Það sló óhug á marga þegar þeir horfðu á bandarísku heimildarmyndina Matur hf. eða Food, inc. sem var sýnd í Sjónvarpinu í byrjun desember. Í myndinni eru matvælaframleiðslu stórfyrirtækja í Bandaríkjunum gerð skil, þar sem mest er lagt upp úr því að framleiða matinn með sem minnstum tilkostnaði og lítil áhersla lögð á aðbúnað dýra og öryggi neytenda. Matvælaframleiðslan er mjög ónáttúruleg og heilsuspillandi og framleiðendurnir bera það fyrir sig að kröfur neytandans kalli á þetta, þeir vilji fá ódýran mat fyrir ekkert. Ómanneskjuleg græðgi er þó líklegri ástæða.
Þegar horft er á slíka mynd er ekki annað hægt en að hugsa um íslenskan landbúnað og hvað hann er enn sem komið er blessunarlega langt frá þessu. Við þurfum samt að vera vel á verði, vakandi fyrir því í hvaða átt landbúnaðurinn stefnir.
Íslenskir bændur bera flestir mikla umhyggju fyrir skepnum sínum enda búin örsmá og persónuleg m.v. þau ósköp sem mátti sjá í þessari heimildarmynd. Þar sem nautgripir stóðu hundruðum saman í hnapp í forugum útihólfum og átu maís, grasbítar sem hafa örugglega aldrei um ævina smakkað gras. Bændur þurfa samt að gæta sín, vera á varðbergi um hvernig þeir umgangast náttúruna og skepnurnar því það er örugglega auðvelt að færast til ónáttúrunnar undir þeim formerkjum að vera að svara kalli neytenda með ódýrari vörur. En getum við heimtað að dýrin okkar búi við sómasamlegar og náttúrulegar aðstæður en um leið ekki verið tilbúin að borga fyrir matinn? Við eigum að gera miklar kröfur til aðbúnaðar og umhirðu og þá verðum við að vera tilbúin að borga aðeins meira. Holl matvæli eiga að vera sjálfsögð og við neytendur eigum að gera kröfur til þeirra en við getum ekki á sama tíma heimtað betra umhverfi fyrir kjúklingana um leið og við heimtum stærri bringur fyrir lægra verð. Það er borgað meira fyrir Benz en Opel, eins og einn góður maður sagði við mig um daginn þegar þessa umræðu bar á góma.
Viðhorfið er nefnilega stundum þannig að matur megi ekki kosta neitt, að það kosti ekkert að framleiða hann og vinna. Verðskynið þegar kemur að því sem við látum ofan í okkur virðist líka stundum brenglað. Fólk getur keypt kippurnar af óhollu og óþörfu gosi í hverri innkaupaferð og virðist ekki velta fyrir sér verðinu á því en um leið og það þarf að kaupa fiskflak, kartöflupoka eða lambalæri fer það að býsnast yfir því hvað varan er dýr. Það er samt miklu betra fyrir það og börnin að fá soðinn fisk með kartöflum í matinn en gosglas.
Það kostar að framleiða góð matvæli, Food, inc . sýndi það. En það á ekki aðeins að horfa á fyrsta skref matvælaframleiðslunnar, þ.e. bóndann, heldur líka vinnslustöðvarnar. Þær eiga líka að gæta þess að færa okkur holl matvæli úr því góða hráefni sem er framleitt hér í sveitum landsins. Að ofvinna, ofsykra og -salta er engin lausn á ferlinu frá haga til maga. ingveldur@mbl.is
Ingveldur Geirsdóttir