Baksvið
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Aðstaða á Keflavíkurflugvelli verður bætt með nýjum útistæðum, inngöngum og biðsölum til að bregðast við aukinni umferð um völlinn næsta sumar, en um tvær milljónir farþega fara um völlinn árlega og er spáð mikilli farþegafjölgun á næstu árum.
Talsmenn Icelandair hafa sagt að Keflavíkurflugvöllur ráði ekki við meiri vöxt nema eitthvað sé að gert. Friðþór Eydal, talsmaður Isavia sem annast rekstur Keflavíkurflugvallar, segir að stefnt sé að því að nota tvö flugvélastæði á flugstöðvarsvæðinu, sem notuð séu til afgreiðslu á flutningaflugvélum, einnig fyrir farþegaflug og verði þá alls 16 stæði í notkun við flugstöðina, en hægt sé að fjölga útisvæðum enn frekar þegar til lengri tíma sé litið.
Rútum verður fjölgað
Gerðir verði nýir inngangar á flugstöðvarbygginguna ásamt tilheyrandi biðsölum til afgreiðslu flugfarþega sem fluttir verða með rútum til og frá útistæðunum.Núna eru 11 afgreiðslustæði með tengibrúm og þrjú útistæði og eru allar flugvélar afgreiddar án þess að koma þurfi til biðar eftir afgreiðslu við flugstöð. Friðþór segir að núverandi flugstöðvarmannvirki geti annað 3,5 milljónum farþega á ári með rétt dreifðri notkun yfir daginn. Hins vegar kjósi flestir flugrekendur að fá afgreiðslu á sama tímabili snemma að morgni og síðdegis en einnig sé nokkuð um áætlunar- og leiguflug um miðnættið á sumrin.
„Þetta skapar mikið ójafnvægi í nýtingu mannvirkjanna og leiddi til þess að taka varð upp úthlutun fastra afgreiðslutíma við flugstöðina,“ segir hann. Með aukinni umferð aukist álagið á ofangreindum tveimur álagstímum enn frekar og nærtækasta lausnin sé sú að dreifa álaginu út fyrir mesta annatímann en takist það ekki verði að grípa til annarra ráðstafana. Gerð fleiri flugvélastæða við flugstöðina og viðeigandi afgreiðslumannvirkja sé afar kostnaðarsöm og tryggt verði að vera að um viðvarandi umferðaraukningu sé að ræða áður er gripið verði til þess ráðs.
FYRIRHUGAÐAR UMBÆTUR Á KEFLAVÍKURFLUGVELLITI
Stækkun er tímafrek
Ljóst er að stækkun flugvallarmannvirkja er flókið og tímafrekt verkefni sem taki a.m.k. tvö til þrjú ár að hrinda í framkvæmd, að sögn Friðþórs Eydal.Ekki sé nóg að fjölga flugvélastæðum heldur verði jafnhliða að auka alla afkastagetu við flugafgreiðslu í flugstöðinni svo sem innritun og öryggisskimun farþega, flokkun og öryggisskimun farangurs, o.m.fl. sem þarfnast aukins húsrýmis og tækjabúnaðar.