Birna Sigurðardóttir Amman fæddist 20. ágúst 1932 á Skagaströnd. Hún lést í San Diego Kaliforníu 5. desember 2011.
Foreldrar hennar voru Sigurður Finnbogason Júlíusson, f. 6. október 1888 á Þverá í Norðurárdal, d. 23. janúar 1980, og Guðbjörg Guðjónsdóttir, f. 7. október 1892, á Saurum á Nesjum, d. 5. desember 1965. Þau bjuggu í Kálfshamarsvík á Skaga og Skagaströnd og síðan á Akranesi. Systkini Birnu eru 1) Sigurbjörg, f. 1925, d. 1925, 2) Sigurbjörg Fjóla, f. 8.8. 1926, 3) Guðný, f. 7.7. 1927, 4) Hallgrímur, f. 14.7. 1931, d. 18.5. 2006, 5) Páll Gunnar, f. 30.6. 1936, 6) Sólveig Sigurðardóttir, f. 1928, d. 1928.
Birna var gift Delos Amman, börn þeirra eru 1) Smári, 2) Lisa, tengdasonur Karl, 3) Nora, 4) Albert, unnusta hans er Leslie.
Útför Birnu fór fram í San Diego í Kaliforníu 12. desember 2011.
Allar góðu minningarnar koma í stórum stíl þegar byrjað er að hugsa til baka. Elsku Birna frænkan mín í Ameríku. Allt í einu ert þú ekki lengur með okkur í þessu lífi og ekki fastur punktur í lífinu. Í fyrstu ferðinni okkar til þín, Birna mín, sem var rétt eftir 11. september þá komu Fjóla Lind og Halli bróðir þinn með. Það var skemmtilegt fyrir ykkur systkinin að hittast þó að Halli gæti ekki notið þess á sama hátt og við vegna blindu. Þær eru margar ferðirnar sem við Guðni erum búin að koma og dvelja hjá þér og ykkur Del, Lisu, Karli og Noru. Alla hjartahlýjuna sem þú hefur ætíð gefið okkur og öll ferðalögin í allar áttir, allt eru þetta dýrmætar minningar. Einnig hjálpin við að kaupa bílinn og þá var Ester tengdamamma mín með, þið voruð góðar vinkonur frá skólaárunum á Akranesi og voruð glaðar að hittast.
Ekki var síður að fá ykkur fjölskylduna til okkar til Íslands, hvort sem við vorum heima eða ferðuðumst um á gömlu rútunni og eignuðumst frábærar minningar. Í endurminningum mínum, þegar ég var líklega um fjögurra ára aldur, var alltaf mikil tilhlökkun þegar Binna frænka kom í heimsókn, hún vann á vellinum, þá eignaðist ég mína fyrstu og ótrúlega stóru dúkku sem ég skírði Binnu og tvær dúkkur síðar sem fengu sama nafn.
Þú varst búin að vinna í tíu ár hjá hernum á Keflavíkurflugvelli sem yfirmaður símstöðvarinnar, þar kynntist þú ástinni þinni honum Del, þið giftuð ykkur og fluttuð til Ameríku. Hvort okkar sem var, ég eða Guðni, þegar við hringdum fengum við sömu hlýjuna og hún sagði hvað hún hlakkaði til þegar við kæmum, herbergið okkar væri alltaf tilbúið sagði hún með spenningi.
Elsku Binna, í níu ár ert þú búin að berjast eins og sannur víkingur við krabbamein sem þér tókst að sigra tvisvar áður en yfir lauk. Þú varst ótrúleg og það eru forréttindi að hafa átt þig góða frænka. Ég veit að þú ert komin í sólríkan og bjartan heim á næsta tilverustigi þar sem hafa tekið á móti þér mamma þín og pabbi, Halli, Siggi Kári og fleiri og fleiri. Elsku Del, missir þinn er mikill, við vitum að þú ert búinn að missa helminginn af sjálfum þér. Og ykkar allra er missirinn mikill líka. Við viljum votta ykkur okkar dýpstu samúð elskurnar. Guð blessi ykkur öll og varðveiti.
Linda frænka og Guðni.