Í Kaplakrika
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Það eru Haukar sem gengið geta hnarrreistir um götur Hafnarfjarðar, vopnaðir grobbréttinum góða, nú þegar jóla- og Evrópumótsfrí tekur við í N1-deild karla í handknattleik eftir fimm marka sigur í höfuðvígi erkióvinarins, FH, í gærkvöldi. FH-ingar geta reyndar verið stoltir sem ríkjandi Íslandsmeistarar, og kannski ná þeir fram ákveðnum hefndum í deildabikarnum milli jóla og nýárs, en stigin fimm sem Haukar hafa nú í forskot á toppi deildarinnar eru skotheld rök fyrir því að þeir séu aðalliðið í Firðinum, og einfaldlega besta lið landsins í dag.
Fortíðarbragur fyrir hlé
Jólaandinn fékk smáfrí í Kaplakrikanum í gær og loftið var spennuþrungið þegar flautað var til leiks með hátt í 3000 áhorfendur á pöllunum. Eitthvað virðist spennan hafa farið illa í leikmenn því í fyrri hálfleiknum var eins og harpixi hefði verið skipt út fyrir úrvals sleipiefni. Hver sendingin á eftir annarri reyndist misheppnuð og hraðaupphlaupin sem slíkt hefði átt að valda gengu heldur ekki upp. Staðan í hálfleik var enda afturhvarf til gamalla tíma, 8:7. Seinni hálfleikurinn var svipaður hjá FH-ingum en á lokamínútunum sigldu Haukar fram úr, lokuðu vörninni betur auk þess sem Aron Rafn Eðvarðsson komst í mikinn ham í markinu, og sáu til þess að það yrðu rauð jól í Hafnarfirði í ár með sex mörkum í röð.
Freyr var afar pirrandi
Það er í raun stórskrýtið að besta lið landsins skuli aðeins skora sjö mörk í heilum hálfleik. Það er minna skrýtið þegar horft er til þess í hvílíku formi markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson hefur verið undanfarið og hann varði hreint stórkostlega í leiknum, þar af þrettán skot í fyrri hálfleiknum. Ég myndi ekki lá Daníel það að hafa hugsað samherjum sínum þegjandi þörfina þegar hann lagðist á koddann í gærkvöldi, fyrir að láta slíka heimsklassaframmistöðu fara til spillis. Frammistöðu sem myndi réttlæta sæti í 28 manna landsliðshóp sem Daníel komst þó ekki í.Vörn og markvarsla hefur skilað Haukum öllum að óvörum í efsta sæti deildarinnar, og var það sem skóp sigurinn í gær. Freyr Brynjarsson fór fyrir vörninni með frábærum leik og maður gat nánast séð pirringinn leka af sóknarmönnum FH yfir því að hann gæfi þeim engan frið. Gylfi Gylfason átti enn einu sinni stórgóðan leik, hvort sem var í horninu eða skyttustöðunni, og skoraði átta mörk.
Ég held að enginn hafi búist sérstaklega við því að Haukar yrðu efstir um jólin, og hvað þá að þeir hefðu þar fimm stiga forskot, en náðargáfa Arons Kristjánssonar hefur breytt miðlungsliði í besta lið landsins á skömmum tíma. Nú bíður hins vegar það verkefni að halda mönnum við efnið svo ekki verði breyting á þegar keppni hefst að nýju í febrúar. Haukar hafa tapað tveimur leikjum á leiktíðinni, báðum með eins marks mun, en unnið tíu og gera svo sannarlega tilkall til allra titla í vetur. Sá fyrsti er í boði milli jóla og nýárs.
Íslandsmeistarar FH þurfa að treysta mikið á Ólaf Gústafsson í sínum sóknarleik og hann stóð vel fyrir sínu í fyrri hálfleiknum. Hægra megin vantar sárlega meiri ógnun nú þegar Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson þarf að gera sér að góðu að fylgjast með af áhorfendapöllunum vegna meiðsla. Hann ætti að mæta til leiks eftir hléið og það gæti skipt sköpum fyrir FH-inga sem eru í 2. sæti deildarinnar vegna innbyrðis viðureigna við HK-inga.
FH – Haukar 16:21
Kaplakriki, úrvalsdeild karla, N1 deildin, mánudaginn 19. desember 2011.Gangur leiksins : 0:2, 4:4, 7:5, 8:7 , 10:7, 11:10, 13:13, 15:15, 15:21, 16:21 .
Mörk FH : Ólafur Gústafsson 7, Örn Ingi Bjarkason 3, Sigurður Ágústsson 2, Baldvin Þorsteinsson 2, Andri Berg Haraldsson 2.
Varin skot : Daníel Freyr Andrésson 23/1 (þar af 4 til mótherja).
Utan vallar : 8 mínútur.
Mörk Hauka : Gylfi Gylfason 8, Freyr Brynjarsson 4, Sveinn Þorgeirsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Nemanja Malovic 1, Heimir Óli Heimisson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Árni Steinn Steinþórsson 1.
Varin skot : Aron Rafn Eðvarðsson 12/1 (þar af 1 til mótherja), Birkir Ívar Guðmundsson 1.
Utan vallar : 10 mínútur.
Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson.
Áhorfendur : 2.634.