Margt bendir til þess að það verði hvít jól um allt land. Veðrið verður þó ekki sérstakt nú í síðustu vikunni fyrir jól. Vikan verður mjög umhleypingasöm og má jafnvel búast við hvassviðri og rigningu sunnanlands á morgun.
„Á miðvikudaginn hlýnar vel upp fyrir frostmark á sunnan- og vestanverðu landinu og fer að rigna. Svo kólnar aftur á fimmtudaginn og á Þorláksmessu verður vestanátt með éljum. Það gæti bæst við snjóinn þá ef honum hefur skolað í burtu á miðvikudeginum en ég er ekki trúaður á að hann taki alveg upp. Á aðfangadag gæti orðið leiðindaveður, þá er von á annarri lægð með snjókomu eða rigningu og hvassvirði. Svo mér sýnist margt benda til þess að það verði hvít jól um allt land, þau gætu þó orðið flekkótt sunnan- og vestanlands,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Síðustu dagana fyrir jól er fólk oft mikið á ferðinni en það mun ekki viðra vel til þess á morgun, miðvikudag. „Það er hætt við því að það verði hálka og leiðindafærð á miðvikudaginn, verður væntanlega erfiður dagur til ferðalaga. Fimmtudagur og föstudagur ættu að verða skárri en það gætu orðið leiðindi með færð á aðfangadag. Það eru sviptingar í veðrinu þessa viku og alveg fram yfir jólahelgina,“ segir Þorsteinn og brýnir fyrir fólki að kanna vel færð og veðurspá áður en lagt er af stað.
Kaldur desember
Á bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings, trj.blog.is, kemur fram að fyrri hluti desember hafi verið óvenjukaldur, sá kaldasti í Reykjavík síðan árið 1950. „Reyndar er alltof snemmt ennþá að fullyrða um meðalhita í desember, en fyrri hlutinn hefur verið óvenjukaldur – sá kaldasti í Reykjavík síðan í desember 1950 (það er staðan í augnablikinu).Á Akureyri hefur núverandi desember aðeins vinninginn í kulda miðað við 1950,“ ritar Trausti.
ingveldur@mbl.is