Mario Draghi
Mario Draghi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, hefur sagt hið ósegjanlega. Forveri hans, Jean-Claude Trichet, neitaði ævinlega að ræða möguleikann á að evrusvæðið kynni að liðast í sundur.

Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, hefur sagt hið ósegjanlega. Forveri hans, Jean-Claude Trichet, neitaði ævinlega að ræða möguleikann á að evrusvæðið kynni að liðast í sundur. En Draghi er tilbúinn að ræða hið ósegjanlega eins og fram kemur í nýju viðtali.

Þar ræddi hann það sem mundi blasa við ríkjum sem kynnu að hætta í evrusamstarfinu og taldi að þau mundu standa frammi fyrir enn meiri vanda, sem þarf ekki að koma á óvart miðað við stöðu Draghi.

Athyglisverðara var þó að hann sagði enga leið að segja fyrir um hvernig færi fyrir þeim ríkjum sem eftir yrðu.

Á meðan Trichet neitaði að ræða möguleikann á uppbroti evrusvæðisins eða falls evrunnar vegna þess hve fjarstæðukenndur hann væri vissu samt sem áður margir – og væntanlega hann þar á meðal – að staða evrunnar væri ótrygg.

Viðurkenning Draghi á stöðu evrunnar gerir hana ekki endilega veikari, enda hjálpar lítið að stinga höfðinu í sandinn þegar hætta steðjar að. Staðan hefur hins vegar fjarri því styrkst þó að nú sé viðurkennt að evrusvæðið sé á brauðfótum.

Og staða Íslands, sem umsóknarríkis að ESB og evrunni, verður vissulega enn furðulegri en áður þegar allir hafa viðurkennt þessa staðreynd. Ekki síst þar sem leiðtogar landsins eru allir með höfuðið upp að ökklum í sandinum.