Gestur Stefánsson fæddist á Fossvöllum 20. desember 1934. Hann lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 5. desember 2011.

Útför Gests fór fram frá Fella- og Hólakirkju 15. desember 2011.

Gestur Stefánsson bróðir hennar móður minnar er látinn. Gestur frændi var mér mjög kær. Ég hef alltaf haldið því fram að frændi minn hafi smitað mig af „tæknisýki“ en hann var mikill tækjakarl. Ég var bara lítill pjakkur þegar tækjahorn Gests frænda í íbúðinni hans vakti áhuga minn. Þar voru talstöðvar í röðum sem hann ýmist var að rífa í sundur og laga og aðrar sem hann spjallaði við félagana í. „Hér kallar 2924“ kallaði hann hátt og skýrt en frændi minn var lengi meðlimur í FR-talstöðva klúbbnum í gamla daga.

Í gegnum klúbbinn kynntist hann mörgum vinum um allt land og oftar en ekki var Gestur fyrstur með fréttirnar þar sem hann var búinn að heyra í félögum sínum landshorna á milli.

Gestur gaf mér fyrstu CB-talstöðina sem ég eignaðist. Á sínum tíma var það eins og gull að fá svoleiðis grip. Hef notað þá stöð í þremur bílum sem ég hef átt og á án efa eftir að nota hana í fleiri bíla.

Sagan segir að hann hafi verið jafn ungur og ég þegar áhugi hans á tækjum og bílum kom í ljós. Sagan sem mamma hefur sagt okkur þegar þau bjuggu á Kirkjubæ í gamla daga og nýi traktorinn kom í hlaðið í trékassa er einstök. Traktorinn þurfti að setja saman og Gestur, ungur að árum, hætti ekki fyrr en traktorinn var samsettur og hann farinn að spóla á honum í snjónum.

Það var snilld að hlusta á Gest frænda minn segja sögur. Hann var aldrei með neitt bull, sagði bara söguna eins og fólk vildi heyra hana. Það var alveg sama hvaða sögu ég sagði við Gest, hann náði alltaf að toppa hana. Ég kunni alltaf að meta þær sögur sem hann sagði mér. Þær voru svo vel sagðar og voru svo krassandi að maður fór bara hjá sér, ekki möguleiki að toppa þær. Alltaf hreinn og beinn.

Gestur frændi minn hvíldu í friði, takk fyrir allar þær minningar sem þú gafst mér,

Þinn litli frændi,

Helgi Svanur.

Elsku afi minn.

Nú ertu fallinn frá og margar minningar koma upp sem voru geymdar en engan veginn gleymdar.

Það sem kemur fyrst og fremst upp er þegar þú ákvaðst að gefa barnabörnum þínum þennan fína fjarstýrða trukk og með fylgdi vagn til að festa aftan í hann. Ánægja mín af bílnum var þvílík að þú brostir út að eyrum en gólfið hjá okkur var þannig gert að ekki var hægt að nota hann almennilega þar sem hann gerði ekkert annað en að spóla svo hann endaði með að vera bara á hillu að safna ryki. Engu að síður er þetta fyrsta minningin sem kemur upp þótt þær hafi verið margar góðar.

Þú varst alltaf örlátur og vildir öllum vel og það sást þegar barnabörn þín voru yngri þar sem það var alltaf spennandi að fá að vita hvað maður fengi í afmælis- eða jólagjöf frá Gesti afa.

Jafnvel á páskunum komst þú með páskaegg og öfund vina var mjög mikil þar sem þú komst ávallt með svo stór páskaegg að maður var heila viku að klára eggið.

Fermingargjöfin er einnig mjög ofarlega í minni en þú ákvaðst að gefa GSM-síma í fermingargjöf. Var þetta fyrsti síminn sem ég fékk og mér fannst ég hafa verið að eignast milljón króna, slík var tilfinning fyrir að eignast GSM síma á þeim tíma.

Það var ávallt gaman á jólunum þegar þú komst í matarboð. Maður gat einhvern veginn alltaf hlustað á endalausar sögur þínar og maður fékk það á tilfinninguna oftar en ekki að þú hefðir mikið meira að segja heldur en tíminn gaf þér. Áhugi þinn á fótbolta leyndi sér ekki og kæmi varla á óvart að Arsenal-treyjan þín væri föst á þér ásamt Presley-bolnum sem þú virtist varla geta skilið við þig.

Þessi sérstaka rödd sem þú hafðir verður seint gleymd. Hún hafði náð að mótast gegnum árin út af öllum reykingunum en ávallt þekkti maður þessa skemmtilegu rödd þína hvar sem var.

Reykingarnar komu svo í bakið á þér undir rest þar sem þú veiktist og fórst upp á spítala. Þú talaðir fyrst um sinn um að nú væri góður tími til að hætta að reykja en það varð ekkert af því.

En svona varst þú bara. Komst til dyra eins og þú varst klæddur og vildir öllum vel. Þú varst elskaður af þínum börnum og barnabörnum og hefur eflaust vitað af því allan tímann þótt sjaldan hafi maður komið þeim orðum út úr sér til þín og nú þegar maður sest niður og ætlar að skrifa minningarræðu um þig dettur manni ekkert sniðugt að segja og tárast við hvert orð sem maður skrifar því upp koma miklu fleiri minningar.

Hvíldu í friði, minn elskulegi afi.

Þitt barnabarn.

Hafþór Gerhardt.