Eins og flestir vita glíma Grikkir við mikil fjárhagsvandræði og mörg af grísku knattspyrnuliðunum hafa ekki farið varhluta af því. AEK er eitt þeirra. Þrír Íslendingar eru á mála hjá félaginu. Arnar Grétarsson sem yfirmaður knattspyrnumála og þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Elfar Freyr Helgason sem leikmenn.
Jólaveinninn heimsótti ekki AEK því mikill meirihluti leikmanna liðsins greiddi því atkvæði að hunsa jólagleði sem átti að halda í gær.
Leikmennirnir voru með þessu að mótmæla þar sem félagið hefur ekki staðið skil á launum.
Í síðustu viku voru greiddar út 200 þúsund evrur, 32 milljónir íslenskra króna, til leikmanna af stjórnendum og hluthöfum félagsins en sú greiðsla var aðeins dropi í hafið því leikmenn eiga samtals inni laun sem nema 5 milljónum evra en sú upphæð er jafnvirði 800 milljóna króna.
Arnar Grétarsson og kollegar hans í stjórnunarstöðum félagsins hafa reynt að laða fjárfesta að félaginu og hafa meðal annars leitað til Tyrklands og til Arabalanda til að fá menn til að leggja pening inn í félagið eða kaupa það.
AEK tapaði í fyrrakvöld fyrir Atromitos, 1:0, og er í þriðja sæti í grísku deildinni. gummih@mbl.is