Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Kim Jong-un, sem á að taka við völdunum í Norður-Kóreu, er enn meiri ráðgáta en faðir hans, Kim Jong-Il, sem var annálaður fyrir pukur.
Lítið er vitað um arftakann, jafnvel aldur hans er á reiki. Talið er þó líklegast að hann hafi fæðst árið 1984 og sé því 27 ára gamall.
Kim Jong-un mun hafa gengið í skóla í Sviss, er sagður tala ensku og þýsku og hugsanlega hrafl í frönsku.
Svisslendingurinn Joao Micaelo segist hafa verið bekkjarbróðir Kims í Sviss á árunum 1998 til 2001. „Hann var venjulegur strákur eins og ég,“ hefur CNN -sjónvarpið eftir Micaelo. Hann segir að Kim, sem gekk þá undir nafninu Pak Un, hafi haft mikinn áhuga á kvikmyndum, tölvum og íþróttum, einkum körfubolta. Hermt er að Kim hafi haft sérstakar mætur á körfuboltahetjunni Michael Jordan, spennumyndaleikaranum Jean-Claude Van Damme og James Bond.
Þótt hann hefði enga reynslu af hermennsku var Kim gerður að fjögurra stjarna hershöfðingja fyrir rúmu ári til að búa hann undir að taka við völdunum eftir að faðir hans fékk heilablóðfall. Fjölmiðlar Norður-Kóreu birtu þá í fyrsta skipti myndir af honum fullorðnum og tóku að leggja grunninn að svipaðri persónudýrkun og hafði umlukið föður hans, „leiðtogann ástkæra“, og afa hans, „leiðtogann mikla“. Fjölmiðlarnir hafa hampað Kim Jong-un sem „arftakanum mikla“.
Móðir Kims, Ko Yong-hui, var kóresk en fæddist í Japan. Hún var dansari í tónlistar- og danshópi sem sýndi víða um heim en ekki er ljóst hvort hún var eiginkona Kims Jong-Ils eða hjákona. Hún mun hafa dáið úr brjóstakrabbameini árið 2004.
Elsti sonur Jong-Ils, Kim Jong-nam, var eitt sinn álitinn líklegur arftaki hans en féll í ónáð þegar hann var handtekinn á flugvelli í Japan með falsað vegabréf þegar hann hugðist skemmta sér í Disneylandi í Tókýó.
Næstelsti sonurinn, Kim Jong-chol, þótti einnig koma til greina í leiðtogastólinn en hermt er að Jong-Il hafi álitið hann of „kvenlegan“ og ekki til þess fallinn að stjórna landinu.
Kippir í kynið
Jong-un er talinn líklegur til að verða harðstjóri eins og faðirinn. „Hann er spónn af gamla meiðinum, nauðalíkur föður sínum hvað útlit, líkamslögun og persónuleika áhrærir,“ sagði Kenji Fujimoto, sem var sushi-sérfræðingur Kims Jong-Ils.„Vitað er að Jong-un er efni í sterkan og miskunnarlausan leiðtoga. Hann er stjórnsamur maður,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Cheong Seong-Chang, suðurkóreskum sérfræðingi í málefnum Norður-Kóreu.
Nokkrir fréttaskýrendur telja að liðið geti nokkur ár þar til Jong-un verði eins valdamikill og faðir hans og afi, einkum vegna ungs aldurs hans og reynsluleysis. Talið er líklegt að föðursystir hans, Kim Kyong-Hui og eiginmaður hennar verði stoð hans og stytta fyrstu árin.
SAGÐUR HAFA GENGIST UNDIR LÝTAAÐGERÐ