Álfheiður Jónasdóttir fæddist á Geirseyri í Patreksfirði 22. nóvember 1931. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 5. desember 2011.
Útför Álfheiðar fór fram frá Ólafsfjarðarkirkju 17. desember 2011.
Elsku Abba, kæra vinkona, nú ert þú farin í ferðina miklu.
Ekki óraði mig fyrir því þegar ég hringdi í þig á 80 ára afmælinu þínu 22. nóvember síðastliðinn að þú myndir kveðja tveimur vikum seinna.
En svona er lífið. Mennirnir ákveða, en Guð einn ræður.
Ég minnist þín sem góðrar, hláturmildrar konu með mikla hjartahlýju, konu sem ekkert aumt mátti sjá, alltaf tilbúin að hjálpa öðrum.
Þú bjóst manni þínum og börnum fallegt og notalegt heimili. Þú varst sterkur persónuleiki og settir sterkan svip á bæinn okkar.
Börnin þrjú voru líf ykkar og yndi. Þú tókst virkan þátt í lífi og starfi barna þinna, t.d. þegar strákarnir tóku þátt í íþróttum, ekki síst í knattspyrnu, enda voru þeir annálaðir knattspyrnumenn og tóku þátt í því að gera Leiftur á sínum tíma eitt af bestu knattspyrnuliðum á Íslandi – tóku m.a. þátt í mörgum Evrópukeppnum fyrir Íslands hönd.
Einnig eru ógleymanlegar minningar frá þeim gömlu, góðu dögum þegar við hittumst með samherjum og vinum og tókum þátt í sameiginlegri gleði fyrir sigri góðs málefnis.
Þú hafðir sterkar og ákveðnar skoðanir og varst svo sannarlega óhrædd við að láta þær í ljós, og þar voruð þið hjónin samhent og sammála, eins og allt ykkar farsæla samlíf.
Fyrir nokkrum árum veiktist Jakob, maðurinn þinn, þurfti mikla aðhlynningu og þú annaðist hann heima eins lengi og þú gast. Þar kom að hann þurfti að fara á Hornbrekku, heimili okkar fyrir aldraða í Ólafsfirði, og þá heimsóttir þú hann á hverjum degi.
Abba mín, þín verður sárt saknað og þakka þér innilega fyrir allar góðu stundirnar.
Elsku Jakob, börn og fjölskyldur, megi Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.
Þín vinkona,
Sigrún S. Jónsdóttir.
Abba var annálaður dugnaðarforkur, skoðanaföst og fylgin sér í öllu sem hún tók sér fyrir hendur um ævina. En hún var jafnframt einstaklega hjartahlý og lét sér annt um og hafði áhyggjur af velferð og líðan annarra og gleymdi þá oft sjálfri sér og sínum veikindum. Það var aldrei neitt að henni, fannst henni sjálfri. Gott dæmi um þessa ósérhlífni er þegar ég var í afmæli hennar og Jakobs og var að bíða eftir að fara í uppskurð á Akureyri. Abba hafði alveg endalausar áhyggjur af því að ég væri þjáður og með sífelldar áhyggjur þess vegna, en var síðan sárþjáð sjálf af þeim sjúkdómi sem síðan dró hana til dauða. En það var ekkert að henni, var viðkvæðið, þó það sæist að hún var sárþjáð. Svona var hjartalagið og ósérhlífnin. Abba var mikil fjölskyldumanneskja og bjó Jakobi og börnum þeirra þeim Sigurbirni Hafsteini og Rut einstaklega myndarlegt heimili sem hún stýrði af rausn, alúð og myndarskap alla tíð. Missir þeirra allra er mikill. Ég sendi Jakobi frænda mínum og þeim frændsystkinum mínum, mökum þeirra og börnum mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Gísli Ólafsson.
Þegar við fjölskyldan komum í fjörðinn okkar fagra, þá var heimsókn til Öbbu og Jakobs að sjálfsögðu alltaf á dagskrá. Þangað var alltaf svo gott að koma og vel tekið á móti okkur. Abba talaði alltaf um börnin mín sem sín eigin ömmubörn og þau kölluðu hana ömmu Öbbu frænku. Það verður skrýtið að koma ekki við í Aðalgötunni þegar við komum í fjörðinn.
Abba hafði mikinn áhuga á íþróttum og hafði miklar skoðanir á sérstaklega fótbolta, enda voru strákarnir hennar tvær af hetjunum sem komu Leiftri á meðal þeirra bestu. Ég leit líka mikið upp til Hafsteins og Bjössa og fór líka í fótboltann eins og þeir, náði mér svo í fótboltamann og er íþróttakennari eins og Hafsteinn og Birgitta og það var Abba nú ánægð með. Stelpurnar mínar spila fótbolta með Víking í Reykjavík og mikið var Abba nú stolt af þeim og fylgdist vel með þeirra gengi í boltanum, en ánægðust var hún samt, þegar þær Ólöf og María spiluðu með Leiftri á Nikulásarmótinu sumarið 2010. Hún var svo glöð að sjá þær í Leiftursbúningnum og hvað liðinu gekk vel með þær innanborðs, ásamt Álfheiði nöfnu hennar sem spilaði í marki.
Abba lét sér annt um alla fjölskylduna og passaði ávallt að allir fengju pakka frá henni og Jakob. Það var líka gaman að gleðja hana og mest hafði hún gaman af því að fá myndir af börnunum í fjölskyldunni og gaman var að skoða myndavegginn hjá henni í Aðalgötunni, því þar voru margar myndir af fjölskyldu og vinum. Hún hafði líka eina mynd af afa Sigga uppi á hillu, en þau afi og Abba sem voru einu börn afa Jónasar og ömmu Ruthar voru mjög lík. Þegar við vorum unglingar þá var Ruth einu sinni með partý og Kiddi Bubba stóð lengi og horfði á myndina og spurði svo Ruth, hvers vegna mamma hennar væri í jakka og með bindi á myndinni. Þetta fannst okkur mjög fyndið og rifjum reglulega upp. En það var mikill svipur með þeim systkinunum. Ég er viss um það að afi Siggi og amma Hildur hafa tekið vel á móti henni Öbbu minni og líklega eru þau öll glöð yfir endurfundunum þarna uppi. Abba segir afa líklega frá öllum sem bæst hafa við fjölskylduna síðan hann féll frá og þeir eru nú margir. Elsku Jakob minn, Hafsteinn, Birgitta og strákarnir, Bjössi, Regína og María Rós, Ruth, Rúnar og krakkar. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar. Kossar og knús til ykkar allra frá okkur fjölskyldunni í Háagerði 87.
Anna Kristín
Gunnlaugsdóttir.