TF-Líf Fer í skoðun eftir áramót og nú er leitað að afleysingaþyrlu.
TF-Líf Fer í skoðun eftir áramót og nú er leitað að afleysingaþyrlu. — Morgunblaðið/hag
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Tvær þyrlur bjóðast Landhelgisgæslu Íslands til tímabundinnar leigu þegar björgunarþyrlan TF-Líf fer í níu vikna skoðun til Noregs eftir áramót.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Tvær þyrlur bjóðast Landhelgisgæslu Íslands til tímabundinnar leigu þegar björgunarþyrlan TF-Líf fer í níu vikna skoðun til Noregs eftir áramót. Útboð Ríkiskaupa var opnað í gær og kom þá í ljós að tvær þyrlur bjóðast til leigu, önnur frá Noregi en hin frá Norðurflugi.

Fyrra tilboðið kemur frá Knut Axel Ugland Holding í Noregi og bjóða þeir björgunarþyrlu af gerðinni Super Puma AS332 L1, sem er sömu tegundar og þyrlur Gæslunnar. Leiguverðið er 132.000 bandaríkjadollarar á mánuði eða rúmar sextán milljónir íslenskra króna. Knut Axel Ugland Holding á einnig þyrluna TF-Gná hjá Gæslunni.

Síðara tilboðið er frávikstilboð frá Norðurflugi ehf. Þeir bjóða þyrlu að gerðinni Dauphin AS365N til leigu á 48.550 bandaríkjadollara á mánuði eða tæpar sex milljónir íslenskar krónur. Í útboðsgögnum var gerð krafa um þyrlu af gerðinni Aerospatiale Super Puma og er tilboðið frá Norðurflugi frávik þar sem þyrlan er af gerðinni Dauphin.

Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, segir þessa þyrlu sömu tegundar og gamla TF-Sif var þó að hún sé öðruvísi útbúin. „Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að bjóða ódýrari valkost en er verið að biðja um. Okkar hugsun með því að taka þátt í útboðinu var að þarna yrði valkostur sem hægt yrði að skoða,“ segir Birgir. Útbúa má þyrluna þannig að hún gagnist til björgunar. „Það eru allar festingar í henni og hægt að setja spil og annað,“ segir Birgir.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni verða tilboðsgögnin nú skoðuð vandlega áður en ákvörðun um leigu verður tekin.