Viðurkenning Gunnar Sigurðsson færði Emil Guðmundssyni gjöf fyrir að hafa haldið félaginu gangandi í 40 ár. Félagar Skötuklúbbsins hittust á byggðasafninu að Görðum á Akranesi á laugardaginn og gerðu sér glaðan dag.
Viðurkenning Gunnar Sigurðsson færði Emil Guðmundssyni gjöf fyrir að hafa haldið félaginu gangandi í 40 ár. Félagar Skötuklúbbsins hittust á byggðasafninu að Görðum á Akranesi á laugardaginn og gerðu sér glaðan dag. — Ljósmynd/Gísli Gíslason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sumum þykir það manndómsmerki hið mesta að borða skötu í aðdraganda jóla og því kæstari sem skatan er þeim mun betra.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sumum þykir það manndómsmerki hið mesta að borða skötu í aðdraganda jóla og því kæstari sem skatan er þeim mun betra. Um helgina komu félagar í Íslenska skötuklúbbnum, Skötuklúbbi Emils eða The Icelandic Skate Club eins og hann er yfirleitt kallaður, saman í 40. sinn og sem fyrr var glatt á hjalla, en félagsmenn hittast bara einu sinni á ári.

„Þetta byrjaði 1971,“ segir Emil Guðmundsson, formaður klúbbsins frá upphafi. „Þá leiddist okkur Sigga Magg, Sigurði Magnússyni, þáverandi blaðafulltrúa Loftleiða, þótti ómögulegt að fá ekki skötu á Þorláksmessu. Þá var bannað að vera með skötu í veitingahúsum vegna lyktarinnar en sem betur fer hefur banninu verið aflétt. En hvað um það. Ég var hótelstjóri á Hótel Loftleiðum á þessum tíma og við ákváðum að biðja kokkinn um að útbúa skötu handa okkur í veitingasalnum. Í staðinn sögðumst við ætla að koma góðum skötuklúbbi á laggirnar því fleiri en við vildu borða skötu á þessum degi. Við völdum vandlega í hópinn sem stækkaði ár frá ári og nú erum við 35 til 38 sem mætum í veisluna.“

Landsmálin óleyst

Í hópnum eru nokkrir sem hafa verið með frá fyrstu árunum, menn eins og Finnbjörn Þorvaldsson, Ormar Guðmundsson, Daníel Guðnason, Stefán Skaftason, Jón Guðmundsson, Guðni Þórðarson og Wilhelm Wessmann. „Þetta varð strax svona vinaskötuklúbbur, en margir eru nú farnir heim,“ segir Emil.

Á árunum 1986-2000 starfaði Emil hjá Icelandair erlendis og stofnaði m.a. skötuklúbb í Kaupmannahöfn, en starfsemi Íslenska skötuklúbbsins féll aldrei niður því hann kom alltaf heim fyrir jólin. Eftir að hann hætti að vinna fjölgaði Skagamönnum í hópnum og síðan hefur veislan verið til skiptis í Fjörukránni í Hafnarfirði og á Akranesi, en áður var hún alltaf á Hótel Loftleiðum. „Fyrstu áratugina ræddum við landsmálin og leystum þau,“ segir Emil og bætir við að síðan hafi söngurinn og skemmtunin tekið völdin. „Eftir að við byrjuðum að fara á Fjörukrána sungu dætur Jóa hótelstjóra, Jóhannesar Viðars Bjarnasonar, jólalög fyrir okkur og þegar Gunnar Sigurðsson bættist í hópinn ásamt vinum sínum á Skaganum jókst fjörið til muna. Bæjarstjórarnir fyrrverandi, Gísli Gíslason og Gísli S. Einarsson, hafa séð um skemmtiatriðin og nú sjá aðrir alfarið um að leysa landsmálin enda eru þau óleyst. En það er miklu skemmtilegra að syngja og vera glaður.“

SKÖTUÁT LANDSMANNA EYKST MEÐ HÆKKANDI ALDRI

Skata vinsæl á Þorláksmessu

Margir halda í þá vestfirsku hefð að borða skötu á Þorláksmessu.

Samkvæmt könnun MRR ætla 55,5% fólks á aldrinum 50-67 ára að borða skötu á Þorláksmessu. 46,6% karla ætla að borða skötu á þeim merka degi en 37,0% kvenna. 49,0% þeirra sem búa á landsbyggðinni ætla að borða skötu á föstudag en 37,2% höfuðborgarbúa.

Þorláksmessa er haldin til minningar um Þorlák hinn helga Þórhallsson, biskup í Skálholti. Hann lést 23. desember 1193. Þorláksmessa á sumri er 20. júlí og var lögleidd 1237 til að minnast þess að þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp til að nýtast til áheita. Þann dag eru líka haldnar skötuveislur.