Nú er hún Hulda Margrét Waddell samnemandi okkar í guðfræðideild Háskóla Íslands farin á fund Frelsarans. Það er hoggið skarð í nemendahópinn sem erfitt er að fylla.
Hulda var einstaklega góður námsmaður og góð fyrirmynd fyrir okkur hin. Hún var samviskusöm og vel undirbúin fyrir kennslutímana. Þegar kennarinn varpaði fram spurningum var hún yfirleitt með rétt svör við spurningunum. Hún kom oft með skemmtileg innskot sem gaf merki um mikla þekkingu og góðan skilning á efninu. Námið var henni líf og yndi og hún naut þess að kafa ofan í fræðin.
Hulda var einstaklega hjálpsöm og óspör á upplýsingar um ritgerðir eða annað sem gat hjálpað okkur samnemendum hennar. Mér kemur í huga einn eftirmiðdagur síðastliðið vor þar sem hún gaf sér tíma í öllum sínum önnum og prófundirbúningi til að gera sér ferð í skólann til að hjálpa okkur við greiningu á grískum texta. Ég gleymi ekki hve þetta reyndist henni auðvelt.
Ég hitti Huldu fyrir um ári síðan fyrir utan Háskólatorgið þar sem hún var að koma úr prófi í Nýja testamentinu. Hún hafði svo mikið að skrifa að hún gaf sér ekki tíma til að borða eina mandarínu sem hún hafði með sér í prófið. Hún vissi svo mikið og þurfti að koma svo miklu frá sér að próftíminn dugði varla til.
Hulda var góður vinur og félagi sem fór allt of snemma frá okkur. Ég fylgdist með baráttu hennar við erfiðan sjúkdóm sem bugaði hana að lokum. Hún gafst aldrei upp en hélt fast í vonina um að hún yrði heil að nýju og myndi ná sér.
Hulda mín, þú varst ljós fyrir okkur hin og góð fyrirmynd sem mun lifa áfram í hugum okkar. Þú varst svo þakklát fyrir allar bænir og uppörvandi orð sem við reyndum að færa fram af veikum mætti.
Guð blessi fjölskylduna þína sem var þér svo kær og stóð svo vel við bakið á þér. Bænin var Huldu kær og vil ég því enda á einu erindi úr Heilræðavísum Hallgríms Péturssonar
Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð
lykill er hún að drottins náð.
Kæra Hulda. Þú ert farin frá okkur. Ég þoli það ekki. Ég fékk kveðjur frá þér til Kaupmannahafnar í lok nóvember. Ég veit ekki hvað hún er að meina, sagði Dóra skilaboðaskjóða. Jú, sagði ég, þetta er Hulda sem alltaf er í sambandi við fólkið sitt nær og fjær. Hún vildi bara segja mér að hún hefði hugann við það sem við vorum að tala um seinast. Að heyra að líðan þín væri ekki svo góð var bara að bíta á jaxlinn og vita að þú meikaðir það. Fyrir þig, Gulla, systkinin þín og systkinabörn og okkur vinina þína og annað samferðafólk og ekki minnst fyrir þig sem áttir svo mikið eftir og áttir svo mikið hjá okkur öllum sem þekktum þig. Sterk varst þú alltaf, Hulda, og það myndir þú halda áfram að vera. Með skakka brosið og skilninginn, alltaf. Hulda er Hulda. Að skilaboðaskjóðan Dóra sendi mér skilaboð nokkrum dögum seinna um andlát þitt fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Enginn gat sagt mér að þú værir farin frá okkur. Ég kynntist þér Hulda í Grjótaþorpi á fyrri hluta 8. áratugarins. Við vorum ung með hugsjónir og ákveðnar lífsaðstæður. Enginn talaði um það þá að við værum að velja okkur leið í lífinu út frá hugmyndum okkar og framtíðarhugsjónum, sem mótuðust á þessum tíma. Það voru umbrotatímar líka fyrir okkur á einstaklingsplaninu. Mikið var rætt og ritað. Þú Hulda settir þig alltaf í stöðu þess sem ekki dæmir, þurftir ekki að vita betur, en beittir skilningslundinni, þurftir ekki að berjast fyrir skoðun þinni, þú hafðir hana sjálf. Eftir ungmennaárin í Reykjavík urðu snertifletirnir strjálli: Að hittast í Kaupmannahöfn ungar og efnilegar. Þú bjóst hjá mér í Nansensgade dagana þá. Fara saman á Skagen Visefestival með kærustunum okkar, ungar stúlkurnar. Það ár var 1979. Hittast í Reykjavík árunum seinna með góðum vinum og rifja upp tímann saman og það sem var nú. Hittast aftur og aftur gegnum árin, spjalla saman, skilja tímann og okkur. Heimsækja ykkur hjónin á Rauðalækinn. Að hittast fyrir tilviljun í bókabúðinni í Köbmagergade. Ég þá löngu flutt til Óslóar. Þú varst að afgreiða, tókst þér pásu og við fengum tíma saman. Það var óviðjafnanlegt. Alltaf þessi nálæga einlægni og hnyttnu athugasemdir og skelmska brosið. Þessi gleði yfir mér og þér og tilverunni. Þú vissir svo mikið, ögn meira en við hin án þess að við vissum af því. Segirðu það Hulda, meinar þú það? Þetta er Huldan okkar. Ég þoli ekki að vita af því, en þú hefur kvatt okkur áður en þú vildir það sjálf en vildir með öllu þínu þreki og lífsvilja vera áfram með okkur og með návist þinni auðga vitund okkar um það að vera til. Fornfræðin, skilningur lífsins og heimstrúarbrögðin, það ert þú Hulda, alltaf í nærverunni og námundinni. Að þú værir að vinna að mastersritgerðinni þinn var ekkert sem þér fannst þú þurfa að koma á framfæri við okkur. Þú þurftir ekki að trana þér. Það ert þú. Ég kveð þig nú, kæra vinkona, ég þoli það ekki en verð að lúta. Hugur minn leitar til Gulla, systkina þinna og systkinabarna. Megi Guð og forsjónin vera með ykkur.
Þín vinkona,