Jólahryllingur Frá tökum stuttmyndarinnar í verslun Sævars Karls við Bankastræti í desember í fyrra. Mundi einbeittur fyrir framan skjá.
Jólahryllingur Frá tökum stuttmyndarinnar í verslun Sævars Karls við Bankastræti í desember í fyrra. Mundi einbeittur fyrir framan skjá. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Fatahönnuðurinn og leikstjórinn Guðmundur Hallgrímsson, nefndur Mundi vondi, frumsýnir nýjustu stuttmynd sína í Gamla bíói á fimmtudaginn, 22. desember, klukkan 20.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Fatahönnuðurinn og leikstjórinn Guðmundur Hallgrímsson, nefndur Mundi vondi, frumsýnir nýjustu stuttmynd sína í Gamla bíói á fimmtudaginn, 22. desember, klukkan 20. Myndin er um tíu mínútur að lengd, ber nafnið Óttalegir jólasveinar og fjallar um morðglaða vandræðagemlinga sem leika lausum hala í höfuðborginni. Tökur myndarinnar fóru fram í desembermánuði síðasta árs víðsvegar um borgina og má þar m.a. nefna í húsakynnum fyrrverandi fataverslunar Sævars Karls við Bankastræti og á Hótel Borg. Kvikmyndin er framleidd af Zetafilm og kostuð af Íslenska kvikmyndafélaginu.

Guðmundur sem er vel þekktur fyrir fatahönnun sína og -merki, Mundi design, hefur áður leikstýrt stuttmynd en þá var um að ræða kvikmyndina Rabbit Hole sem sýnd var í Bíó Paradís á sínum tíma. Hann segir þær hönnunar- og listgreinar sem hann hefur sinnt í gegnum árin, fatahönnun og grafísk hönnun ásamt kvikmyndagerð og myndlist, eiga einkar vel saman. „Þegar maður er kominn með þetta allt í mix, fer þetta einhvern veginn að bragðast betur,“ segir hann.

Lifandi tónar

Segja má að tónlist og leikræn tjáning leikenda skipti meira máli í myndinni en mælt orð en með aðalhlutverk fara myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson, sem auk Guðmundar er handritshöfundur, og Atli Óskar Fjalarsson, sem einnig fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Órói .

„Þetta er í rauninni gert eins og þögul mynd þar sem samtölin skipta ekki jafn miklu máli og innihaldið,“ segir Guðmundur og bendir á að slagverkshljóðfæraleikarar, sem m.a. annars starfa á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, leiki ásamt liðsmönnum strengjasveitar við sýningu myndarinnar.

„Jólaviðburður ársins“

„Þetta er náttúrlega svona þriller en það er ekkert óvenjulega mikið ofbeldi,“ segir Guðmundur aðspurður við hverju áhorfendur megi búast. Segir hann jafnframt almennt skorta ákveðið magn ofbeldis í jólamyndum án þess þó að hann mæli beinlínis fyrir því.

„Þetta verður mikill viðburður, það verður jóladjassband að spila í móttökunni og boðið upp á piparkökur og kakó,“ segir Guðmundur og bætir við að frumsýning myndarinnar verði jólaviðburður ársins.

Guðmundur, sem kveðst hvergi hættur, segist vera með stórar hugmyndir í gangi svo ljóst er að búast má við fleiri áhugaverðum verkum eftir hann í náinni framtíð.

MUNDI DESIGN

Fór snemma í listnám

Guðmundur Hallgrímsson hóf nám við Listaháskóla Íslands átján ára gamall og hefur fatahönnun og -merki hans, Mundi design, vakið að undanförnu verðskuldaða athygli víðsvegar um heim.

Hefur Guðmundur m.a. tekið þátt í fjölmörgum listsýningum og viðburðum í hinum ýmsu löndum við góðar undirtektir.

Vert er að nefna að fatnaður hans fæst í versluninni Mundi's Boutique á Laugavegi.