Rokklíf Keith á tónleikum með félögum sínum í Rolling Stones.
Rokklíf Keith á tónleikum með félögum sínum í Rolling Stones. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keith Richards ásamt James Fox. Elín Guðmundsdóttir þýddi. Útgefandi bókafélagið Ugla, 2011. 520 síður.

Hljómsveitin Rolling Stones þarfnast ekki kynningar og ljóst er að tvíeykið Keith Richards og Mick Jagger á engan sinn líka í dægurlagasmíðum ef frá eru taldir John Lennon og Paul McCartney. Það vakti mikla athygli þegar Richards gerði sögu sína og Rolling Stones upp á bók í fyrra. Frásögn Richards er afdráttarlaus og verður fyrir vikið hreinasta skemmtilesning, þótt ekki sé allt sem hann lýsir fallegt.

Hvassar lýsingar Richards á samskiptum sínum við Jagger vöktu sérstaka athygli fjömiðla þegar ævisagan Líf kom út. Upphafið var á brautarstöð í Dartford 1961 þegar Jagger gekk upp að Richards vegna þess að hann sá að hann var með plötu með Chuck Berry undir handleggnum. Báðir voru á kafi í ryþma- og blústónlist og þeir náðu strax saman. Í bréfi til frænku sinnar á þessum tíma segir Richards að „Mick [sé] besti R&B söngvari hérna megin Atlantshafsins og með því meina ég ekkert kannski“. En farsælu samstarfi við lagasmíðar fylgir spenna, sem magnast með árunum. Richards notar tilvitnun í eina af sameiginlegum vinkonum þeirra til að láta að því liggja að Jagger sé lítt vaxinn niður, sem varð til þess að fyrrverandi kona söngvarans sagði í viðtali við BBC að það væri alls ekki rétt.

Jagger fær það hvað eftir annað óþvegið, en í hvert skipti fylgir þó yfirlýsing um hvað Richards þyki þegar öllu er á botninn hvolft vænt um hann.

Seint í bókinni segir Richards: „Ég hafði alltaf ánægju af að umgangast Mick en ég hef ekki farið í búningsherbergið hans í um tuttugu ár, held ég. Stundum sakna ég vinar míns. Hvað í helvítinu varð af honum?“

Richards lýsir því hvernig Rolling Stones verða til í kringum blúsinn. Þegar hljómsveitin slær í gegn vaknar spurningin um svik við ræturnar, en skriðan var farin af stað og hnullungarnir urðu ekki stöðvaðir.

Bókin er full af skrautlegum persónum og undarlegum uppákomum, ómældu eitri, áfengi og sukki. Og tónlist. Og hann segist muna allt.

Richards passar sig að mæla ekki með eiturlyfjaneyslu, en lesandinn hefur á tilfinningunni að það sé rétt fyrir siðasakir: „Þrátt fyrir allar vondu hliðarnar – ég mæli ekki með því við neinn – getur heróín verið gagnlegt,“ skrifar hann í stórfróðlegri frásögn af tilurð Exile on Main Street , sem sumir kalla meistaraverk hljómsveitarinnar, á herragarði í Frakklandi.

Þýðing Elínar Guðmundsdóttur er til fyrirmyndar, hnökralaus og læsileg. Hreinskilni Richards er einn af kostum bókarinnar, en hann á það til að tala svo niður til samferðamanna sinna – þó einkum samferðakvenna – að það jaðrar við að vera ógeðfellt, en í heildina er Líf bráðskemmtileg og vel skrifuð lesning.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal