Ómar minn:
Í fyrsta lagi: Þú skrifar: „ Mikið liggur greinilega við að koma í veg fyrir að neitt verði verndað heldur verði allt virkjað. “
Þetta er rangt. Langflestir heimamenn vilja þveröfugt, þ.e. að allt það sem gert verði, hvort sem virkjað er eða verndað, verði gert í sátt og samlyndi við náttúru alls svæðisins og öllum til góða. Byggt og lært verði af reynslu fyrri ára.
Í öðru lagi: Þú skrifar: „Nú kann það að vera að þið teljið verðmætustu staðina vera þar sem á að gera borholur, stöðvarhús, gufuleiðslur, vegi og háspennulínur. “
Þetta er rangt. Það er slæmt þegar alhæft er á þennan hátt eins og þarna er skrifað. Bara annaðhvort eða. Þú vilt ekki hlusta á það sem sagt og skrifað hefur verið um það hvernig menn í héraði geta séð fyrir sér þetta svæði, nýtingu þess og verndun. Eru meiri vitringar í þessum málum fyrir sunnan?
Af hverju má ekki virkja annars óbeislaða orku til hagsbóta fyrir svæðið og Ísland í heild sinni ef slíkt er gert í sátt og samlyndi við náttúruna? Ofstopinn gegn slíkum áformum er svo mikill og einstrengingslegur að nær engu tali tekur.
Í þriðja lagi: Þú skrifar: „– muni verndun þessa svæðis og þeir möguleikar, sem það gefur, skapa meiri peningaverðmæti en virkjun þess, líkt og í Yellowstone í Bandaríkjunum.“! Nú skaltu lækka flugið svo um munar og halda þér í nokkur hundruð feta hæð. Gjástykki og svæðið í kring er eins og krækiber í Víti miðað við Yellowstone-þjóðgarðinn. Nokkrar staðreyndir: Yellowstone er 9000 km² (allt Reykjahlíðarland er ca. 5000 km², en þó 17x stærra en Grímsstaðir á Fjöllum sem eru 300 km²). Í Yellowstone eru 290 vatnsföll, 67 spendýrategundir og um 300 goshverir, 4000 manns í vinnu, 3,6 milljónir manna komu þangað 2010 o.s.frv. Er hægt að gera samanburð á þessu og Gjástykki? Ekki villa um fyrir fólki með þessum endalausa samanburði við Yellowstone, því hann er út í hött. Og líka annað sem skiptir líklega mjög miklu máli, þ.e. í Yellowstone eru 1000-3000 jarðskjálftar ári! Skyldi það vera ástæðan fyrir því að aldrei var nokkuð hróflað við því svæði? Kannaðu það fyrir okkur. Það kostar um 1.500 kr. fyrir einstakling að fara inn í Yellowstone. Ómar, um leið og þú færð það í gegn að hægt verði að setja eitthvað í áttina við jafnhátt aðgöngugjald samanlagt á allar náttúruperlur í Mývatnssveit, þá erum við að tala saman. Ef lögð er til slík gjaldtaka þá er talað um græðgi og gróða til handa landeigendum sem er alveg fráleitt. Fólk hugsar stundum þröngt en langstærsti hluti slíks gjalds færi til viðhalds, þjónustu við ferðamenn, auk launakostnaðar. Erlendir ferðamenn eiga að greiða fyrir að sjá náttúruperlur Íslands. Gjástykki og svæðið í kring á þó aldrei möguleika á að ná inn brotabroti af tekjum sem verða til vegna virkjunar sem hlaupa á milljörðum og þá á ég við á landsvísu. Það er staðreynd, sama hve margir ferðamenn kæmu á svæðið. Ekki bera Yellowstone og Gjástykki saman.
Í fjórða lagi: Þú skrifar: „Rök þín eru þau að aðgengi að náttúruperlum geti ekki orðið gott nema með því að byggja þar virkjanir eins og dæmin sanni hér á landi, – annars sé ekkert hægt að gera nema loka svæðunum svo að ferðamenn skemmi þau ekki. “
„Dásamleg rök: Umturna svæðunum fyrst með mannvirkjum svo að ferðamenn skemmi þau ekki! “
Hér tekur þú rangan pól í hæðina varðandi mín skrif og snýrð út úr, þú átt að vita miklu betur. Það er staðreynd að Kröfluvirkjun og ferðaþjónusta hafa unnið mjög vel saman á allan hátt, ekki snúa út úr því.
Varðandi lokun vegslóða þá höfum við hvorki fjármagn né mannskap til að leggja mannsæmandi veg norður í Gjástykki, slíkt hleypur á tugum milljóna og ekki borgar sá sem kemur til með að nota hann eða hefur þú orðið var við slíkt? Það hafa verið skipulagðar ferðir í Gjástykki á sérútbúnum bílum ásamt leiðsögumanni. Því miður duga ekki leiðbeiningarskilti enda ekki ætlast til þess að farið sé um svæðið nema fótgangandi. Er í lagi að menn vaði yfir svona varasaman hraunslóða eins og þarna er?
Og að lokum: Af hverju ertu að bera Hellisheiðarvirkjun saman við hugsanlega virkjun í Gjástykki? Það er eins og bera saman Gjástykki og Yellowstone, ekki satt? Annars vegar hugsanlega 45MW virkjun, samanborið við 340 MW virkjun á Hellisheiði!
Þér til upplýsingar, ef yfir höfuð verður virkjað í Gjástykki, þá verður sú virkjun (stöðvarhús o.fl.) ekki í nýrunnu Gjástykkishrauninu, ég hélt þú vissir það. Hún verður líklega langt vestur í mó vel vestan við nýja hraunið og ekki í ósvipuðu landslagi og Kröfluvirkjun er nú og því verður þetta afturkræft. Það er svo margt sem andstæðingar virkjunar halda fram varðandi þetta svæði og hugsanlega nýtingu þess án þess að hafa kynnt sér málið til hlítar og er það miður.
Og nú máttu taka aftur á loft í Frúnni, því það er heiðskírt, skyggni ágætt og líklega nær 30 stiga frost í Gjástykki!
Lýkur hér mínum skrifum að svo stöddu og óska ég þér gleðilegra jóla.
Höfundur er frkvstj. og er formaður Landeigenda Reykjahlíðar ehf.