Uppgripin sem fylgdu síldarárunum á Norðurlandi hafa orðið mörgum höfundum efniviður. Hver þeirra hefur nálgast söguna frá sínum kögunarhól og tekist misjafnlega upp. Jóni Hjartarsyni lukkast þetta betur en mörgum öðrum. Í nýrri bók, Veislan í norðri , segir hann frá þeim sex sumrum sem hann var sem ungur maður í síld á Raufarhöfn; uppgripastað við ysta haf.
Textinn í bókinni líður þægilega áfram. Höfundur lýsir menningu á Raufarhöfn á síldarsumrum og því hvernig vinnan hafði forgang í öllu.
„Starfið mótar manneskjuna og þeim mun frekar sem það er átakameira og einhæfara,“ segir höfundur á einum stað. Hann greinir líka frá ýmsu kynlegu fólki sem varð á vegi hans á Raufarhöfn og víst er að lífið hafði ekki farið sérlega blíðum höndum um sumt af því. Frá því – og mörgu fleiru – segir höfundur snoturlega.
Í niðurlagskafla bókarinnar veltir höfundur upp skemmtilegum spurningum um stífa sókn í auðlindir náttúrunnar og hvernig reynt hefur verið í umræðunni að halda í gullgrafarastemningu síldaráranna með ýmsu móti.
„Er ekki kominn tíminn til að staldra við, hægja ferðina og læra af því sem á undan er gengið,“ segir höfundur og vísar greinilega til hrunsins og fleiri þátta. Þetta eru fínar pælingar; spurningar sem ekki hefur verið velt upp áður í þessu samhengi.
Að þessu leyti hefur bókin mikla undirliggjandi meiningu. Henni hefði höfundur þó komið enn betur til skila með yddaðri stíl og meiri gagnrýni á eigin texta. Sömuleiðis hefði verið akkur í því að fá samandregið í töflum eða stuttum millikafla beinharðar staðreyndir um síldarútveg á Raufarhöfn. Þá hefði frísklegra umbrot og fleiri myndir ekki sakað – þó svo bókin, eins og hún er, standi vel fyrir sínu.
Sigurður Bogi Sævarsson