Baksvið
Andri Karl
andri@mbl.is
Ákæra í fyrsta stóra máli embættis sérstaks saksóknara var birt í gær. Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis banka, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs sama banka, eru ákærðir fyrir umboðssvik. Í ákæru segir að brot þeirra séu stórfelld og sakir svo miklar að við þeim liggi allt að sex ára fangelsi. Brotin áttu þátt í að Glitnir féll.
Málið er þó tiltölulega einfalt; í lok janúar 2008 tilkynnti bandaríski bankinn Morgan Stanley að yfirvofandi værir gjaldfelling láns eignarhaldsfélagsins Þáttar International, sem var innan fyrirtækjasamstæðu Milestone, þá í eigu Karls og Steingríms Wernerssona. Auðséð þótti að Morgan Stanley myndi við það ganga að hlutabréfaeign Þáttar í Glitni, sjö prósenta eignarhlut í bankanum, sem var veð fyrir fjárskuldbindingunni. Með því færi hlutaféð á almennan hlutabréfamarkað með yfirvofandi hættu á verðfalli bréfanna.
Óstofnuðu félagi heitið láni
Greiðsla til Morgan Stanley þurfti að berast fyrir miðjan dag 8. febrúar og lán Þáttar var upp á hundrað milljónir evra, eða um tíu milljarða íslenskra króna á sölugengi evru í Seðlabanka Íslands í byrjun febrúar 2008. Mál stóðu þannig að Glitnir gat ekki lánað Milestone eða tengdum félögum þá upphæð án þess að þurfa að vísa slíku lánamáli til umfjöllunar og ákvörðunar stjórnar bankans, sem hefði tekið tíma sem ekki var fyrir hendi.Áhættunefnd bankans ákvað því á fundi 6. febrúar að lána óstofnuðu félagi utan Milestone-samstæðunnar fjárhæðina. Þannig mátti komast framhjá reglum bankans um bann við stórum áhættuskuldbindingum. Félagið var stofnað daginn eftir og nefnt Vafningur. Þegar greiðslan átti að fara fram var Vafningur hins vegar enn eignalaust félag með hálfa milljón króna í hlutafé og ekki hægt að lána því svo háa upphæð. Ákváðu þá Lárus og Guðmundur að lána upphæðina Milestone, sem átti að greiða það til baka þremur dögum síðar.
Sérstakur saksóknari segir að með ákvörðun sinni hafi Lárus og Guðmundur farið út fyrir heimildir sínar auk þess sem heildarlánveitingar bankans til félagasamstæðu Milestone fór 4,1 milljarð króna umfram heimildir. Þá höfðu við útgreiðslu lánsins engar tryggingar verið settar fram og því að öllu leyti undir Milestone komið hvort eða að hversu miklu leyti bætt yrði úr því. Brotið telst þá og þegar fullframið, þar sem Glitni hafði verið valdið verulegri fjártjónshættu.
Vafningur yfirtók lánið
Við lánveitinguna fór í gang flétta Milestone og Glitnis. Lán Þáttar hjá Morgan Stanley var greitt og Vafningi framseld hlutabréf í breska fjárfestingasjóðnum Kjac og í félaginu MacauOneCentralHoldCo, en félögin voru í eigu SJ-2, dótturfélags Sjóvár. Hinn 12. febrúar lánaði Glitnir svo Vafningi tæpar 104 milljónir evra, en þar var um að ræða yfirtöku á láni Milestone. Sem trygging voru lögð fram hlutabréf í Vafningi. „Þar sem Vafningur var ekki með bankareikning í Glitni var lánsfjárhæðin, að frádregnum lántökukostnaði, millifærð á reikning Milestone ehf. 12. febrúar og sama fjárhæð millifærð til Glitnis síðar sama dag.“ Endurgreiðsla lánsins kom því að öllu leyti frá Glitni.En ekki var látið þar við sitja því í ákærunni segir einnig að gögn málsins beri með sér að látið var líta þannig út að Vafningur hafi tekið lánið í stað Milestone 8. febrúar; lánasamningur Glitnis og Vafnings var dagsettur 8. febrúar í stað 12. febrúar. Gögn málsins beri hins vegar með sér aðra og framangreinda atburðarás.
Svartháfur fær einnig lán
Lárus og Guðmundur eru sem fyrr segir ákærðir fyrir umboðssvik og taldir hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með lánveitingunni. Þó svo að lánið hafi verið greitt til baka hafi það verið gert með öðru láni, til Vafnings. Láninu hafi þannig verið velt yfir á Vafning og einu tryggingarnar verið hálf milljón króna í hlutafé.Síðasti hluti fléttunnar fólst svo í að einkahlutafélagið Svartháfur, sem var í eigu föður Karls og Steingríms, tók 188 milljóna evra lán hjá Glitni 29. febrúar sama ár. Það félag lánaði Vafningi 50 milljónir evra sem gengu upp í skuld Vafnings við Glitni. Hvorki Vafningur né Svartháfur greiddu að öðru leyti lán sín.
Í lok ákærunnar segir að lánveitingin 8. febrúar hafi leitt til gríðarlegs fjártjóns fyrir bankann og hafi hún átt þátt í að Glitnir féll í byrjun október. „Óhjákvæmilegt er því að líta svo á að brot ákærðu hafi verið stórfellt. [...] Eru sakir ákærðu svo miklar að við broti þeirra liggur allt að 6 ára fangelsi.“
Félögin
» Þáttur International var að stærstum hluta í eigu Milestone, félags Karls og Steingríms Wernerssona, en félög tengd Einari og Benedikt Sveinssonum áttu um fjórðung í Þætti International. Færður var 7% hlutur í Glitni yfir í Þátt og hann fjármagnaður að hluta með eigin fé en einnig fékk félagið lán hjá Morgan Stanley með veð í hlutunum.
» Svartháfur ehf. var stofnaður til að taka yfir fjármögnun Þáttar International ehf. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 námu nýjar skuldbindingar Svartháfs ehf. 29,3 milljörðum króna. Svartháfur var að fullu í eigu Werners Ívars Rasmussonar, sem jafnframt var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins.
ÁKÆRAN GEFIN ÚT RÉTT FYRIR JÓL
Tímasetning ekki óeðlileg
„Hvað varðar tímasetninguna þá tel ég hana ekki óeðlilega, skjalið var gefið út í síðustu viku og síðan ræðst það af því hvenær birting tekst hver tímasetningin er á því að útgáfa ákærunnar spyrst út,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, spurður út í hvort óeðlilegt teljist að gefa út ákærur svo stuttu fyrir jólahátíðina. Ákæran var birt þeim Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni á föstudaginn síðastliðinn. Ólafur Þór bendir auk þess á að ekki sé að finna neinar takmarkanir að þessu leytinu til í lögum.Hvað varðar rannsókn annarra mála og útgáfu fleiri ákæra ítrekaði Ólafur Þór í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, á sunnudagskvöld, að rannsókn á tíu málum sem tengjast bankahruninu væri að ljúka. Hann gat ekki fullyrt að ákært yrði í fleiri slíkum málum fyrir áramót, en á von á því fljótlega í byrjun nýs árs.
Ákæran í umræddu máli er þriðja ákæran sem embætti sérstaks saksóknara gefur út.
Í lok júní voru þrír menn ákærðir í svokölluðu Exeter-máli. Það voru Jón Þór Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka. Þeir voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur af því að hafa framið umboðssvik með 1,1 milljarðs króna lánveitingu Byrs til Exeter Holding. Saksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.
Annað málið var ákæra á Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Hann var í Héraðsdómi dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrri að hagnýta sér innherjaupplýsingar. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.