Michael G. Wilson, framleiðandi næstu kvikmyndar um breska njósnarann James Bond, Skyfall, segir í viðtali í tímaritinu People að hún verði með töfrandi, sjöunda áratugar blæ og afar sérstök upplifun fyrir bíógesti. Leikstjóri myndarinnar, Sam Mendes, og aðalleikari, Daniel Craig, hafi við gerð hennar litið aftur til eldri Bond-mynda, þeirra sem Sean Connery lék í á sjöunda áratug síðustu aldar. „Ég held að áhorfendur vilji það,“ segir Wilson. „Það er töfrandi Goldfinger-keimur af þessu öllu. Þetta er mjög spennandi,“ segir hann og að hann sé fullur tilhlökkunar að sýna myndina. Þá vonast Wilson til þess að allir þeir leikarar sem farið hafa með hlutverk Bonds komi saman á næsta ári og fagni fimmtugsafmæli myndanna.
Skyfall verður frumsýnd 26. október á næsta ári.