Halldór Blöndal
Halldór Blöndal
Eftir Halldór Blöndal: "Samkvæmt 29. gr. stjórnarskrárinnar er það einungis á valdi Alþingis að draga ákæru fyrir landsdóm til baka."

Á föstudag sá ég í Kastljósi að þeir ræddust við alþingismennirnir Bjarni Benediktsson og Magnús Orri Schram um þá þingsályktunartillögu Bjarna að ákæran á hendur Geir H. Haarde skyldi felld niður. Við þetta tækifæri sagði Magnús Orri ýmislegt sem ég sé ástæðu til að gera athugasemd við:

Hann hafði uppi efasemdir um hvort þingsályktunartillaga Bjarna væri þingtæk og að það gæti tekið sinn tíma að komast að niðurstöðu. Og síðan orðrétt „ef skrifstofa Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að málið sé þingtækt þá eigum við bara að gera það og taka málið fyrir í janúar“. Auðvitað ákveður forseti Alþingis en ekki skrifstofa Alþingis hvort mál séu þingtæk eða ekki, með þeim fyrirvara þó að þingið getur hnekkt hans úrskurði. Þegar ég var forseti Alþingis átti ég það til að hringja í Þorvald Garðar Kristjánsson og spyrja hann álits. Við höfðum ávallt sama skilning á ákvæðum þingskapa. Mér þótti einnig gott að fá álit skrifstofustjóra Alþingis og fyrri forseta. En að síðustu varð úrskurðurinn minn og honum var aldrei hnekkt. En fordæmin eru góð.

Ég rifja upp úrskurð Þorvalds Garðars frá 15. nóvember 1983. Þá vísaði hann frá tillögu frá þingmönnum Bandalags jafnaðarmanna um að Alþingi ályktaði að skora á Ellert B. Schram að segja af sér þingmennsku. Engar umræður eða athugasemdir urðu um úrskurð forseta Alþingis.

Magnús Orri Schram átti sæti í „þingmannanefndinni“ og virtist mikið í mun að það kæmi fram að hann hefði lagt fyrir Alþingi að ákæra þrjá en ekki fjóra fyrrverandi ráðherra án þess þó að hann vildi lýsa því sem sinni skoðun að neinn þeirra væri sekur samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Hann tók sérstaklega fram að Alþingi hefði komist að þeirri niðurstöðu að ákæra bara einn. Þegar hér var komið sögu lagði hann hendur á brjóst sér eins og gert er í barnaafmælum og sagði: „Ég var ekki sammála þeirri niðurstöðu.“ Samt greiddi hann atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde einan og lýsti því yfir að hann væri sama sinnis, ef aftur kæmi til kasta Alþingis að taka ákvörðun! Lái mér hver sem vill þótt ég leitaði leiðbeiningar í Nýja testamenti langömmu minnar Kristjönu Sigurðardóttur á Húsavík: „Því hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. En ef ég gjöri það sem ég vil ekki, þá gjöri ég það ekki framar, heldur syndin, sem í mér býr.“

Samkvæmt 29. gr. stjórnarskrárinnar er það einungis á valdi Alþingis að draga ákæru fyrir landsdóm til baka. Forseti lýðveldisins og þar með sérstakur saksóknari getur vitaskuld lagt það til, en ákæruvaldið er Alþingis eins og Bjarni Benediktsson sagði réttilega í sjónvarpsþættinum. Það er málvenja fyrir því að kalla það kattarþvott þegar Magnús Orri Schram grípur til þess að segja að saksóknari Alþingis hafi haft það í sinni hendi að draga ákæruna á Geir H. Haarde til baka. Hann er að víkja sér undan en ferst það klaufalega af því að sérstakur saksóknari hefur ekki þetta vald.

Rétt er að taka fram að Magnús Orri Schram er þingmaður Samfylkingarinnar.

Höfundur er fyrrverandi forseti Alþingis.

Höf.: Halldór Blöndal