Kær leiðtogi? Harmi lostnir íbúar í höfuðborginni Pyongyang tjá sorg sína í gær yfir fregninni um dauða Kim Jong-ils, einræðisherra landsins.
Kær leiðtogi? Harmi lostnir íbúar í höfuðborginni Pyongyang tjá sorg sína í gær yfir fregninni um dauða Kim Jong-ils, einræðisherra landsins. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kjon@mbl.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Sá sem segist vita hvað muni gerast er annaðhvort að skrökva eða blekkja sjálfan sig,“ segir fyrrverandi ónafngreindur yfirmaður í herliði Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu um stöðu mála í Norður-Kóreu eftir andlát „Leiðtogans kæra“, Kim Jong-ils. Hann mun hafa látist vegna „gríðarlegs vinnuálags“. En uggur og óvissa ráða nú ríkjum í grannlöndunum. Verðbréf lækkuðu á Asíumörkuðum, herir eru í viðbragðsstöðu, allir búa sig undir óstöðugleika í valdaklíkunni sem ráðið hefur yfir N-Kóreu í meira en hálfa öld og heldur 24 milljónum manna í einangrun, eymd og volæði.

Ástæðan fyrir þessari skelfingu er einföld: klíkan ræður yfir fjórða fjölmennasta her heims og nokkrum kjarnorkusprengjum. Þessum mætti hefur verið beitt til að kúga Vesturveldin; N-Kórea hefur fengið mikið af mat og fleiri nauðsynjar frá S-Kóreumönnum, Japönum og Bandaríkjamönnum á síðari árum. Þessar þjóðir hafa bæði af mannúðarástæðum og ótta við hrun og kjarnorkustríð þannig stutt við bakið á einræðisherrunum.

En ef illa færi gætu hundruð þúsunda þrautþjálfaðra hermanna með geysilegt magn þungavopna á nokkrum klukkustundum verið komnir yfir landamærin til S-Kóreu og inn í Seúl, með sínar 10 milljónir íbúa. Og flugskeytum gæti rignt yfir Japan, annað mesta iðnveldi heims. Kína, Rússland og Bandaríkin myndu blandast inn í átökin.

Sérfræðingar um málefni N-Kóreu álíta að fyrst í stað muni ráðandi öfl fylkja sér um arftakann, Kim Jong-un. En hann er óreyndur og ekki víst að hann nái fullum tökum á hernum. Þar gætu menn lagst gegn enn einum viðræðunum um kjarnorkuvopnin, heimtað klára niðurstöðu, tryggingu fyrir því að þeir haldi sprengjunum. Hatrömm valdabarátta gæti hafist.

Martröð sunnanmanna

„Hér er ungur leiðtogi sem herinn treystir ef til vill ekki og þarf að sanna sig,“ segir Jim Walsh, prófessor við MIT-háskólann í Bandaríkjunum, en hann þekkir vel til málefna N-Kóreu. „Og þetta getur valdið því að menn misreikni sig og stríð brjótist út af vangá.“

Þjóðernissinnaðir S-Kóreumenn fögnuðu dauða þrælabúðastjórans í gær. Aðrir voru óglaðir, bentu á að ef kerfið norðanmegin hryndi gætu milljónir sveltandi flóttamanna streymt suður á bóginn. Álagið fyrir efnahag sunnanmanna yrði óbærilegt, er sagt, jafnvel þótt mönnum tækist að afstýra stríði.

Yfir milljón manna dó úr hungri í N-Kóreu fyrir hálfum öðrum áratug og þriðjungur barna þar í landi er þjáður af vannæringu, að sögn Sameinuðu þjóðanna. En

ríkissjónvarpið í Pyongyang birti í gær myndir af fólki sem grét hástöfum yfir missinum, sumir vafalaust fyrir myndavélarnar. Persónudýrkunin og kúgunin hafa náð slíkri fullkomnun að nálgast súrrealisma. Innrætingin er gegndarlaus og fjölmargir syrgja vafalaust af einlægni, finnst að gerspilltur grimmdarseggurinn Kim Jong-il, sem sjálfur lifði ávallt í miklum munaði, hafi verið velgjörðarmaður þjóðarinnar. Reynslan í öðrum kommúnistaríkjum hefur kennt okkur að innræting virkar á marga – en varla til eilífðar.

RASISMA-KOMMÚNISMI?

Kim ræður að eilífu

Upprunalega var Norður-Kórea kommúnistaríki í anda Leníns og Stalíns og efnahagnum er enn miðstýrt í samræmi við kenningar marxisma, einkarekstur nær enginn. Fálmkenndar tilraunir sem áttu að miða að markaðsumbótum eins og í Kína hafa mistekist. Hugur fylgdi ekki máli. Og stjórnarfarið hefur þróast enn meira í átt til hrottalegs einræðis Kim-feðganna og skyldmenna þeirra með aðstoð hersins, límið sem tryggir samheldni klíkunnar er spillingin.

Athyglisvert er að ekki er lengur minnst á kommúnisma og sósíalisma í stjórnarskrá, að sögn heimildarmanna. Og grímulaus rasismi, með áherslu á yfirburði Kóreumanna, er áberandi.