Albert Jensen
Albert Jensen
Frá Albert Jensen: "Fyrir okkur sem erum í hjólastól er sífeldur barningur að halda þeim réttindum sem við höfum náð. Nú er borgin að leggja til atlögu við framúrskarandi Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík, en hún er sannkölluð lífæð hjólastólafólks og því sérlega..."

Fyrir okkur sem erum í hjólastól er sífeldur barningur að halda þeim réttindum sem við höfum náð. Nú er borgin að leggja til atlögu við framúrskarandi Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík, en hún er sannkölluð lífæð hjólastólafólks og því sérlega mikilvæg. Án hennar yrði líf mitt allt annað og verra og tel ég að svo sé fleirum farið.

Fatlaðir Kópavogsbúar hafa ótrúlega slæma reynslu af Ferðaþjónustu fatlaðra þar á bæ. Á það lága plan vill borgarstjórnin færa þjónustuna í Rvk. Það er stjórn Kópavogsbæjar til skammar að hafa látið bjóða út þjónustu við lifandi manneskjur. Boðið einstaklingi að græða á þeim eins og búpeningi. Enda er þjónustan eftir því. Nokkrum starfsmönnum þessa fyrirtækis hefur ofboðið græðgi eigandans á kostnað þjónustunnar og hafa flutt sig til Rvk. Auðvitað eru menn misvel gerðir, en flestir komast áfram án þess að troða aðra niður. En hjá þeim sem lítið hafa til brunns að bera, eða vantar vilja til að láta gott af sér leiða, helgar tilgangurinn meðalið. Við slíka persónu stend ég nú í stríði til varnar Ferðaþjónustu fatlaðra í Rvk.

Henni er mikið kappsmál að verða við óskum velferðarráðs um sparnað og heldur að það gangi ef Ferðaþjónusta fatlaðra er lögð niður og verkið boðið út. Það er alveg sama hvernig útboðið er orðað; það er ekki hægt að græða á þessari þjónustu. Sá sem fær þjónustuna ætlar ekki að tapa. Hann mun strax hagræða og endurskipuleggja og þjónustan versna. Það þvælist ekki fyrir þeim vitið og velviljinn, sem ekki sjá þetta. Ótrúlegt hvað velferðarráði gengur vel að fá einstaklinga niður á svo lágt plan, að þeir eru til í að gera líf fatlaðra verra en það er. Engum er sæmd í því. Veit þjóðin að okkur í hjólastólunum er meinað að fara í kirkju á sunnudögum? Eins er með leikhús. Hagræðing sem er skipulögð og unnin af velferðarráði.

Nokkuð öfugsnúið nafn. Við þau er það verst sem ætti að vera best. Frá því að ég slasaðist hef ég reynt að bera mig vel. Ég hef skrifað bók. Var fimmtán ár að því. Er búinn að vera í Árnesingakórnum í Reykjavík frá nítján hundruð og áttatíu. Svo hef ég reynt við ljóð. En með síauknu áreiti frá valdhöfum, á hjólastólafólkið sérstaklega, er líf áttræðs manns orðið þreytandi og lífsviljinn að veslast upp.

ALBERT JENSEN

trésmiður.

Frá Albert Jensen

Höf.: Albert Jensen