Byrjar Lars Lagerbäck kemur til landsins strax þann 6. janúar.
Byrjar Lars Lagerbäck kemur til landsins strax þann 6. janúar. — Morgunblaðið/Ómar
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Lagerbäck kemur til landsins 6. janúar og verður hér á aðra viku.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Lagerbäck kemur til landsins 6. janúar og verður hér á aðra viku. Mér sýnist hann vera kominn með mjög þétt skipaða dagskrá svo það er ljóst að hann mun ekki sitja auðum höndum þennan tíma,“ sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, við Morgunblaðið í gær.

Svíinn Lars Lagerbäck, sem fyrir skömmu var ráðinn landsliðsþjálfari karla, hefur boðað æfingabúðir hjá landsliðinu dagana 12. til 14. janúar. Þær verða í Kórnum í Kópavogi og þar koma saman leikmenn af Norðurlöndum, frá liðum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

„Við erum búnir að senda félögunum á hinum Norðurlöndunum lista yfir þá leikmenn sem óskað er eftir í þessar æfingabúðir. Félögin ráða því hvort þau gefa þá lausa, en það er ekkert komið í gang hjá þeim á þessum tíma og fyrstu viðbrögð sem við höfum fengið eru jákvæð. Ég er því bjartsýnn á að við fáum flesta eða alla í þessar búðir,“ sagði Þórir.

Hitta þjálfara liðanna og fylgjast með leikjum

Hann sagði að þetta yrði mikið meira en venjulegar landsliðsæfingar. „Lars ætlar að nota tímann vel. Hann kemur hingað 6. janúar og ætlar ásamt Heimi Hallgrímssyni aðstoðarþjálfara að hitta þjálfara liðanna í efstu deildunum, fylgjast með leikjum og hitta allt starfsliðið í kringum landsliðið. Lækna, sjúkraþjálfara, nuddara og aðra sem koma að liðinu á einn eða annan hátt,“ sagði Þórir.

Ísland mætir Svartfjallalandi í vináttulandsleik í Podgorica 29. febrúar. Ekki er víst að það verði fyrsti leikur Lagerbäcks með liðið en möguleiki er á að annar leikur verði spilaður í sömu ferð og þá nokkrum dögum áður.

Norska liðið Lilleström sagði frá æfingabúðum Lagerbäcks á vef sínum í gær og þar var rætt við Svíann um þær. Fram kom að Stefán Logi Magnússon, Björn Bergmann Sigurðarson og Pálmi Rafn Pálmason, leikmenn Lilleström, eru allir boðaðir í æfingabúðirnar.