Á ýmsu hefur gengið hjá flugfélaginu Iceland Express á árinu. Forstjóraskipti hafa verið tíð, flugrekandi vélanna, Astraeus, lagði upp laupana og ýmsar uppákomur hafa ratað í fjölmiðla, ekki síst varðandi tafir á flugi. Víkverji var því býsna forvitinn þegar hann bókaði far hjá Iceland Express á dögunum.
Til að gera langa sögu stutta var Víkverji að langmestu leyti ánægður með þjónustu flugfélagsins. Fyrir það fyrsta fékk hann farið á hlægilegum kjörum, borgaði tæpar 13.000 krónur fyrir flug til einnar helstu borgar Evrópu – fram og til baka. Náði raunar að kaupa miða á sérstökum tilboðskjörum. Víkverji efast um að hægt sé að komast loftleiðis til Akureyrar fyrir minna fé.
Í annan stað stóðst áætlun nánast upp á mínútu. Nokkurra mínútna töf varð að vísu á brottför heim en það stafaði af því að þrír farþegar voru seinir fyrir. Þetta hafði engin áhrif og vélin lenti á tilsettum tíma.
Í þriðja lagi var þjónustan um borð hreint prýðileg. Flugfreyjur og -þjónar almennilegheitin uppmáluð en í áhöfn voru bæði Íslendingar og Tékkar en sem kunnugt er flýgur tékkneskt flugfélag, CSA Holidays, nú fyrir Iceland Express. Tékkarnir töluðu fína ensku.
Vélarnar, sem eru 180 sæta af Airbus 320-gerð, eru um margt ágætar. Þó verður Víkverji að gera athugasemd við þéttleika sætaraðanna, hann var með fæturna alveg skorðaða upp við næsta sæti fyrir framan – og er Víkverji þó bara meðalmaður á hæð. Þetta slapp en jaðraði við óþægindi. Það hlýtur að vera lífsins ómögulegt fyrir menn sem eru 1.90 metrar eða hærri að fljúga með Iceland Express.
Annað atriði sem Víkverji hafði ama af á ferðalagi sínu var röðin við innritun á flugvellinum ytra. Hann þurfti að bíða í góða klukkustund áður en röðin svo mikið sem bifaðist, eftir það tók innritun upp undir hálfa klukkustund. Það er alltof langur tími. Varla er þó við Iceland Express að sakast í þeim efnum.