Vilborg Guðsteinsdóttir var fædd í Reykjavík 10.8. 1927. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítala v. Hringbraut, 7. desember síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Guðsteinn Eyjólfsson, klæðskerameistari og kaupmaður í Reykjavík, f. 1.1. 1890 í Krosshúsum í Grindavík, d. 12.7. 1972, og Guðrún Jónsdóttir, f. 20.5. 1893 í Miðhúsum í Hvolshreppi, d. 13.11. 1942. Systkini Vilborgar voru: 1) Hólmfríður María, f. 11.8. 1914, d. 18.5. 1989. 2) Jón Óskar, f. 9.8. 1916, d. 14.4. 1975. 3) Eyjólfur, f. 10.8. 1918, d. 22.9. 2004. 4) Kristinn, f. 21.4. 1921, d. 7.12. 2000. 5) Sigursteinn, f. 3.4. 1923, d. 3.10. 2005. 6) Ársæll, f. 27.12. 1929, d. 9.1. 2007. 7) Málfríður, f. 12.7. 1931, d. 30.10. 1998. Vilborg giftist 1948 Óskari Jensen, f. 16.4. 1923 á Eskifirði, d. 14.3. 1975, rafvirkjameistara og verslunarmanni í Reykjavík. Foreldrar Óskars voru: Erlín S. Jónsdóttir, f. 30.12. 1890 á Eskifirði, d. 5.11. 1978, og Pétur Vilhelm Jensen, f. 1.12. 1874 á Reyðarfirði, d. 26.7. 1961, kaupmaður og útgerðamaður á Eskifirði, síðar í Reykjavík. Börn þeirra: 1) Gunnar Guðsteinn, f. 1948, d. 22.12. 1997. Maki var Sigurdís Ólafsdóttir, f. 1950, þau slitu samvistum. Börn: a) Ólöf, f. 1967, maki er Baldur Magnússon, f. 1964. Börn: Stefán Óli og Gunnar Örn, Ívar Þór Hilmarsson, barnsfaðir Hilmar Hilmarsson, barn Ívars, Sara Hlín, b) Óskar, f. 1968, maki Ingibjörg Reynisdóttir, f. 1970 barn: Reynir. Barn Ingibjargar, Lovísa R. Þórðardóttir. c) Guðsteinn Ómar, f. 1970, d. 1995. 2) Erlín, f. 1950, maki Ástráður Guðmundsson, f. 1946. Börn a) Vilborg María, f. 1975, maki Sigurður U. Sigurðsson, f. 1972, börn: Ástráður Unnar, Sigurlinn María, Magnús Arngrímur og Hrafnkell Flóki, b) Katrín, f. 1979, sambýlism. Hans A. Tómasson, f. 1975, börn: Erlín Katla og Ásrún Júlía, c) G. Andri, f. 1985.
3) Ásta, f. 1955, maki var Steinberg Ríkarðsson, f. 1954, þau slitu samvistum. Börn: a) Valgerður Ósk, f. 1980, sambýlism. Baldvin Þ. Baldvinsson, f. 1978, börn: Heimir Ríkarður og Sumarrós. b) Sigurlín Rós, f. 1987. 4) Finnur, f. 1957, maki Sólveig Kristjánsdóttir, f. 1956. Börn: a) Ásdís, f. 1984, maki Nolyn Wagner, f. 1979. b) Óskar Auðunn, f. 1987, c) Konráð Gauti, f. 1988, d. 1988. d) Sigrún, f. 1991 og e) Fanney Ösp, f. 1994. 5) Þórunn, f. 1964, maki Stefán Guðmundsson, f. 1962. Börn: a) Friðrik Þór, f. 1987, b) Stefán Þór, f. 1989, og Erlín Ósk, f. 1996. Sambýlismaður Vilborgar síðari ár var Óskar Guðmundsson, f. 1925, fv. framkvæmdastjóri Iðnfræðsluráðs 1972-1990, síðar deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu. Vilborg ólst upp á Laugaveg 34 í Reykjavík. Hún lauk hefðbundnu skólanámi frá Austurbæjarskóla og Kvennaskólanum í Reykjavík. Eftir það stundaði hún nám í saumaiðn í Kaupmannahöfn. Vilborg starfaði á saumaverkstæði föður síns þar til saumastofan var lögð niður. Einnig vann hún við fjölskyldufyrirtækið Lýsingu sf. Árið 1972 hóf hún störf hjá Iðnfræðsluráði og starfaði síðar sem iðnfulltrúi í menntamálaráðuneytinu uns hún lauk störfum fyrir aldurs sakir.
