Snjóbrettaíþróttin hefur sótt á hér á landi síðastliðin ár. Brettafélag Íslands heldur utan um snjóbrettaiðkun hér á landi og berst meðal annars fyrir enn betri aðstöðu á skíðasvæðum landsins. Nauðsynlegt er að pallar og handrið séu til staðar til að snjóbrettaíþróttin fái að þróast þó að stökk séu ekki endilega aðalmálið.
María Ólafsdóttir
maria@mbl.is
Brettafélag Íslands hefur nú verið starfrækt í ein 11 ár. Það var stofnað til að halda utan um snjóbrettamenninguna á Íslandi og vinna að því í samstarfi við skíðasvæðin að koma upp betri aðstöðu. Þetta segir Linda Björk Sumarliðadóttir, formaður félagsins, hafa gengið ágætlega. Þróunin sé hæg og bítandi í rétta átt en síðustu ár hafa snjóbretti átt miklum vinsældum að fagna hérlendis.
Breyting í skíðaheiminum
„Svo virðist sem fleiri fari dags daglega á bretti en þeir sem kippi skíðunum úr bílskúrnum fari aðeins sjaldnar og þá kannski um páska og í öðrum fríum. Síðustu tölur sýndu að hérlendis væru 70% fólks á snjóbretti. Það er ákveðinn kjarni í brettasportinu hér sem er eins og ein lítil fjölskylda. Flestir í hópnum eru líka á hjólabretti og jafnvel brimbretti líka en annars er allur gangur á því,“ segir Linda Björk. Hún hefur sjálf stundað snjóbrettaíþróttina í rúm tíu ár en hafði áður notað skíðin. Hún segir að brettið sé fjölbreyttara þó að skíðaíþróttin sé að breytast núna eftir að freestyle-skíðin hafi komið á markað.„Menningin í skíðunum er að breytast núna en á sínum tíma þegar ég var að byrja fannst mér brettið miklu fjölbreyttara og hentaði mér betur. Að læra að sviga er ekki mjög erfitt en annað þarfnast aðeins meiri þjálfunar. Maður datt helling fyrstu dagana og var illt í rófubeininu. En það gerist jú líka á skíðunum,“ segir Linda Björk.
Stelpurnar aðeins feimnari
Innan Brettafélags Íslands er líka rekið sérstakt Stelpubrettafélag. En það er aðallega ætlað til að styrkja stelpur í íþróttinni.„Stelpur eiga það til að vera aðeins feimnari að prófa. Þetta félag er því bara ætlað til að stelpurnar fái öðru hvoru aðstöðu til að prófa og kynnast öðrum stelpum sem eru á svipuðum stað. Planið er að gera meira úr þessu félagi í vetur. Í fyrra kenndum við stelpum t.d. að vaxa bretti en stefnan er að fara aðeins lengra með þetta,“ segir Linda Björk.
Stökkin engin nauðsyn
Linda Björk segir flesta prófa aðeins að stökkva á snjóbrettunum þó að það sé engin nauðsyn. Stór hópur atvinnusnjóbrettamanna séu bestir í „freeride“. En þá er aðalsportið að fara upp á há fjöll, renna sér niður og „finna púðrið“.„Aðstaðan hér er öll að koma til en það sem við erum að reyna að fá upp í fjöll er freestyle park. Það er að segja pallar og handrið sem henta freestyle-skíðafólki líka. Slík aðstaða er nauðsynleg í dag til að snjóbrettaíþróttin fái að þróast hér eins og hún er að gera í öðrum löndum,“ segir Linda Björk. Hún gerir lítið úr tali um snjóskort hérlendis. Þó lítill snjór sé á höfuðborgarsvæðinu þurfi oft ekki að fara langt til að komast í snjó. Fyrir tveimur árum hafi hún til að mynda byrjað að renna sér í október og hætt í júlí. Þá fór hún á Akureyri, Siglufjörð, Kellingafjöll og Snæfellsjökul. Í raun hafi hún elt snjóinn og haft gaman að því að skoða landið í leiðinni.
Margir viðburðir framundan
Nóg er um að vera næstu mánuði hjá Brettafélagi Íslands. En vert er að benda á að í ferðir félagsins geta stelpur og strákar á öllum aldri mætt. „Við reynum þá að passa að þeir yngri læri af þeim eldri og öfugt,“ segir Linda Björk.Í janúar verður viðburður í Bláfjöllum og stór viðburður á Siglufirði í febrúar þar sem heil helgi verður tekin frá fyrir snjóbretti. Þá aðstoða margir úr félaginu við undirbúning AK Extreme mótsins sem er stórt sýningarmót á Akureyri í apríl.
„Það hefur gefið okkur byr undir báða vængi að fá snjó svona snemma og við finnum mikinn áhuga á snjóbrettaíþróttinni hjá skíðasvæðunum,“ segir Linda Björk.
ALÞJÓÐLEGUR SNJÓBRETTADAGUR
Mikið fjör á Arnarhóli
Alþjóðlegum snjóbrettadegi var fagnað með snjóbretta-„session“ á Arnarhóli í gær. En dagurinn er haldinn víða um heim til að efla samstöðu í íþrótinni. Var vel mætt á hólinn og góð stemning.„Þetta gekk nú bara nokkuð vel og allir höfðu gaman af þessu. Þarna var aðallega fólk sem búið er að stunda íþróttina í einhvern tíma og þátttakendur voru frá níu ára upp í rúmlega þrítugt. Það var fínt að hefja viðburðaríkan vetur með þessum viðburði,“ segir Ingólfur Már Olsen, varaformaður Brettafélags Íslands. Keppt var í JAM session formi og bar Viktor Franz Jónsson sigur úr býtum í flokki eldri en 16 ára og Aron Snær Kristjánsson í yngri flokki.