The Heart of Robin Hood, leiksýning Royal Shakespeare Company sem Gísli Örn Garðarsson leikstýrir, er meðal þeirra hápunkta sem taldir eru upp í ársyfirliti breska dagblaðsins Independent hvað leiklist í Bretlandi varðar.
Segir í yfirlitinu að leikmynd verksins sé stórkostleg en hana hannaði Börkur Jónsson. Í henni er m.a. græn skíðabrekka, eins og því er lýst í greininni, sem leikarar klífa og renna sér niður. Verkið hefur hlotið mikið lof í breskum fjölmiðlum, m.a. í dagblöðunum Guardian og Telegraph. Ólafur Darri Ólafsson fer með stórt hlutverk í verkinu, Selma Björnsdóttir er aðstoðarleikstjóri, Björn Helgason ljósahönnuður og Högni Egilsson samdi tónlistina.