Tvær konur slösuðust þegar farþegabát á Skjálfandaflóa var siglt á of miklum hraða miðað við aðstæður. Það er niðurstaða skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa um slysið.

Tvær konur slösuðust þegar farþegabát á Skjálfandaflóa var siglt á of miklum hraða miðað við aðstæður. Það er niðurstaða skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa um slysið.

Harðbotna slöngubátur, Amma Sigga, var í skemmtiferð með þrettán farþega á Skjálfandaflóa í júlí í sumar. Þegar snúið var til baka og siglt upp í undirölduna reið báturinn fram af öldum á mikilli ferð og skall niður á næstu öldu með þeim afleiðingum að tveir farþegar slösuðust í baki.

Konurnar sem slösuðust voru framarlega í bátnum. Virðast leiðbeiningar áhafnar um hvernig farþegar ættu að hegða sér á siglingunni ekki hafa náð til þeirra.

Önnur konan lýsir því fyrir rannsóknarnefndinni að þegar báturinn reið fram af tveimur öldum hafi fæturnir ekki getað borið höggin sem fylgdu og hún fundið til sársauka í baki. Á þriðju báru hafi hún fundið að eitthvað brast í bakinu þegar hún hlammaðist niður í sætið. Hún reyndist vera með samfallsbrot á tveimur hryggjarliðum og samfall á þeim þriðja.

Hin konan lýsir því að hún hafi fundið mikið til í baki á seinustu öldunni sem báturinn barði í.