Útför Vilborgar fer fram frá Háteigskirkju í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 20. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 11.
Elsku besta mamma mín, mikið sakna ég þín. Við hringdumst á daglega og iðulega oft á dag. Nú sit ég og horfi á símann. Það er erfitt að sætta sig við að þú sért farin, þetta gerðist bara allt of hratt.
Við áttum mjög margar góðar stundir saman – tala nú ekki um allan tímann sem við sátum og drukkum kaffi eftir að hafa farið til Óskars og svo heim í Sóleyjarimann, þá varstu sko kaffiþyrst. „Eigum við ekki að fá okkur kaffi?“ spurðir þú í hvert sinn sem við vorum búnar að erindast. Stundum fórum við á kaffihús því þú elskaðir að fá þér góða tertusneið með góðu kaffi. Stundum spurðir þú hvort Friðrik væri búinn að vinna því þér þótti svo gaman að koma heim til hans.
Oft hringdirðu í mig þegar þú vissir að ég ætti stutta daga og væri væntanleg til þín og spurðir hvort ég vildi ekki koma með eitthvað gott að borða. Við prófuðum brauðin í bakaríunum, svo fórum við að prófa Subway, Hlölla-báta o.fl. Þú varst hrifnust af Subway. Erlín sagði einhvern tímann: „Dísess, hún amma er svo mikill unglingur, finnst Subway gott.“ Stefán sagði við einn daginn eftir að hafa keyrt þig til Óskars „Það er svo gaman að tala við ömmu, hún veit allt.“
Þær eru endalausar minningarnar sem ég og fjölskyldan mín eigum með þér, elsku mamma, og það er gott að geta hugsað um allar þær góðu stundir. Verst að þær verða ekki fleiri. Erlín sagði þegar þú varst hvað veikust á spítalanum: „Ég er ekki alveg búin að læra að búa til ömmugrjónagraut.“
Það er sárt að skrifa þessar línur og hugsa um allt sem við brölluðum saman en ég veit að það kemur að því að þessar minningar munu ylja mér um hjartarætur.
Þegar við vorum á spítalanum og þú varst umkringd besta fólki spítalans og verið var að dæla í þig alls kyns lyfjum þá sagðir þú við mig: „Þórunn, þakka þér fyrir allt.“ Elsku mamma mín, það var ekkert. Ég hef hugsað mikið um þessi orð og er þess fullviss að þú vissir í hvað stefndi. Ég veit að pabbi mun taka afar vel á móti þér og Gunnar bróðir verður nú ekki langt undan heldur, ásamt öllum hinum.
Elsku mamma mín, ég mun ávallt minnast þín og tala um þig og vitna í þig við börnin mín sem þér voru svo hugleikin en þú hafðir alltaf svo mikinn áhuga á því sem þau voru að gera.
Hvíldu í friði.
Þín,
Þórunn.
Þegar ég eltist þá urðum við alltaf nánari og nánari, ég treysti henni fyrir öllu og hún mér. Það var alltaf líka svo gott að koma til hennar, svo hlýtt og gaman að vera þarna með fjölskyldunni í matarboðum eða koma til hennar í hádeginu með subway, hún alveg dýrkaði það. Amma mín var líka fyndnasta kona sem ég þekki, þótt hún reyndi það ekki þá var hún samt stundum svo fyndin. Hún var líka mjög klár, ég kom oft til hennar með dönskuverkefnin mín og hún hafði svo sannarlega gaman af því þar sem hún var svo góð í dönsku. Hún söng líka oft fyrir mig á dönsku, ég man það eins og það hefði verið í gær. Ég á svo svakalega margar góðar minningar með henni sem ég er svo þakklát fyrir, ég vildi samt að ég ætti fleiri. Ég elskaði að gista hjá henni, við sátum alltaf og horfðum á uppáhaldsþáttinn okkar eða hún að kenna mér að prjóna eða bara spjalla saman. Síðan þegar ég fór að sofa fékk ég alltaf mjólk og te-kex með osti og smjöri og við sátum þar á meðan hún sagði mér sögur af því hvernig hún og afi kynntust eða af börnunum sínum, ég gat hlustað endalaust á hana og sagt henni leyndarmálin mín. Hún hjálpaði mér oft í vinamálunum mínum og gaf mér ráð. Ég vildi að hún hefði átt heima nær mér, þá hefði ég getað verið oftar hjá henni, átt fleiri minningar og haft fleiri sögur að segja frá henni. Hún var svo sannarlega fyrirmyndin mín, hún var duglegasta kona í heiminum.
Elsku amma, ég sakna þín óendanlega mikið.
Þín,
Erlín Ósk.