Dauði Kim Jong-Il vekur vonir, en veldur einnig hættulegri óvissu

Þeir gætu tæpast verið ólíkari, leiðtogarnir tveir sem féllu frá um helgina. Annar þeirra stóð utan við stjórnkerfi kommúnismans í landi sínu og tók þátt í að fella það. Hinn fæddist inn í valdakerfi kommúnismans og hjálpaði til við að viðhalda því. Annar barðist fyrir mannréttindum og gegn kúgun, hinn stóð fyrir ólýsanlegum mannréttindabrotum og kúgun sem á fáa ef nokkra sína líka. Annar lagði sjálfan sig í mikla hættu við að brjóta niður hið mannskæða valdakerfi kommúnismans, hinn olli dauða milljóna landa sinna til að tryggja völd sín. Hæpið er að nefna þessa tvo menn í sömu andrá, en samanburðurinn við Václav Havel, fyrrverandi forseta Tékkóslóvakíu og Tékklands, varpar enn skýrara ljósi á þann hrylling sem Kim Jong-Il, leiðtogi Norður-Kóreu, hélt gangandi þar í landi.

Núverandi hörmungar íbúa Norður-Kóreu hófust um miðja síðustu öld með harðstjórn og einangrun föður Kim Jong-Il, hins alræmda Kim Il-Sung, sem sonurinn útnefndi eilífðarforseta þegar hann lést árið 1994.

Fyrir þá sem standa utan Norður-Kóreu voru viðbrögð almennings þar í landi við dauða Kim Il-Sung óskiljanleg, en þeim er ágætlega lýst í bókinni Engan þarf að öfunda, eftir Barböru Demick sem kom út fyrr á þessu ári í íslenskri þýðingu og veitir einstaka innsýn í þetta lokaðasta ríki veraldar. Þrátt fyrir kúgunina, eða ef til vill frekar vegna hennar, var fólk harmi slegið og þyrptist út á götur og að minnisvörðum um leiðtogann til að votta honum virðingu. Sumum var missirinn bókstaflega um megn, en aðrir sáu vissulega í gegnum þetta, en þorðu þó ekki annað en taka þátt í leikritinu, enda er óttinn helsta stjórntækið í Norður-Kóreu.

Óvíst er hver viðbrögðin verða núna eða hversu lengi sorgarástand mun ríkja í landinu, en stjórnvöld munu án efa nýta tækifærið til að reyna að þjappa þjóðinni saman. Engin leið er að vita hvað landsmenn eru að hugsa eða hvort jarðvegur er farinn að myndast fyrir stjórnarskipti og breytt stjórnarfar. Eftir ríflega sex áratuga heilaþvott ósanninda, einangrunar og ofbeldis gegn íbúunum er útilokað að segja til um hvað er að gerjast innra með þeim. Þeir gæta sín vissulega vel að gefa ekkert upp um hugsanir sínar séu þær stjórnvöldum ekki þóknanlegar, enda þýðir það fangelsisvist við ömurlegustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér, eða þaðan af verra.

Þó má binda ákveðnar vonir við að dauði Kim Jong-Il verði upphafið að endinum hjá kommúnistunum í Norður-Kóreu og að arftaki hans, sonurinn Kim Jong-un, sem talið er að sé um 28 ára gamall, látist ekki í hárri elli í leiðtogasætinu. Í fyrrnefndri bók eru ákveðnar vísbendingar um að upplýsingar um umheiminn séu farnar að síast meira inn í landið en áður var og ný tækni gerir stjórnvöldum erfiðara að halda upplýsingum frá almenningi, þó að þau gæti þess vandlega að fólk hafi ekki aðgang að veraldarvefnum og reyni að tryggja að það hlusti aðeins á ríkisútvarp og ríkissjónvarp Norður-Kóreu.

En þó að fráfall harðstjórans gefi von, líkt og oftast er þegar slíkir falla frá, veldur það líka óvissu og óvissa um stjórn ríkis sem býr yfir kjarnorkuvopnum og hefur á að skipa ofvöxnum herafla er ekkert fagnaðarefni fyrir heimsbyggðina. Markaðir eru almennt ekki spenntir fyrir harðstjórum en, til skamms tíma litið að minnsta kosti, hafa þeir enn minni áhuga á óvissu af þessu tagi. Þetta sást vel í rauðum tölum helstu markaða Asíu í gærmorgun.

Ein ástæða óvissunnar nú er að Kim Jong-un hefur mun veikari stöðu í norðurkóreska stjórnkerfinu en faðir hans hafði þegar hann tók við. Hvort honum tekst engu að síður að treysta sig í sessi og viðhalda veldi Kim-ættarinnar og kommúnismans í Norður-Kóreu á eftir að koma í ljós. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvílík gæfa það væri fyrir íbúa Norður-Kóreu, nágrannaríkin og heiminn allan ef fráfall Kim Jong-Il markaði upphafið að endalokum einnar verstu harðstjórnar sögunnar.