistararéttindi Karls í húsasmíði og fjölþætt starfsreynsla að góðum notum. Karl sá um allan undirbúning, val á fagmönnunum og var sérlega útsjónarsamur við að halda kostnaði í lágmarki og nýta sem best þær fjárveitingar sem fengust. Karl átti einnig stóran þátt í því að fyrir nokkrum árum fékkst aukafjárveiting til þess að endurnýja rúmlega 40 ára gamlar rafmagnslagnir hússins og bæta aðstöðu starfsmanna. Ávallt var hann hress í viðmóti og léttur í lund við samstarfsmenn sína, og hafði gaman af að spjalla stutta stund um menn og málefni þótt næg væru verkefnin. Þrátt fyrir erfið veikindi hafði hann í haust umsjón með viðhaldi gestaíbúðar stofnunarinnar á Víðimel.

Karl sinnti starfi sínu af kostgæfni, bar hag Raunvísindastofnunar fyrir brjósti og var vel liðinn af öllum. Fyrir hönd Raunvísindastofnunar Háskólans þökkum við Karli Jensen Sigurðssyni samfylgdina og sendum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur. Hans verður sárt saknað.

Bryndís Brandsdóttir,

Hafliði Pétur Gíslason

og Sigurður Guðnason.

Ágætur samstarfsfélagi á Raunvísindastofnun Háskólans, Karl Jensen Sigurðsson, er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Hér verður hans minnst í nokkrum fátæklegum orðum.

Kalla kynntist ég fyrst þegar hann um miðjan tíunda áratug seinustu aldar hóf störf sem umsjónarmaður í húsi Raunvísindastofnunar að Dunhaga 3. Þá lét af störfum forveri Kalla sem gegnt hafði starfi umsjónarmanns og forstöðu trésmíðaverkstæðis stofnunarinnar um árabil við frábæran orðstír. Því var ljóst að Kalla biði það erfiða hlutskipti að sanna sig og ríkti mikil eftirvænting meðal starfsmanna um hvernig til tækist. En Kalli sýndi sig og sannaði frá fyrsta degi og náði hug og hjörtum starfsmanna stofnunarinnar með dugnaði, fagmennsku og mikilli lagni og ljúfmennsku í mannlegum samskiptum.

Hann varð fljótt lykilmaður í daglegu lífi stofnunarinnar og ekki síður hvati fyrir félagslífið, tók virkan þátt í að skipuleggja árshátíðir, samkomur og ferðalög starfsmanna. Hafa ber í huga að akademískir starfsmenn eru ekki alltaf lömb að leika sér við en í gegnum þær flækjur sá Kalli og sigldi þannig að eftir var tekið.

Kalli var einstaklega samviskusamur maður og bar hag stofnunarinnar og starfsmanna hennar mjög fyrir brjósti. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð hennar. Hann vílaði það ekki fyrir sér að ganga á fund fjárveitingarvaldsins og biðja um stór fjárframlög til að ráðast í umtalsverðar umbætur og endurnýjanir á húsinu og hlaut til verkefnisins það sem til þurfti. Þess munum við njóta um mörg ókomin ár.

Á þessum árum Kalla við stofnunina færðist starfsemin í húsinu mikið til yfir á vettvang efnafræðinnar og rannsóknastofa á því fræðasviði. Þetta er flókin starfsemi og í mörg horn að líta. Þarna komu hæfileikar Kalla berlega fram, samviskusemi, greiðvikni, ósérhlífni, reynsla, kunnátta og lagni við að sinna þörfum starfseminnar. Hér þurfti að setja í stand skrifstofur kennara og fræðimanna, aðstöðu framhaldsnema, breyta skrifstofum í tækjaherbergi og setja upp flóknar rannsóknastofur með loftræstibúnaði, stinkskápum og öllu tilheyrandi. Allt þetta leysti Kalli af stakri prýði og þá kom sér vel að vera laghentur og kunna fagmannlega til verka.

Kalli var afar þægilegur maður í umgengni, hvers manns hugljúfi og ætíð boðinn og búinn að bjóða fram sína aðstoð. Hann var bæði skemmtilegur, vel gefinn og vel lesinn og naut mikillar virðingar okkar starfsmanna á stofnuninni, jafnt prófessora og kennara, sérfræðinga, meistara- og doktorsnema, skrifstofufólks og sumarstarfsmanna. Það varð okkur mikið áfall að verða vitni að veikindum hans fyrr á árinu og fráfalli hans í kjölfarið. Fyrir hönd starfsmanna á Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun (EH) færi ég Kalla hugheilar þakkir fyrir frábært samstarf og konu hans, börnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.

Guðmundur G. Haraldsson,

formaður stjórnar EH.